Öræfatöfrar Íslands

Varla kom það nokkrum á óvart að Alþingi skyldi samþykkja lög um Álverksmiðju í Reyðarfirði. Stjórnarfrumvarpið var samþykkt með miklum meirihluta greiddra atkvæða, 41 gegn 9 og 1 sat hjá. Hins vegar vakti það furðu að 12 þingmenn skyldu ekki sjá sóma sinn í því að vera viðstaddir atkvæðagreiðsluna og taka afstöðu.

Framkvæmdin þegar litið er á hana í heild sinni, virkjunina og álverið, er sú stærsta einstaka framkvæmd sem nokkurn tímann hefur staðið til að ráðast í og gildir einu hvort hún er metin á efnahagslegum forsendum eða út frá þeim gríðarlegu umhverfisspjöllum sem hún mun valda.

Það er síður en svo ljóst að framkvæmdin komi til með að verða þjóðhagslega hagkvæm þegar upp er staðið. Hins vegar er það ljóst að framkvæmdin er verulega áhættusöm fyrir þjóðina, Landsvirkjun og þá aðila sem standa að henni. Bent hefur verið á að vextir munu rjúka upp úr öllu valdi samfara styrkingu krónunnar og röskun annarrar atvinnustarfsemi.

Án þess að gert sé lítið úr þeirri efnahagslegu áhættu sem fylgir framkvæmdinni þá er stóra málið þær óafturkræfu skemmdir á náttúru landsins sem munu verða á hingað til ósnortinni náttúru norðan Brúarjökuls. Skiptir þá engu að sökkva eigi yfirlýstu friðlandi að stórum hluta og eyðileggja fossa, gljúfur og fagurt gróið land.

Enginn þarf að velkjast í vafa hver mín afstaða er til framkvæmdarinnar. Sama frá hvaða sjónahorni ég lít á hana þá finnst mér hún jafn arfavitlaus. Því miður eru ekki eru allir sama sinnis eins og raun ber vitni. Þjóðin hefur skipst í tvær fylkingar og flestir hafa einhverja skoðun fram að færa þó ekki allir.

Aðalmálið í mínum huga er náttúrlega hversu dapurlegt það er að frumvarpið hafi verið samþykkt. Það er hins vegar algjörlega óásættanlegt að það skuli líðast að stór hluti þingmanna sjái ekki ástæðu til þess að taka afstöðu í þessu máli og hafi ekki fyrir því að greiða atkvæði. Af 63 þingmönnum voru 12 fjarstaddir af þeim höfðu þó þrír haft fyrir því að biðja um fjarvistarleyfi þegar kom til atkvæðagreiðslu um frumvarpið í lok 3. umræðu. Þingmennirnir níu sem sýndu þinginu, þingræðinu, þjóðinni og sérstaklega öllum þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni um fyrirhugaðar framkvæmdir lítilsvirðingu eru:

Einar K. Guðfinnsson varaformaður þingflokks Sjálfstfl., Gísli S. Einarsson Samf., Guðrún Ögmundsdóttir Samf., Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og formaður Framsfl., Jóhann Ársælsson varaformaður þingflokks Samf.,Kristján L. Möller Samf., Sverrir Hermannsson varaformaður þingflokks Frjálsl., Ásta R. Jóhannesdóttir Samf. og Össur Skarphéðinsson formaður Samf..

Nú er það náttúrlega þannig að enginn þarf að efast um að skussunum níu bar að mæta til atkvæðagreiðslunnar samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis. Þetta er klárt brot á fundarsköpum Alþingis enda segir í 64. gr. laganna:

„Skylt er þingmanni að vera viðstaddur og taka þátt í atkvæðagreiðslu nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi.“

Auðvitað er það algjörlega óviðeigandi að þegar kemur að loka atkvæðagreiðslu máls af þessu umfangi að vera ekki viðstaddur atkvæðagreiðsluna. Það er ekki til of mikils mælst af mönnum að mæta til vinnu sinnar eigi þeir þess kost. Ósennilegt er að þingmennirnir hafi verið að sinna mikilvægari verkefnum en hugsanlega voru þeir að fást við eitthvað skemmtilegra. Það er nefnilega ekkert skemmtilegt að bera ábyrgð á einhverjum mestu náttúruspjöllum frá landnámi. Þeir eru vitanlega ekki stikkfríir þrátt fyrir fjarveruna, langt frá því.

Vonandi eru einhverjar aðrar skýringar á fjarveru þingmanna, aðrar en að reyna að koma sér hjá því að láta afstöðu sína í ljós. Hafi þingmennirnir sér einhverjar málsbætur þá ættu þeir að skýra frá þeim strax enda orðstír þeirra að veði. Hafi þeir einfaldlega ekki viljað vera viðstaddir þá eiga þeir varla nokkuð erindi á þing.

Að lokum er það þess virði að benda á að víða annars staðar eru þingmenn sektaðir ef þeir mæta ekki til þingfunda eða eru ekki viðstaddir atkvæðagreiðslur án þess að hafa löglega boðaða fjarvist. Þess ætti ekki að vera þörf hafi þingmenn hugrekki til að láta skoðanir sínar í ljós og sjá sóma sinn í því að vera viðstaddir að minnsta kosti þegar jafn mikið er í húfi og nú.

Latest posts by Eðvarð Jón Bjarnason (see all)