Viskí fyrir vínarbrauð

Eins og fyrirsögnin gefur til kynna er í dag fjallað um bílastæða- og skipulagsmál. En svo virðist sem skipulag miðborgar Reykjavíkur henti ekki Reykvíkingum sem best.

Nú verða allir dagar að vera tileinkaðir einhverju og í gær var skipulagsdagurinn. Ekki þannig að allir hafi átt að laga til í geymslunni eða reyna loksins að finna tíma til að fara í ræktina (og léttir eflaust mörgum við það), heldur borga- og svæðisskipulagsdagur.

Ég hélt daginn hátíðlegan með því að hugleiða skipulag miðbæjarins. Mikið hefur borið á röddum þess efnis að hin eftirsótta „miðbæjarstemmning” sé ekki lengur til staðar. Þá er oftast átt við að nú sé aðeins hægt að skemmta sér með áfengi í miðbænum en ekki versla og varla hægt að stinga sér inn á almennilegt kaffihús. Þráinn Bertelsson sagði að hann gæti keypt bjór á 40 stöðum í miðbænum en ef hann vildi kaupa vínarbrauð yrði hann að fara í annað hverfi.

Margir segja að um sé að kenna of mörgum skemmtistöðum, aðrir of fáum lögregluþjónum og enn aðrir segja að lausaganga róna eða drukkinna unglinga á laugardagsmorgnum sé helsta vandamálið. Líklegast er þetta þó bara gamla lögmálið um framboð og eftirspurn. Það er ekki nægilega mikil eftirspurn eftir þeim þáttum sem skapa svona „miðbæjarstemmningu” en því meiri eftir djammi og drykkju. Fólkið velur viskí umfram vínarbrauð.

Við Íslendingar erum bílaþjóð. Við höfum ekki tíma til að ganga eða taka strætó, það er kallt úti og við viljum ráða því sjálf hvaða leið við ökum. Þess vegna er borin von að við getum farið spönn frá rassi án bílsins. Skipulag miðbæjarins er ekki mjög bílvænt. Það er erfitt að finna bílastæði og það er þessi einfalda ástæða fyrir því að við nennum ekki í miðbæinn til að versla.

Þegar kemur að því að skemmta sér erum við liðtæk og fáum okkur venjulega í glas. Þar kemur lagabókstafurinn til og skilur okkur nauðug frá einkabílnum. Þar liggur hundurinn grafinn og þess vegna er það næturlífið en ekki bakarísmenningin sem ríkir í miðbænum. Eftirspurnin eftir þjónustu sem fer ekki saman við akstur er miklu meiri en eftir þjónustu sem fyrir okkur Íslendinga kallar á akstur, því varla förum við að ganga eða fara í strætó með innkaupapoka eða nýju buxurnar.

Til að upplifa „miðbæjarstemmningu” er því líklega best að fara í Kringluna. En ef við viljum fá hana í miðbæinn sjálfan þarf með einhverjum hætti að jafna eftirspurnina milli skemmtistaðanna og hinna. Í fljótu bragði sé ég tvær leiðir til þess; annars vegar að fjölga bílastæðum og hins vegar að leyfa ölvunarakstur í miðbænum.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)