Menningarleg áhrif evrunnar

Umbreyting gjaldmiðla aðildarríkja Myntbandalags Evrópu (EMU) í evru gekk í gildi um áramótin. Ekki hafa borist fréttir af öðru en að umbreytingin hafi heppnast prýðilega og verður það teljast nokkuð afrek hjá EMU, enda um að ræða aldagamla og í sumum tilfellum mörg þúsund ára gamla gjaldmiðla sem nú heyra sögunni til.

Umbreyting gjaldmiðla aðildarríkja Myntbandalags Evrópu (EMU) í evru gekk í gildi um áramótin. Ekki hafa borist fréttir af öðru en að umbreytingin hafi heppnast prýðilega og verður það teljast nokkuð afrek hjá EMU, enda um að ræða aldagamla og í sumum tilfellum mörg þúsund ára gamla gjaldmiðla sem nú heyra sögunni til. Ekki verður framhjá því litið, að sérstakir gjaldmiðlar eru stór hluti af þjóðareinkenni hverrar þjóðar, og því er sameiginlega mynt í aðildarríkjum EMU ekki bara efnahagslegt skref heldur einnig stórt menningarlegt skref í átt að samruna ríkjanna.

Hafa verður hugfast að evran hefur um nokkurt skeið verið notuð sem gjaldmiðill, þótt nú sé hún í fyrsta sinn komin í „hendurnar á fólki“. Evran fór ekki vel af stað en smám saman hefur hún öðlast aukna tiltrú. Efnhagslegar hreyfingar everulandanna munu í vaxandi mæli þurfa að vera samhæfðar og það mun stuðla að frekari samruna þeirra. Á það hefur verið bent í umræðu um málefni evrunnar hér á landi, að hagsmunir íslenska hagkerfisins séu oft á tíðum allt aðrir heldur en þeir hagsmunir sem ráða för í efnahagsmálum evrulanda. Hin efnahagslega pendúlsveifla kunni því að sveiflast gegn hagsmunum Íslendinga á meðan hún þjónar vel hagsmunum evrulandanna. Því verður að teljast líklegt að tryggð verði haldið við krónuna – að minnsta kosti um fyrirsjáanlega framtíð.

Sameiginleg mynt innan evrulandanna mun tengja þjóðirnar sterkari böndum en áður hefur verið. Sameinginartáknið verður í höndum allra borgara ríkjanna á hverjum einasta degi. Þjóðir sem búa við sameiginleg lög, sameiginlega yfirþjóðlega stjórn, sameiginlegan gjaldmiðil eru mjög nálægt því að vera ekki þjóðir heldur þjóð. Hver veit nema í fyllingu tímans menn sjái hversu mikið hagræði hlytist af því ef íbúar svæðisins töluðu allir sama málið? Þá yrði samruninn fullkomnaður og hinu endanlega markmiði náð.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.