Smáatriðin

Það er pirrandi, í því allsnægtasamfélagi sem við búum í, að þeir sem sjá okkur fyrir vörum og þjónustu skuli sí og æ klikka á smáatriðum sem þeir hefðu átt að sjá fyrir. Hlutirnir ættu einfaldlega að virka, en oft á tíðum stendur eitt lítið atriði út af og veldur gremju.

Það er pirrandi að reykskynjarar skuli ekki vera með „snooze“ takka, eins og eru á vekjaraklukkum. Ef eldamennskan fer aðeins úrskeiðis (sem gerist á bestu bæjum) fara í gang þvílík óhljóð að þau verður að stöðva, sem ekki er hægt öðruvísi en að taka rafhlöðuna úr. Ef það væri nú bara lítill takki sem slökkti á óhljóðunum í svona korter, svo tími gæfist til að reykræsta, væri þetta miklu minna mál. Fyrir utan tímann sem það tekur að losa rafhlöðuna, þá er hún oft á tíðum ekki sett í aftur á eftir, svo reykskynjarinn er orðinn vita gagnslaus.

Það er pirrandi að bílaútvarpið mitt skuli vera með sautján tökkum. Sérstaklega þegar sami takkinn er notaður til að kveikja, slökkva og víxla á milli geislaspilara og útvarps. Af þessum sautján tökkum eru alls sjö sem aldrei hefur verið ýtt á nema í misgripum, enda virðast þeir ekkert gera nema helst að gera útvarpið ónothæft. Þetta þyrfti ekki að vera svona flókið.

Það er pirrandi að kunna ekki að taka upp á tíma á vídeóinu. Ég hef aldrei rekist á vekjaraklukku sem mér tókst ekki að stilla fyrir rest. Maður skyldi ætla að tímaháð myndbandsupptaka ætti að vera svipuð í framkvæmd. Stilla á rétta stöð, velja tíma, og ýta á „on“ eða „enter“. En þetta er ekki svo einfalt. Sum myndbandstæki leyfa reyndar margar upptökur og geta jafnvel skipt um stöð í miðju kafi. Fjölbreyttir valmöguleikar gera hins vegar lítið gagn ef þeir eru svo flóknir að ekki er hægt að nýta þá.

Það er pirrandi að öll nýju mislægu gatnamótin sem verið er að byggja skuli vera ljósum skreytt eins og jólatré. Var ekki markmiðið að flýta fyrir umferðinni? Höfðabakkabrúin og Skeiðarvogsslaufan voru slæmar, en ófreskjan sem nú stendur á mótum Reykjarnesbrautar og Breiðholtsbrautar slær öllu við. Fróðir menn segja að nema þurfi staðar allt að fimm sinnum á þessum gatnamótum, og að árekstrum á „umferðarmannvirkið“ eins og þessi ómynd er kölluð, hafi fjölgað til muna frá því sem áður var. Venjulegar, ljóslausar slaufur hafa reynst vel og eru rétta lausnin, þótt þær séu aðeins dýrari.

Það er pirrandi að Lyngdalsheiðin skuli vera lokuð í mars. Lyngdalsheiðin er hluti af „Gullna hringnum“ sem ferðamenn fara og undarlegt að þeim sé gert að fara þennan illa lagða veg til að geta séð náttúruperlur Íslands. Þeir Íslendingar sem vilja komast frá Laugarvatni til Þingvalla utan hábjargræðistímans þurfa að taka á sig 37 kílómetra krók. Almennilegur vegur yfir Lyngdalsheiðina kostar brot af því sem jarðgöng kosta, en þó eru þau byggð í staðinn út um allt land.

Það er pirrandi að ekki skuli vera hreyfiskynjari inni í snúningsdyrunum uppi í Smáralind, heldur einungis fyrir framan þær og aftan. Þetta veldur því að ef gengið er í hringi inni í dyrunum í nokkurn tíma þá stoppa þær, og hlutaðeigandi festist inni í þeim. Þá er ekki neitt að gera annað en að bíða eftir því að góðhjartaður vegfarandi gangi að hurðinni og veifi höndinni, til að setja dyrnar aftur af stað.

Það er hinsvegar yndislegt að búa við þau forréttindi að geta pirrað sig yfir smáatriðunum. Út um allan heim er fólk sem myndi kalla þær athugasemdir sem fram koma í þessum pistli aumingjalegt nöldur. Næst þegar við pirrumst yfir einhverju í líkingu við þetta skulum við leiða hugann að þeim sem eiga við raunveruleg vandamál að etja og þakka fyrir smáatriðin.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)