„Atvinnuþjófnaður“ útlendinga?

Í Fréttablaðinu í gær var viðtal við Sigurð Bessason, formann stéttarfélagsins Eflingar þar sem hann kvartaði sáran yfir því að útlendingar séu að hafa störf af Íslendingum. Er það réttmæt skoðun hjá formanninum að útlendingar taki störf frá þeim sem fyrir eru? Ekki ef marka má nýja rannsókn frá Bretlandi.

Í Fréttablaðinu í gær var viðtal við Sigurð Bessason, formann stéttarfélagsins Eflingar. Í viðtalinu kom fram að Sigurður sé reiður vegna erlends vinnuafls hér á landi. Hann sagði að Efling hefði varað við því að þegar samdráttartímar rynnu upp þá kæmi það niður á félagsmönnum hve mörgum útlendingum hefði verið veitt dvalarleyfi. Nú væru samdráttartímar og 700 félagsmanna hans atvinnulausir. Töluverður hluti þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá séu væru tilbúnir að taka þá atvinnu sem þeim stæði til boða. Með öðrum orðum þá er formaður Eflingar að kvarta yfir því að útlendingar séu að hafa störf af Íslendingum. Reyndar virðist félagið ekki hafa látið orðin ein nægja því skv. Páli Péturssyni félagsmálaráðherra í Fréttablaðinu í dag hefur Efling viljað láta reka útlendinga úr landi með því að leggjast gegn framlengingu atvinnuleyfa útlendinga!

Umræða um meintan atvinnuþjófnað útlendinga kemur nær alls staðar upp þegar atvinnuástand versnar, því miður oftast í tengslum við fordóma og hræðslu við innflytjendur. Gjarnan er sú mynd máluð upp að innflytjendurnir séu að hafa vinnu af innfæddum með því að þiggja lægri laun og verri kjör. En í viðtalinu við Fréttablaðið hélt Sigurður því einmitt fram að af einhverjum ástæðum vilji sum fyrirtæki ekki ráða Íslendinga og jafnframt að fyrirtækin vilji halda niðri launakostnaði með ódýru vinnuafli. Þess ber að geta að yfirleitt eru kaup og kjör erlends vinnuafls hér á landi í samræmi við íslenskan vinnurétt og kjarasamninga þrátt fyrir að það hafi komið fyrir að óprúttnir aðilar hafi reynt að misnota og kúga þetta fólk með bágbornum kjörum.

Vegna svipaðs málflutning ýmissa aðila í Bretlandi var gerð óháð rannsókn á áhrifum erlends vinnuafls á þjóðfélagið, hvort goðsögnin um meintan atvinnuþjófað stæðist og hvaða áhrif erlent vinnuafl hefði. Rannsóknin sem er sú fyrsta á Bretlandi sem kafar djúpt ofan í þessi mál bar nafnið „Migrants in the UK: their characteristics and labour market outcomes and impacts“. Niðurstöðurnar sem voru birtar þann 10. desember síðastliðinn voru afdráttarlausar. Þær helstu eru birtar hér óþýddar úr frummálinu:

*migrants bring a diversity of skills to the UK labour market, providing skills and expertise which complement the existing work force

*they do not increase unemployment among the domestic population, and may even increase wage levels

*one in ten of the working age population are migrants

*some ethnic minority migrants, especially those whose education or English is poor, are less likely to find work or to have high earnings.

Bresk stjórnvöld notuðu skýrsluna við samningu reglna um efnið sem miða aðallega að því að hindra misnotkun og kúgun á erlendu vinnuafli þar sem það kemur niður á atvinnulífinu í heild.

Það vekur athygli hversu afdráttarlaus niðurstaða rannsóknarinnar er um að erlent vinnuafl auki ekki atvinnuleysi innfædda, að það auki gæði vinnumarkaðarins og jafnvel stuðli að hækkun launa. Þess ber að geta að hlutfall erlends vinnuafls af heildarlaunþegum er mun minna hér á landi heldur en í Bretlandi. Í raun hefur rannsóknin komið þessari langlífu og leiðinlegu goðsögn fyrir kattarnef. Goðsögn sem hefur oftar en ekki verið notuð til að kynda undir fordómum í garð innflytjenda.

Það er furðulegt að forsvarsmenn eins af stærstu stéttarfélögum landsins skuli ekki kynna sér rannsóknir á þessu sviði áður en málinu er slegið upp í fjölmiðlum. Staðreyndin er sú að erlenda vinnuaflið greiðir skatta og opinber gjöld. Það skilar alveg jafn miklu til þjóðfélagsins og innfæddir. Erlenda vinnuaflið stelur ekki störfum frá innfæddum heldur þvert á móti auðgar atvinnulífið. Að halda því fram að einhverjir hér á landi eigi meiri rétt á vinnu á frjálsum markaði en aðrir og krefjast aðgerða á þeim forsendum ber vott um fordóma og yfirlæti, sérstaklega þegar engin rök eru fyrir skoðuninni.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.