Af könnunum

Þegar nálgast kosningar eru nýjar skoðanakannanir tilefni frétta í öllum fjölmiðlum. En eru þessar kannanir marktækar og hvaða áhrif hafa þær?

Mörgum verður tíðrætt um niðurstöður skoðanakannana sem nú hellast yfir landsmenn. Þetta er eðlilegur hlutur í aðdraganda kosninga enda hvort tveggja áhugavert og skemmtilegt að fylgjast með þróun kjörfylgis flokka. Kannanirnar eru hins vegar misjafnlega vel gerðar og sumar þeirra eru reyndar alls ekki marktækar. Ekki verður farið út í aðferðafræðina að baki þeim í þessum pistli en hins vegar er ástæða til að benda fólki á að skoða stærð úrtaksins og svarhlutfall.

Síðustu vikur hefur helsta fréttin verið góð útkoma Samfylkingarinnar og sá möguleiki að Sjálfstæðisflokkurinn verði ekki stærsti flokkur landsins eftir kosningar. En einnig er athyglisvert að fylgjast með baráttu Framsóknar, sérstaklega í Reykjavík þar sem formaðurinn virðist ekki öruggur með sæti á Alþingi. Vinstri-Grænir hafa markað sér skýra sérstöðu í litrófi stjórnmálanna og virðast uppskera samkvæmt því. Frjálslyndir eiga á brattan að sækja og þurfa að hafa sig alla við ætli þeir að ná inn manni. Reynslan úr Borgarstjórnarkosningunum sýndi þó að aldrei er hægt að afskrifa þá.

Á næstunni hefst hin eiginlega kosningabarátta þegar frambjóðendur og stuðningsmenn kappkosta að auka fylgi flokkanna. Flestir munu túlka skoðanakannanir í eigin hag og eins og venjulega tapar enginn. Til að fylgjast með þessum frumskógi hefur nýjum vef verið komið á fót sem kallast Stjórnmál.net. Að vefnum stendur hópur fólks sem vill tryggja óháðan umræðuvettvang fyrir kosningarnar. Þar er einnig boðið upp á mjög öfluga reiknivél sem gefur fólki kleyft að sjá skiptingu þingsæta miðað við kannanir.

Áhrif skoðanakannana eru umdeild. Sumir halda því fram að kjósendur flykkist að þeim sem best kemur út úr könnunum, aðrir segja að góð útkoma flokks efli andstæðinga hans. Hvort heldur þá er víst að næstu tvo mánuði verða þær eitt vinsælasta umræðuefnið á kaffistofum landsmanna.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)