Varnarsigur sérhagsmuna

Þegar fyrirtæki, stofnun eða sérhagsmunahópur sér fram á aukna samkeppni um hagsmuni sína, eru viðbrögðin fyrirsjáanleg. Aðilinn reynir eðlilega að koma í veg fyrir samkeppnina eða draga úr henni með öllum mögulegum leiðum. Það er eðlilegt og skiljanlegt, en hryggilegt þegar löggjafinn lætur undan þrýstingi í þá átt. Það gerðist því miður í liðinni viku þegar allsherjarnefnd Alþingis neitaði að afgreiða frumvarp til breytinga á lögum um lögmenn.

Á liðnum vikum hefur farið fram mikil barátta sérhagsmunahópa gegn nýju frumvarpi til breytinga á lögum um lögmenn. Í hnotskurn gekk nýja frumvarpið út á að leyfa öðrum skólum en HÍ að útskrifa lögfræðinga, sem geta í kjölfarið þreytt próf til þess að gerast héraðsdómslögmenn. Þessir hópar hafa nú unnið ákveðinn varnarsigur, þar sem nú er ljóst að frumvarpið náði ekki fram að ganga á liðnu þingi.

Pistlahöfundur er ekki alls ókunnur baráttu fyrir sérhagsmunum, frá því að hann sat í stjórn nemendafélags við HÍ fyrir nokkrum árum. Að sjálfsögðu hefði það verið að skorast undan merkjum ef menn hefðu ekki barist með kjafti og klóm fyrir þeim fríðindum sem skjólstæðingar félagsins bjuggu að, og reyna að auka við þau. Enda voru forsvarsmenn annarra nemendafélaga að bítast um þessi sömu fríðindi, á nákvæmlega sömu forsendum.

Það er því ekkert óeðlilegt við það að þeir sem telja sig missa spón úr aski sínum með nýju frumvarpi til laga um lögmenn hafi barist hart gegn því að frumvarpið næði fram að ganga. Það sem er sorglegt er að löggjafinn skuli hafa látið undan þessum þrýstingi og komið í veg fyrir samþykkt frumvarpsins á þessu þingi, en Framsóknarflokkurinn, samur við sig, neitaði að afgreiða það úr allsherjarnefnd Alþingis.

Meðal andstæðinga frumvarpsins voru skólayfirvöld HÍ, sem hafa barist harkalega gegn öllum þeim breytingum sem orðið hafa á undanförnu, í þá átt að gera háskólanám á Íslandi að samkeppnisrekstri. Lögmannafrumvarpið fækkar enn þeim námsbrautum sem HÍ situr einn að og því rökrétt að því sé mótmælt. Samherjar háskólayfirvalda eru aðilar úr hagsmunasamtökum lögmanna, sem sjá fram á aukið framboð á lögmönnum og hugsanlega kjararýrnun í stéttinni með aukinni samkeppni. Hagsmunasamtök stúdenta í HÍ, sem tala máli laganema við HÍ hafa tekið undir mótmælin, enda verður með samkeppni ákveðin gengisfelling á lagaprófi frá HÍ, sem hefur verið eina viðurkennda lagaprófið á Íslandi hingað til.

Þessi hagsmunasamtök hafa að sjálfsögðu ekki talið upp ofangreind rök í málflutningi sínum, heldur hafa þau beitt fyrir sig þeirri gamalreyndu vinstriklisju að vernda þurfi neytendur fyrir því að kaupa þjónustu af vanhæfum og illa menntuðum aðilum. Það er ákveðin vísbending um gildi slíkra raka almennt að hagsmunasamtök neytenda hafa sjaldan beitt þeim, heldur eru það hagsmunasamtök „framleiðenda“ þjónustunnar sem grípa til þeirra.

En burtséð frá því hvort markaðurinn gæti tekist á við vanhæfa lögmenn, er rétt að skoða frumvarpið sé líklegt til að setja menntunarkröfur lögmanna í uppnám. Málsgreinin sem deilurnar snúast um hljómar í núverandi lögum á eftirfarandi hátt:

Réttindi til að vera héraðsdómslögmaður má veita þeim sem um þau sækir og fullnægir þessum skilyrðum:

[…]

4. hefur lokið embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands,

5. stenst prófraun skv. 7. gr.

en yrði skv. breytingunni:

Réttindi til að vera héraðsdómslögmaður má veita þeim sem um þau sækir og fullnægir þessum skilyrðum:

[…]

4. hefur lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis-eða meistaraprófi frá lagadeild háskóla sem viðurkenndur er hér á landi samkvæmt lögum um háskóla.

5. stenst prófraun skv. 7. gr.

Í 7. gr. er svo allítarleg útlistun á því hvernig prófrauninni skal háttað, en hún er í umsjá nefndar á vegum dómsmálaráðherra. Breytingin er semsagt sú að í stað þess að tilgreina HÍ sérstaklega er viðurkenndum háskólum heimilt að útskrifa lögfræðinga sem öðlast geta lögmannsréttindi. Menntamálaráðherra hefur umsjón með háskólum og annast eftirlit með gæðum þeirra, skv. lögum um háskóla.

Meðal þess sem andstæðingar frumvarpsins hafa fundið að frumvarpinu er að engar gæðakröfur sé þar að finna. Eins og sést að ofan hafa aldrei verið lagðar upp neinar gæðakröfur til laganáms umfram annað nám og því er undarlegt að fundið sé að því nú.

Breytingarnar á lögunum um lögmenn eiga sér fordæmi í lögum um viðskiptafræðinga og hagfræðinga, en þeim var breytt á síðasta ári til að endurspegla þá staðreynd að HÍ er ekki lengur eini skólinn sem býður upp á nám í þeim greinum. Það hefði verið eðlilegt að fylgja því fordæmi og vísa til háskólalaga á sama hátt hér, í stað þess að gera tilraun til að útlista allt sem lögmenn þurfa að kunna í lagabókstafnum sjálfum.

Með breyttu umhverfi eru fræðisvið lögmanna að verða stöðugt sérhæfðari og krafan um lögfræðinga með sérhæfingu á ýmsum sviðum viðskipta verður sífellt sterkari. Í slíku umhverfi er eðlilegt að eftirlitsaðilar og menntastofnanir hafi ákveðið svigrúm til að sinna mismunandi þörfum. Þær hugmyndir sem sumir andstæðingar frumvarpsins hafa haft uppi, um einhvers konar „samræmt próf“ í lögfræði eftir fimm ára háskólanám, hljóma í eyrum pistlahöfundar sem hreinasta firra.

Það er vonandi að frumvarpið fari fljótt og örugglega í gegn á næsta þingi, enda laganemar annarra skóla í talsverðri óvissu þar til það hefur verið samþykkt. Ef farin verður sú leið að útlista ítarlegar menntunarkröfurnar í lögunum sjálfum er grundvallaratriði að námsskrá lagadeildar HÍ verði ekki einfaldlega bundin í lög, enda eru breyttar áherslur í kennslu hinna háskólanna meðal annars til komnar vegna óánægju með fyrirkomulag kennslu við þá deild.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)