Málsvörn Bjarna

Sunnudaginn sextánda þessa mánaðar birtist á Deiglunni eftir Bjarna Ólafsson greinin „Dómar í málum stríðsglæpamanna”, þar sem hann fjallaði í stuttu máli um belgísk lög um allsherjarlögsögu í málum stríðsglæpamanna. Mikael Torfason sendi Deiglunni bréf þar sem áðurnefnd grein er gagnrýnd, og er nú aftur komið að Bjarna að verja hendur sínar.

Sunnudaginn sextánda þessa mánaðar birtist á Deiglunni eftir mig greinin „Dómar í málum stríðsglæpamanna”, þar sem ég fjallaði í stuttu máli um belgísk lög um allsherjarlögsögu í málum stríðsglæpamanna. Reyndi ég þar að færa fram rök fyrir þeirri skoðun minni að réttarhöld yfir meintum stríðsglæpamönnum ættu helst að fara fram í þeim ríkjum þar sem glæpirnir voru framdir, en ef það reynist ómögulegt ætti Alþjóðlegi stríðsglæpadómstólinn að taka þau fyrir. Samkvæmt belgísku lögunum má hins vegar sækja meinta stríðsglæpamenn til saka fyrir belgískum dómstólum þótt hvorki brotamaður né þolandi séu belgískir og þótt glæpurinn hafi ekki verið framinn í Belgíu.

Óttast ég að taki fleiri ríki þetta fyrirkomulag upp eftir Belgum gætu slíkir dómar orðið að pólitísku vopni í diplómatísku valdabrölti ríkja í millum. Ef menn verða dæmdir sekir um stríðsglæpi í þeim tilgangi einum að koma á þá höggi, en ekki vegna þess að þeir hafi í raun gerst sekir um slík óhæfuverk er ljóst að um ákveðna gengisfellingu á hugtakinu „stríðsglæpur” er að ræða.

Gott og vel, ekkert ógurlega flókin pæling, þótt eflaust séu fjöldamargir sem telja ótta minn tilhæfulausan og fordæmi Belga frekar til eftirbreytni. Rithöfundinn Mikael Torfason má hugsanlega telja til þessa hóps, en hann var ósáttur við pistilinn og sendi ritstjórn Deiglunnar bréf þar sem hann setur fram gagnrýni sína í rituðu máli.

Við lestur bréfsins (sem nálgast má hér) er manni hins vegar ekki ljóst hvað það var í pistlinum sem fór svona í taugarnar á Mikael – í raun virðist hann vera að gagnrýna einhvern allt annan pistil en þann sem ég skrifaði. Í því sakar Mikael mig um að hafa haldið fram einhverri siðferðilegri afstæðiskenningu um stríðsglæpi, sem í felst að Bandaríkjamenn eða önnur Vesturlönd séu ófær um að fremja slík afbrot.

Að sjálfsögðu eru Vesturlönd fær um að fremja hina verstu stríðsglæpi – þau fundu flesta þeirra upp í stríðum sín á milli og við ólánsama íbúa annarra heimsálfa – en það breytir ekki þeirri skoðun minni að réttarhöld yfir þeim sem slíka glæpi fremja (hverrar þjóðar sem þeir eru) eigi að fara fram í því ríki þar sem glæpurinn var framinn, eða fyrir Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum. Belgíska fyrirkomulagið er að mínu mati gagnlítið og er hugsanlega hættuleg fyrirmynd.

Það er lítið í bréfi Mikaels sem er svaravert, enda sér hver sá sem les upprunalega pistilinn hversu fjarri efni hans Mikael er í gagnrýni sinni. Ég stend annars í þeirri trú að við Mikael séum sammála um meginatriðin: Að stríðsglæpir, eins og aðrir glæpir gegn mannúð og mannkyni, séu hræðilegir og að þeim sem fremja slík afbrot eigi að refsa.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)