Nýstárleg árás markar upphaf seinni Flóabardaga

Herför Bandaríkjamanna og Breta á hendur stjórnvöldum í Írak hófst í nótt – þó með nokkuð öðrum hætti en fyrirfram hafði verið búist við.

Herför Bandaríkjamanna og Breta á hendur stjórnvöldum í Írak hófst í nótt – þó með nokkuð öðrum hætti en fyrirfram hafði verið búist við. Í stað þess að 3.000 nákvæmum sprengjum rigndi yfir hernaðarlega mikilvægi staði í Írak, eins og gefið hafði verið í skyn, var árásinni eingöngu beint að æðstu stjórnendum Íraka, einkum og sér í lagi væntanlega Saddam Hussein.

Í öllum fjölmiðlahasarnum var þetta eins og hálf misheppnað gamlárskvöld framan af, eða kosningavaka þar sem engar tölur bárust. Og svo þegar lætin byrjuðu, þá fæddist bara lítil mús – engin skildi neitt í neinu og fréttamenn töluðu í hálfgerðum afsökunartón við áhorfendur sína, að þetta væri nú ekki samkvæmt áætlun og alls ekki það sem auglýst hafði verið.

En þetta nýstárlega upphafs stríðsins virðist hafa haft tilætluð áhrif, burtséð frá því hvort aðgerðirnar hafi náð endanlegu markmiði sínu – að afhausa íraska herinn. Nú þegar um sex tímar eru liðnir frá því að 40 stýriflaugum var skotið á fimm bækistöðvar í Baghdad, ríkir enn óvissa um afdrif Saddam Husseins. Sú óvissa hlýtur að vera óbærileg fyrir óbreytta hermenn Íraka. Ekki nóg með að þeir eigi dauðan vísan þegar her bandamanna ryðst inn, heldur er hugsanlegt að þeir láti lífið fyrir steindauðan einræðisherra.

Flestir fréttaskýrendur eru sammála um að fyrstu stig hinnar raunverulegu árásar muni gefa innrásarliðinu mikið forskot. Málið kann hins vegar að vandast verulega þegar kemur að því að hertaka höfuðborgina. Borgarhernaður er eitt helst vandamál nútímahernaðar og sá þáttur þar sem nútímatækni kemur að minnstum notum. Um 40.000 úrvalshermann Íraka munu verja Baghdad fram í rauðan dauðann, ef að líkum lætur. Þegar Rauði herinn réðst inn í Téténíu fyrir þremur árum leystu þeir umsátrið um Grosný með því að jafna borgina við jörðu. Ólíklegt er að þeirri aðferð verði beitt af herjum Bandaríkjamanna og Breta.

Ólíkt Kosovo-stríðinu er ekki ósennilegt að Bandaríkjamenn og Bretar verði fyrir nokkru mannfalli nú. Hertaka lands er einfaldlega allt annað mál en sprengja það aftur á steinöld. Mannfall gæti orðið og nokkuð og þá mun reyna gífurlega á forystu Georges Bush og Tonys Blair heimafyrir.

Hugsanlega munu bandamenn beita takmörkuðum árásum í nokkra daga, freista þess að lama baráttuþrek íraska hersins og hreinlega taka heimamenn á taugum. Annað markmið með slíkum takmörkuðum hernaði gæti verið að knýja Íraka til að beita efnavopnum þeim sem þeir eru sagðir hafa undir höndum. Þar með fengist óræk sönnun fyrir því sem Bandaríkjamenn og Bretar hafa haldið fram allan tímann og allsherjarstríð myndi væntanlega ekki mæta mikilli mótspyrnu í alþjóðasamfélaginu. Í slíku tilviki er líklegt að öryggisráðið myndi gefa grænt ljós á hernaðinn eftir á, eins og það gerði í Kosovo-stríðinu.

Staðan er þess vegna nokkuð kaldhæðnisleg. Ef herir bandamanna mæta lítilli mótspyrnu, engum gjöreyðingarvopnum verður beitt, þá munu spurningar vakna um sjálft tilefni herfararinnar. Þá verður þetta í raun lítið annað en hertaka vanþróaðs ríkis með ruglaðan einræðisherra – og það er í sjálfu sér af nóg af slíkum ríkjum í heiminum til að hertaka. Það er þess vegna ekki síður mikilvægt fyrir bandamenn að þeir finni gjöreyðingarvopn heldur en stríðið sjálft gangi vel fyrir sig.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.