Samkeppni í olíudreifingu

Olíudreyfing er dæmi um markað þar sem sérstaklega auðvelt er að halda uppi samráði, svo auðvelt að erfitt gæti reynsta að sanna samráð í þessu tilviki. Því er mikilvægt að gripið verði til annars konar aðgerða til þess að auka samkeppni í olíudreyfingu.

Ein af stóru fréttum þessa mánaðar er óumdeilanlega innrás Samkeppnisstofnunar í höfuðstöðvar olíufélaganna. Nú bíða allir í ofvæni eftir að sjá hversu vel stjórnendur olíufélaganna hafa tekið til í tölvupóstinum hjá sér eftir að grænmetisheildsalar létu hanka sig á því að hafa skrifað um samráð sitt í fundagerðabækur. Það verður að teljast afar ólíklegt að eitthvað bitastætt finnist, en maður veit samt aldrei.

Flestir eru sammála um mikilvægi öflugrar samkeppni. Smæð íslenska hagkerfisins gerir það að verkum að mun erfiðara er að halda uppi öflugri samkeppni á mörgum mörkuðum hér á landi en víða annars staðar. Aukið vald Samkeppnisstöfnunar á síðustu misserum hefur verið mikilvægt skref í rétta átt hvað þetta varðar. Þó er líklega skynsamlegt að gengið sé enn lengra á sumum mörkuðum.

Olíudreifing er dæmi um markað þar sem sérstaklega erfitt er að halda uppi samkeppni. Réttara sagt er olíudreifing dæmi um markað þar sem sérstaklega auðvelt er að halda uppi samráði. Raunar á ekki að vera mikið mál fyrir olíufélögin að halda uppi samráði algerlega án þess að þau ræðist við. Slíkt samráð nefnist á ensku tacid collusion og mætti þýða yfir á íslensku sem þögult samráð.

Þögult samráð gengur þannig fyrir sig að verðhækkanir fara í ákveðinn farveg. Þannig gæti til dæmis verið að alltaf sé hækkað á fysta degi mánaðar og eitt fyrirtæki sái um að hækka fyrst og hin fylgi síðan í kjölfarið með sömu hækkun. Ef eitt fyrirtækjanna bregður út af kerfinu launa hin fyrirtækin því með heiftarlegu verðstríði. Þannig er verðinu haldið háu.

Ef það er raunin að samkeppni í olíudreifingu á Íslandi sé haldið í lágmarki með þögulu samráði má búast við að lítið komi út úr húsrannsókn Samkeppnisstofnunar. Til þess að auka samkeppni í olíudreifingu þarf annars konar aðgerðir af hálfu stjórnvalda.

Lykilatriði í því að auka samkeppni er að auka hvata fyrirtækjanna til þess að lækka verðin sín. Í dag hafa fyrirtækin mjög veikan hvata til þess að lækka verð þar sem þau vita að hin fyrirtækin munu bregðast hratt við. Auðvelt er að ráða bót á þessu. Ríkið ætti að setja eftirfarandi reglur um verðbreytingar í olíudreyfingu: Fyrirtæki sem reka bensínstöðvar er einungis heimilt að breyta verðum hjá sér á fyrsta virka degi hvers mánaðar. Á síðasta degi hvers mánaðar skulu fyrirtækin skila inn verðskrá fyrir næsta mánuð til viðskiptaráðuneytisins í lokuðu umslagi.

Ef kerfi af þessu tagi væri við lýði myndi það auka hvata fyrirtækjanna til þess að lækka verðið hjá sér til muna þar sem þau myndu fá að njóta lækkunarinnar í heilan mánuð áður en hin fyrirtækin gætu brugðist við. Þetta myndi því að öllum líkinum leiða til þess að verð á bensíni lækkaði til frambúðar um nokkrar krónur.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.