Ísland í vitlausu liði

Íslensk stjórnvöld voru í vikunni í góðra vina hópi afturhaldsafla þegar þau höfnuðu tillögum innan WTO um aukin viðskipti með landbúnaðarvörur. Önnur ríki sem höfnuðu tillögunni voru Noregur, ESB, Japan og S. Kórea. Í góða liðinu voru hins vegar Bandaríkin, Kanada, Brasilía og fjöldi þróunarríkja.

Nú á dögunum fylktu fulltrúar Íslands liði með öðrum afturhaldsöflum innan Alþjóðaviðskipastofnunarinnar (WTO) og höfnuðu málamiðlunartillögu um aukið frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Íslensk stjórnvöld segja að tillögurnar gangi of langt, taki ekki nægilegt tillit til þátta sem ekki eru viðskiptalegs eðlis og gefi landbúnaðinum ekki raunhæf tækifæri til aðlögunar.

Málamiðlunartillagan gerði ráð fyrir að niðurgreiðslur til útflytjenda landbúnaðarvara yrðu lækkaðar um 50% innan fimm ára og felldar alveg niður á níu árum. Hún gerði einnig ráð fyrir allt að 60% lækkun á öðrum niðurgreiðslum og 25-60% lækkun á tollum.

Afstaða íslenskra stjórnvalda til þessara tillagna er þeim til háborinnar skammar. Með þessu eru íslensk stjórnvöld að taka hagsmuni pínulítils hóps fram yfir hagsmuni þorra landsmanna. Þau eru að skerða hag þorra landsmanna með háu vöruverði og óþarfa ríkisútgjöldum svo unnt sé halda uppi óhagkvæmum atvinnurekstri.

Hvaða vit er í því að við Íslendingar, á hjara veraldar, séum að standa í því að framleiða matvæli með ærnum tilkostnaði þegar aðrar þjóðir eru tilbúnar að selja okkur matinn mun ódýrar. Við erum efnuð þjóð með vel menntað vinnuafl og höfum því hlutfallslega yfirburði í framleiðslu annars konar vöru og þjónustu.

Enn mikilvægari rök fyrir auknu frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur eru mikilvægi slíkra viðskipta fyrir þróunarríki. Mikilvægasta þróunaraðstoðin sem ríkar þjóðir geta veitt fátækum er aðgangur að mörkuðum fyrir vörur eins og matvæli og fatnað. Með núverandi stefnu sinni eru íslensk stjórnvöld að leggja stein í götu fátækustu þjóða heims.

Alveg frá því að ég man eftir mér hef ég heyrt söng um að landbúnaðurinn þurfi aðlögunartíma til þess að takast á við aukið frelsi. En síðan líða árin eitt af öðru og lítið gerist. Núverandi stjórnvöld hafa haft nægan tíma til þess að draga úr stuðningi við landbúnaðinn og hafa gert allt of lítið. Aðgerðir þeirra á síðustu dögum virðast því miður gefa til kynna að það sé ekkert að breytast. En það eina sem maður getur gert í því efni er að hafa þetta í huga þegar maður kýs í vor.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.