Gamla og nýja Evrópa

Raunverulegar og ímyndaðar gjár milli Evrópu og Bandaríkjanna og brestir í samskiptum þeirra í millum eru sígild umræðuefni dálkahöfunda beggja vegna Atlantshafsins, sérstaklega nú þegar deilt er um aðgerðir gegn Írak. Fullyrðingar um óbrúandi bil eru samt stórlega ýktar.

Raunverulegar og ímyndaðar gjár milli Evrópu og Bandaríkjanna og brestir í samskiptum þeirra í millum eru sígild umræðuefni dálkahöfunda beggja vegna Atlantshafsins. Undanfarna mánuði og misseri hafa slíkar umræður helst snúist um mismunandi afstöðu ESB og Bandaríkjanna til hugsanlegs stríðs við Írak.

Ef litið er á afstöðu franskra og þýskra stjórnvalda í málinu sem afstöðu Evrópusambandsins eða álfunnar allrar, eru fullyrðingar um óbrúanlegt bil milli Evrópu og Bandaríkjanna skiljanlegar. En opin bréf, sem aðrir Evrópuleiðtogar hafa sent frá sér undanfarna daga, sýna svo ekki verður um villst að slíkar fullyrðingar eru ekki á rökum reistar.

Flestir þekkja bréfið sem leiðtogar Bretlands, Spánar, Ítalíu, Portúgals, Ungverjalands, Tékklands, Póllands og Danmerkur sendu frá sér þann 30. janúar síðastliðinn. Nú hafa forsætisráðherrar Albaníu, Búlgaríu, Króatíu, Eistlands, Lettlands, Litháens, Makedóníu, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu, sent frá sér bréf svipaðs efnis þar sem lýst er yfir stuðningi ríkisstjórna landanna við aðgerðir gegn Írak.

Þegar ljóst er að átján evrópuríki, þar af þrettán sem annað hvort eru nú þegar í Evrópusambandinu eða munu ganga í það árið 2004, styðja stefnu Bandaríkjanna gagnvart Írak er ljóst að kenningar um gapandi gjár milli Evrópu og Bandaríkjanna eru ekki á rökum reistar.

Tvær aðrar ályktanir má draga af útgáfu bréfanna tveggja. Annars vegar þá að ríki Evrópu eru ekki lengur tilbúin að sætta sig við að ríkisstjórnir Frakklands og Þýskalands ákveði á lokuðum fundum hvað skuli heita sameiginleg utanríkisstefna Evrópu. Oftar en ekki segjast franskir diplómatar tala í nafni álfunnar allrar, þegar þeir eru í raun aðeins að vinna að hagsmunum síns eigin lands, og aðrar Evrópusambandsþjóðir hafa fengið sig fullsaddar af slíkum yfirgangi, sérstaklega þegar málflutningurinn stefnir bandalagi Evrópu og Bandaríkjanna í hættu.

Ummæli Donalds Rumsfelds, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna um „gömlu Evrópu og nýju Evrópu” eru hreint ekki út í bláinn. Stækkun sambandsins mun færa inn fyrir múra ESB a.m.k. tíu ríki sem nýsloppin eru undan járnhæl kommúnismans og sjá í Bandaríkjunum mikilvægan bandamann, sem tryggja muni nýfengið frelsi og lýðræði þeirra. Þreyfingar Frakka og Þjóðverja til að breyta skipulagi ESB í miðstýringarátt með fastráðnum forseta hafa heldur ekki fallið þessum ríkjum að skapi, enda til lítils að sleppa undan sovésku ofríki til þess eins að smíða yfir sig annað slíkt.

Þetta eru ríki sem ekki endilega eru tilbúin að mótmæla hverju því sem frá Washington kemur einfaldlega til að sanna það fyrir sjálfum sér og öðrum að Evrópa sé sko víst sjálfstæð. Ljóst er að með inngöngu þessara ríkja munu áhrif „gömlu Evrópu” á utanríkisstefnu ESB minnka til muna og tilraunir franskra embættismanna til að tala í nafni álfunnar allrar munu verða enn ótrúverðugri en þær eru nú þegar.

Hin ályktunin er sú að allt tal um einhliða aðgerðir Bandaríkjanna er út í hött. Nema skilgreiningin um einhliða aðgerðir taki aðeins yfir þær aðgerðir sem gerðar eru án samþykkis forseta Frakklands og kanslara Þýskalands.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)