Rannsóknir við Háskóla Íslands

Enn af málefnum Háskóla Íslands en nú er sjónum beint að rannsóknarstarfi hans.

Áður hefur verið skrifað á Deiglunni um samkeppnisstöðu Háskóla Íslands. Þar var því haldið fram að Háskólinn þyrfti ekki að óttast aðra skóla, enda stendur hann á traustum grunni, auk þess sem hann er eini raunverulegi rannsóknarháskóli landsins. Háskólinn er fremstur í flokki þeirra sem stunda grunnrannsóknir, en þær leiða oft til ákveðinnar hagnýtingar og nýsköpunar, íslensku þjóðlífi til heilla.

Þann 21. desember var undirritaður rannsóknarsamningur milli menntamálaráðuneytis annars vegar og Háskóla Íslands hins vegar sem kemur til með að efla þennan mikilvæga þátt háskólastarfsins. Auðvitað má deila um hvort um er að ræða nægilega háa upphæð, en samningurinn ætti að tryggja Háskólanum 240 milljónir á árunum 2001-2003. Þegar fjárútlát ríkisins fyrir árið 2002 eru skoðuð koma í ljós margir liðir sem mættu missa sín enda erfitt að réttlæta fyrirhugaðar beingreiðslur til grænmetisbænda og almennt sjóðasukk ríkisins. Forgangsröðunin þyrfti að breytast enda flestir sammála um að hver króna sem lögð er í rannsóknir skilar sér margfalt til baka.

Enn hefur ekki verið samið um þær stikur sem notaðar verða til að reikna út árlega rannsóknarupphæð til skóla á háskólastigi. Nauðsynlegt er að meirihluta upphæðarinnar verði úthlutað á grundvelli rannsóknarvirkni en það mun tryggja að peningar merktir rannsóknum fari þangað sem rannsóknir eru stundaðar. Þessi aðferð er betri en flöt upphæð á hvern virkan nemanda því úthlutun til rannsókna á að byggja á reynslu og þekkingu rannsakenda, virkni þeirra og mögulegri hagnýtingu niðurstaðna, en ekki því hvar viðkomandi starfar eða hversu margir nemendur stunda nám sitt við viðkomandi stofnun.

Allir eru sammála um að rannsóknarsamningurinn er mikið framfaraspor enda hafa nýlegir samningar milli Háskóla Íslands og stjórnvalda bætt samskipti þessara aðila. Fjármálaráðherra og Menntamálaráðherra hafa skilning á því að styðja þarf við bakið á skólanum og almennri menntun í landinu. Þetta kemur best fram í hækkandi nafn- og raunfjárveitingum til Háskólans á undanförnum árum. Þótt enn vanti töluvert upp á að Háskólinn geti fullnýtt krafta sína hafa Páll Skúlason rektor, Háskólaráð og stærstur hluti háskólafólks og stúdenta lagt kapp á vandaða umræðu um stöðu skólans, lausa við upphrópanir og pólitískar hártoganir. Enn má þó sjá leifar af gamaldags hugsunarhætti hjá litlum hópi í Háskólanum sem virðast leggja allt kapp á að drepa hið góða orðspor hans með sífelldum barlómi og hefur málflutningur af slíku tagi enga þýðingu í þeirri umræðu sem nú á sér stað innan veggja skólans.

Við sem viljum veg Háskóla Íslands sem mestan teljum að hann þurfi að sanna hvers vegna hann eigi skilið stærstan hluta þess fjár sem veitt er til háskólastigsins. Það gerir hann best með því að virkja rannsóknir og nýsköpun og því fagnaðarefni að stjórnvöld og skólinn hafi tekið höndum saman um að virkja þennan hluta sérstaklega.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)