Hví umberum við útvarpsráð?

Í gær var fluttur lokaþáttur nýs íslensks framhaldsleikrits. Eins og í allrabestu Hollywoodsögum endaði allt vel eins og allir bjuggust við, þótt spennandi lokakaflinn hafi gefið vísbendingar um annað. Gagnrýnendur fóru mikinn um verkið og er ljóst að sumir þeirra þurfa þvo á sér munninn með sápu. Einnig mættu sumir leikara í aukahlutverkum finna sér annað að gera.

Í gær var Elín Hirst ráðin fréttastjóri ríkissjónvarpsins. Formálinn var langur og leiðinlegur, en þó er ástæða til að ræða málið ofan í kjölinn. Mjög hefur verið vinsælt að saka fréttastofur bæði einka- og ríkisrekinna miðla um að draga taum ákveðinna sjónarmiða eða stjórnmálaflokka. Gagnrýni á einstaka fréttamenn hefur einnig látið á sér kræla.

Þetta er ágætis umræða í sjálfu sér og mikilvægt að frétta- og fjölmiðlamenn séu meðvitaðir um þá ábyrgð sem á þeim hvílir. Það er þó sérstakt þegar slíkri gagnrýni fylgir ekkert nema að viðkomandi einstaklingur hafi einhverntíma tengst stjórnmálaflokki eða sé jafnvel vinur stjórnmálamanna.

Þessi saga hófst með ráðningu Boga Ágústssonar í starf yfirmanns fréttadeilda RÚV. Hann er meðal þeirra sem hafa verið stimplaðir flokksstimpli og sagt að hann sé „þóknanlegur Sjálfstæðisflokknum”. Vel má vera að svo sé, en ég hef ekki orðið var við gagnrýni á Boga vegna hlutdrægni eða hann hafi ekki verið áreiðanlegur í sínu starfi. Hvers vegna er þessu þá haldið fram? Mega fréttamenn kannski ekki hafa stjórnmálaskoðanir, eiga vini eða fortíð?

Stóll Boga sem fréttastjóri sjónvarpsins losnaði og nokkrir hæfir einstaklingar sóttu um. Þeirra á meðal var Elín Hirst, sem einnig hefur verið legið á hálsi fyrir að vera „Sjálfstæðisflokknum þóknanleg”. Í umræðunni virtist hæfi eða vanhæfi Elínar til að gegna starfinu litlu skipta, aðeins að hún væri tengd einum stjórnmálaflokkanna.

Í viðtalið við DV sagði Logi Bergmann Eiðsson, einn umsækjendanna, að hann teldi að það væri löngu búið að ákveða hver yrði fréttastjóri, það væri pólitísk ákvörðun. Mörgum bar saman um það að Elín yrði ráðin vegna pólitísks vilja meirihluta sjálfstæðir- og framsóknarmanna í útvarpsráði og margir hlupu til og skoruðu á fulltrúa Samfylkingar, Vinstri-Grænna og Framsóknarflokks um að taka sig saman og veita Elínu ekki atkvæði sitt.

Ráðgjafafyrirtæki sem mat hæfi umsækjenda taldi Elínu Hirst varafréttastjóra sjónvarpsins, Loga Bergmann Eiðsson fréttamann sjónvarpsins og Sigríði Árnadóttur varafréttastjóra útvarpsins vera bestu kandítatanna. En auk þerra töldu þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í útvarpsráði að G. Pétur Matthíasson fréttamaður kæmi einnig til greina, en hann hefur nokkra stjórnunarreynslu úr öðrum störfum innan RÚV.

Þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu Elínu atkvæði sitt, en hinir fjórir greiddu Sigríði Árnadóttur atkvæði. Elín er með langmestu reynslu þessara umsækjenda fyrir starf fréttastjóra en aftur á móti hefur Sigríður litla eða enga reynslu úr sjónvarpi. Það eru því allar líkur á að Sigríður hafi fengið atkvæðin vegna pólitísks þrýstings. Að fulltrúar flokkana þriggja hafu nú aldeilis ætlað að sýna að þeir láti ekki pólitískar ráðningar yfir sig ganga. En er það ekki nákvæmlega jafnpólitísk ákvörðun að kjósa Elínu ekki, einmitt vegna pólitískra tengsla?

Þessi skrípaleikur í útvarpsráði sýnir enn eina ferðina að pólitík og fjölmiðlarekstur fara ekki saman. Ef það á að aðskilja pólitík frá fréttastofunum getur pólitískt skipað útvarpsráð auðvitað ekki fjallað um ráðningar, það segir sig sjálft. Það er ótrúlegur tvískinnungur að það séu þeir sömu sem hvað fast halda í hugmyndir um ríkisrekna fjölmiðla og hafa hvað hæst um þessar pólitísku ráðningar. Eina raunhæfa lausnin til að losna við pólitískar ráðningar er að selja RÚV eða leggja það niður. Fólk sem heldur öðru fram er ekki heilt í málflutningi sínum.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)