Hverjum á maður að trúa?

Ég þekki mann sem þekkir Árna frá Vestmannaeyjum og segir að hann sé bara fínn karl. Ég efast ekki um að Árni sé drengur góður og að hann hafi sinnt kjördæmi sínu vel, það hvarflaði aldrei að nokkrum manni að hann væri afbrotamaður.

Að undanförnu hefur heiðarleiki stjórnmálamanna verið mál málanna. Ingibjörg sakar Davíð um að leggja ákveðin fyrirtæki í einelti, Davíð gefur til kynna að ákveðið fyrirtæki hafi reynt að bera á sig fé, Hreinn segir að það hafi nú bara verið sagt í hálfkæringi eða gríni, Jón Ásgeir segist ekki kannast við neitt og Illugi Gunnarsson segist hafa heyrt allt saman.

Opinberir starfsmenn hafa gerst sekir um að draga að sér fé, stjórnarformenn ríkis- og borgarfyrirtækja gera samning við þau um ráðgjöf gegn háu gjaldi, forstöðumenn stofnana taka unnustur og börn með sér til útlanda á okkar kostnað. Stöður í ríkisstofnunum eru veittar skv. kvótakerfi flokkanna, jafnt vinstri, miðju og hægri flokkar. Ráðherra skipar í stöðu framkvæmdarstjóra spítala á Suðurnesjum þvert á vilja stjórnar stofnunarinnar. Sendiherrastöður eru fyrir uppgjafa pólitíkusa með glæsta fortíð en litla framtíð.

Leiðtogar borgarinnar byggja 3ja milljarða háhýsi, dæla fé inn í verðlaus .COM (eða frekar .NET) fyriræki. Í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur er lóðum úthlutað til vina og vandamanna. Bæjarstjórar lítilla sveitarfélaga fá forstjóralaun og keyra um á fjallabílum (skiptir ekki máli).

Ingibjörg Sólrún lofar Reykvíkingum að skipta ekki um starfsvettvang í maí, er þó komin í þingframboð og hætt sem borgarstjóri 9 mánuðum seinna. Landsmenn fylkja sér um hana sem næsta forsætisráðherra.

Sverrir Hermansson lætur Landsbankann kaupa veiðileyfi af sjálfum sér og þarf að láta af störfum sem bankastjóri í kjölfarið. Stofnar svo stjórnmálaflokk sem berst fyrir kjörum þeirra sem minna eiga, hann flaug inn á þing.

Utanlands lýgur Bill Clinton að bandarísku þjóðinni og er vinsælli sem aldrei fyrr, náðar vini og velgjörðarmenn á síðustu dögum ferils síns og er nú eftirsóttasti fyrirlesari heims. ,, I did not have a sexual intercourse with that woman”, “ I never inhaled”……….

Skiptir heiðarleiki einhverju máli?