Vetrarvandræðin byrjuð

Í byrjun vikunnar var ansi kalt. Þegar ég vaknaði á mánudagsmorgun og dreif mig af stað var jörðin þakin snjó og ljóst að skafa þyrfti bílinn. Ekki tókst mér þó að komast að sköfunni því að læsingin á bílhurðinni var frosin föst, svo föst að mér tókst að brjóta lykilinn í skránni.

Sem betur fer var lykillinn sjálfur ekki ónothæfur. Plaststykkið á endanum var brotið af sem gerði mér enn erfiðara að opna bílinn því að nánast ekkert hald var eftir og fingurnir orðnir máttlitlir af kulda. Á endanum tókst mér þó að opna bílinn en mér til mikilla vonbrigða fór bílinn ekki í gang. Í fyrstu kenndi ég nú alveg máttlausum fingrunum um og ákvað að reyna að athuga hvort hægt væri að koma lyklinum saman aftur. Ég hirti upp brotna plaststykkið úr snjónum og gat að lokum fest lykilinn saman. Bíllinn flaug í gang. Það undarlega var að átakið sem þurfti til var sáralítið og furðulegt að bíllinn hafi ekki startað strax.

Við nánari skoðun á plaststykkinu kom í ljós að innan í því var einhver grunnsamlegur kubbur með áletruninni PCF7930. Hann átti eftir að vera lausnin á ráðgátunni af hverju bíllinn startaði ekki strax.

Eftir stutta leit á netinu kom í ljós að þessi kubbur var í raun svokallaður merkjavarpi (e. transponder) sem sendir út auðkenni sjálfvirkt þegar hann tekur á móti fyrirfram ákveðnu merki – og allt þráðlaust. Mér var töluvert brugðið enda hafði lykillinn virðst ósköp venjulegur þangað til nú. Á honum voru engir takkar, ekkert ljós og engin áletrun bara merki framleiðandans steypt inn í plastið.

Tilgangur kubbsins er sá að gera bílaþjófum erfiðara fyrir enda er auðkenni hans notað til að opna innspýtinguna eða eitthvað á þá leið. Um miðjan síðasta áratug lögðu tryggingarfélög í Þýskalandi hart að bílaframleiðendum þar í landi að koma fyrir búnaði sem gerði þjófum erfiðara fyrir. Ákveðið var að nota merkjavarpa í öllum nýjum bílum. Árangurinn af þessu hefur víst ekki látið á sér standa og nú er slíkur búnaður settur í lykla í mörgum öðrum löndum. Samkvæmt framleiðanda kubbsins eru nú yfir 100 milljónir merkjavarpa frá honum í notkun í þessum tilgangi.

Það skuggalega við þetta er náttúrlega það að auðkennið má nota í öðrum tilgangi en ætlast er til af framleiðandanum. Þar sem auðkennið er sent út þráðlaust væri hægt að spyrja lykilinn um auðkennið þegar gengið væri inn í verslanir, farið í bíó eða í sund. Einfaldar tilraunir mínar hafa leitt það í ljós að drægni merkjavarpans er um 1.5 m þannig að lítið mál væri að koma upp nemum við hurðir eða þess háttar. Og þetta væri hægt að gera án þess að eigandi bíllykilsins hefði minnsta grun um að verið væri að fylgjast með ferðum hans.

Reyndar er það ósennilegt að verið sé að nýta þetta til þess að safna upplýsingum um ferðir fólks en áhugi á því er væntanlega til staðar. Í einhverjum verslunarmiðstöðvum hafa verið settar upp myndavélar gagngert til þess að greina og fylgjast með hegðun fólks þannig að það væri sennilega kærkomin viðbót að geta tengt svona auðkenni við einstaklingana sem verið er að njósna um – eða hvað.

Möguleikarnir til að koma í veg fyrir söfnun og skráningu upplýsinga eru afar takmarkaðir. Vandamálið er að einhverju leyti það að vonlaust er að þekkja öll þau tæki og tól sem notuð eru í daglegu lífi það vel að vita nákvæmlega hvað þau geta gert og hvernig þau gera það sem þau gera. Til dæmis kom í ljós í framhaldi af rannsókn minni á lyklinum að bíllinn var með hitara í læsingunni sem hefði farið í gang ef handfanginu hefði verið haldið upp í einhvern ákveðinn tíma. Ef ég hefði vitað það þá hefði mér aldrei dottið í hug að hversdagslegi bíllykillinn væri orðinn að þráðlausu senditæki sem hugsanlega mætti nota til þess að njósna um ferðir mínar.

Latest posts by Eðvarð Jón Bjarnason (see all)