Iðnvæðing hugarfarsins

Þurfum við að kappkosta iðnþróun? Um þetta var spurt á fundi Sjálfstæðisflokksins um atvinnumál í fyrradag, laugardaginn 25. janúar.

Eftir gengisfall hugtaksins ,,nýja hagkerfið”, dotcom fyrirtækjanna, sem áttu að verða til úr engu öðru en þekkingu landsmanna og hugmyndum, eins konar sýndarhagkerfi, var hressandi að hlusta á Guðmund Ólafsson hagfræðing á þessum fundi. Þar lýsti hann þeirri skoðun að mikilvæg sóknarfæri Íslendinga í atvinnumálum væru í hefðbundnum iðnaði, ekki síst léttaiðnaði, þar sem byggt yrði á því sem við Íslendingar kynnum, og þeim aðstæðum öðrum sem hér eru. Iðnaður væri hér minni þáttur í atvinnulífi og verðmætasköpun en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Á sama tíma og aðrar þjóðir í kringum okkur þróuðu sinn iðnað, veðjuðum við á sjávarútveg og héldum dauðahaldi í landbúnað, sem í krafti framleiðniaukningar nýtir nú aðeins um 4% mannaflans (þar sem hann er hagkvæmari en hér er vinnuaflsnotkunin innan við 1% af mannafla).

Það er að rétt að við höfum aldrei gefið iðnaði þann sess, sem honum ber, og héldum til skamms tíma að við gætum stokkið yfir þetta stig efnahagsþróunar yfir í sýndarveruleika hins ,,nýja hagkerfis”. Það er líka rétt að á síðustu öld vanræktum við að hlúa að iðn- og tæknimenntun, sem er forsenda iðnaðar, ekki síst í landi sem ekki hefur yfir að ráða öðrum náttúruauðlindum, en orku. Á þetta benti Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður einnig á fundinum.

Við fórum að líta á ferðamennsku sem iðnað, töluðum um ,,ferðamannaiðnað”, starfsgrein sem er láglaunagrein, þar sem takmarkaðrar menntunar starfsfólks er krafist, auk þess sem það hljóta að vera fjöldatakmörk fyrir því hvað landið þolir marga ferðamenn. Fjöldatakmörk sem umhverfisverndarsinnar hljóta að ræða á næstu árum ekki síður en álver og virkjanir.

Hafi Guðmundur Ólafsson rétt fyrir sér, hvað er þá til ráða? Auka veg iðn- og tæknináms með fjárframlögum, erlendu samstarfi, áróðri og jafnvel námsstyrkjum til efnilegra nemenda? Á hluti námsins e.t.v. heima á háskólastigi? Auka enn nýsköpunarstyrki og áhættulán, jafnvel taka upp skattaívilnanir á fyrsta ári fyrirtækja og styðja við bakið á samstarfi þeirra við erlend fyrirtæki?