Sönn hetja

Earvin „Magic“ Johnson er einn mesti körfuboltamaður sögunnar. Nú eru tíu ár liðin frá því hann tilkynnti að hann hefði fengið HIV veiruna. Hann er þó enn við hestaheilsu.

Í gær voru tíu ár liðin frá því að körfuknattleikssnillingurinn Earvin „Magic“ Johnson tilkynnti heimsbyggðinni að hann hefði smitast af HIV veirunni og þyrfti því að leggja keppnisskóna á hilluna. Þessar fréttir vöktu mikla athygli og voru á hvers manns vörum, enda óvenjulegt að sjúkdómurinn legðist á heimsfrægan gagnkynhneigðan íþróttamann. Á blaðamannafundinum, þar sem Magic tilkynnti um sjúkdóminn tilkynnti hann heimsbyggðinni að hann myndi sigrast á sjúkdóminum og að hann óttaðist ekki framtíðina. Flestir dáðust að hugrekki og æðruleysi körfuknattleiksmannsins en sennilega hafa fáir búist við því að honum tækist í raun að halda áfram að lifa eðlilegu lífi. Hinn hræðilegi sjúkdómur myndi draga hann til dauða eins og alla aðra.

Magic hóf að einbeita sér að því að uppfræða ungt fólk og almenning um alnæmi og hefur átt stóran þátt í því að eyða fordómum gagnvart sjúkdómnum og þeim sem þjást af honum. Meðal þess sem barátta hans hafði í för með sér var að sjónvarpsstöðvar í Bandaríkjunum afléttu banni við smokkaauglýsingum fáeinum vikum eftir tilkynninguna. Síðan þá hefur hann komið á fót stofnun, The Magic Johnson foundation, sem starfar um heim allan að uppfræðslu barna og unglinga um heilsutengd mál.

Sem leikmaður var Magic sérstakur. Hann var sannur liðsmaður – algjörlega óeigingjarn og mikill foringi á vellinum. Magic lék í stöðu leikstjórnanda þrátt fyrir að vera 205 sm hár – en enginn svo hávaxinn hefur náð árangri í stöðu leikstjórnanda í NBA deildinni. Hann stýrði liði sínu, Los Angeles Lakers, til fimm meistaratitla í NBA deildinni og var þrisvar sinnum valinn besti leikmaður deildarinnar. Fullyrða má að hlýr og hressilegur persónuleiki hans hafi átt stóran þátt í því að NBA deildin öðlaðist gríðarlegar vinsældir á níunda áratugnum en ásamt Larry Bird og Michael Jordan var hann kjölfestan í upprisu deildarinnar á þeim tíma. Allir skörtuðu þessir menn miklum hæfileikum, persónutöfrum og gáfum.

Í viðtali á CNN í gær sagði Magic að fyrstu þrjú árin eftir að hann tilkynnti um veikindin hafi fólk sagt að hann væri í afneitun. Nú hafa þær raddir þagnað. Magic er við hestaheilsu og nú er svo komið að HIV vírusinn mælist ekki í blóði hans. Rétt eins og hann lýsti yfir á blaðamannafundinum 7. nóv. 1991 þá hefur hann unnið sigur á sjúkdómnum. Væntanlega mun sjúkdómurinn þó einhvern tímann ná að draga hann til dauða en víst er að Magic mun halda áfram að verða innblástur öllum þeim sem glíma við erfiðleika, enda er Magic sannur sigurvegari og góð fyrirmynd. Hann er hetja í anda þess sem lesa má um í ljóðum Hannesar Hafstein. Maður sem klífur í brattann og beitir í vindinn í stað þess að hengja haus. Maður sem ekki gefst upp þrátt fyrir mótlæti í lífinu. Slíkir menn eru vandfundnir og þá ber að taka til fyrirmyndar.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.