Hryðjuverk í hverju horni

Farsinn í kringum Ástþór Magnússon fer líklegast bráðum að taka enda. Það er ljóst að margir hafa orðið fyrir miklu tjóni vegna tölvupóstsins og aðgerðanna sem fylgdu í kjölfarið. Voru allar aðgerðirnar forsvaranlegar og hvernig koma menn út úr þessu að lokum?

Á þessu ári hafa stjórnvöld verið dugleg við að samþykkja alþjóðasamninga um aðgerðir gegn hryðjuverkum og samþykkja lög um sama efni. Þetta er að sjálfsögðu gert vegna hryðjuverkanna 11. september 2001 og þeirrar miklu hryðjuverkavakningar sem kom í kjölfarið. Síðasta vor samþykkti Alþingi að setja sérstakan kafla um hryðjuverk inn í almenn hegningarlög nr. 19/1940. Samkvæmt kaflanum getur það varðað allt að ævilöngu fangelsi að taka þátt í hryðjuverkum eða styrkja hryðjuverkasamtök.

Maður var alveg rólegur þegar lögin voru sett og ég spáði því að kaflinn myndi hljóta sömu örlög og og svipaður kafli í alm.hgl. frá 1940 um landráð. Ein frægasta greinin í þeim kafla er 86. gr. sem kveður á um allt að lífstíðarfangelsi fyrir þann sem gerist sekur um verknað sem miðar að því að íslenska ríkið fari undir erlend yfirráð. Menn þurfa að vera ansi stórhuga til að falla undir þennan kafla enda hafa menn líklegast aldrei verið dæmdir fyrir landráð hér á landi. Við komust semsagt í gegnum allt kalda stríðið án þess að þurfa að beita ákvæðunum um landráð í alm.hgl.

Nýlegir atburðir sýna hins vegar að allt annað er uppi á teningunum varðandi nýju hryðjuverkalöggjöfina. Atburðir síðustu daga sem snúast um Ástþór Magnússon ættu samt ekki að koma á óvart þegar persónur og leikendur eru skoðaðir í þessum farsa. Annars vegar höfum við íslensk stjórnvöld sem eru farin að taka þátt í leiknum með stóru strákunum í stríðinu gegn hryðjuverkum. Hins vegar höfum við Ástþór Magnússon sem er án efa einn mesti rugludallur á landinu.

Ástþór lítur á sjálfan sig sem krossfara fyrir friði og hefur barist fyrir heimsfriði af veikum mætti síðustu ár því flestir eru löngu hættir að taka mark á honum. Engu að síður er Ástþór mikill áhugamaður um velferð Íraks og hefur tekið upp á ólíklegustu uppátækjum til að benda á vansældina þar. Það var því nóg til að æra óstöðugan þegar Davíð Oddson tilkynnti í fjölmiðlum að Flugleiðir og Atlanta myndu hjálpa til við flutning á búnaði vegna hugsanlegrar innrásar í Írak.

Þegar Ástþór frétti þetta sendi hann torskilinn tölvupóst á 1246 aðila þar sem hann fullyrti að hann hefði rökstuddan grun um að íslensku flugfélögin yrðu fyrir árásum vegna þessarar hjálpar. Ástþór var handtekinn um nóttina á veitingastað, nokkrum klukkustundum eftir sendinguna vegna gruns um að hann hefði gerst sekur um brot á nýja hryðjuverkakaflanum í almennra hegningarlaga.

Þrátt fyrir að full ástæða hafi verið til að kanna tilurð bréfsins nánar þá er margt sem bendir til þess að íslensk löggæsla ásamt héraðsdómi hafi farið offari í málinu. Ef lögreglan hefði hirt um að spyrja Ástþór um tilurð bréfsins hefði hún komist að því að hann byggði bréfið aðallega á eigin draumsýnum og innsæi. Hann viðurkenndi einnig fúslega að „rökstuddi grunurinn“ væri tómt rugl. Reyndar er mjög líklegt að hann hafi sagt lögreglunni þetta en þeir hafi hunsað upplýsingarnar. Það er hins vegar óumdeilt að Ástþór gaf héraðsdómara þessar skýringar við þinghaldið um gæsluvarðhaldið.

Í greinargerð lögreglu sem var lögð fram í þinghaldinu kemur fram að málið sé tekið alvarlega af lögreglu:

„enda sé hér um að ræða fullyrðingar sem eðlilegt sé að taka sem hótun eða fullyrðingu um að sá sem póstinn hafi sent muni framkvæma hryðjuverkaárás eða hafi vitneskju um að gerð verði hryðjuverkaárás gegn þeim íslensku flugfélögum sem um ræði“

Með öðrum orðum þá taldi lögreglan að rugludallurinn Ástþór Magnússom sem hefur ákveðið að eyða lífi sínu í krossferð fyrir friði í heiminum sé hugsanlega að fara að fremja hryðjuverk. Einmitt!

Yfirleitt þegar íslenska lögreglan fær sprengihótun þá metur hún fyrst trúverðugleika hótunarinnar og grípur síðan til aðgerða. Það lá fyrir að Ástþór er þekktur rugludallur, hann hafði gefið skýringar sem voru í takt við orðspor hans, hann hafði gefið upp vitni sem gæti staðfest framburðinn og húsleit hafði verið gerð í húsakynnum hans. Trúverðuleiki bréfisins var enginn!

Engu að síður ákvað héraðsdómur að hneppa Ástþór í gæsluvarðhald í viku en hann kærði þann úrskurð til Hæstaréttar. Hæstiréttur felldi síðan þann úrskurð úr gildi þremur dögum seinna og er Ástþór laus í dag.

Það er ljóst að Ástþór hefur valdið miklu tjóni með uppátæki sínu. Hins vegar á íslenska ríkið einnig nokkra sök því þegar þau fóru að taka þennan rugludall alvarlega og settu hann í gæsluvarðhald þá magnaðist athyglin og tjónið margfalt. Erlendur tölvupóstur hefur hrúgast inn til stjórnvalda og fjölmiðla í þúsundavís þar sem meðferðinni á Ástþóri er harðlega mótmælt. Jafnframt er ljóst að mikið tjón hefur orðið á viðskipahagsmunum flugfélaganna tveggja, sérstaklega hjá Atlanta sem er í miklum viðskiptum við miðausturlönd.

Eðlilegt er að spyrja hvernig aðilar málsins koma út eftir svona farsa. Eins og öllum sönnum friðarpostulum sæmir þá hlýtur Ástþór að hafa dreymt um það að verða píslavottur. Þeir sem tóku ákvörðun um hinar harkalegu aðgerðir gegn honum tryggðu honum þann titil. Jafnframt hjálpuðu þeir Ástþóri við að setja óverðskuldaðan blett á íslenska ríkið vegna meintra mannréttindabrota en honum hefur tekist að auglýsa sig sem pólitískan fanga út um allan heim í kjölfar gæsluvarðhaldsins. Lögreglan handtók Ástþór, leitaði í húsakynnum Friðar 2000 og héraðsdómur úrskurðaði hann í gæsluvarðhald. Hver skyldi hafa komið betur út úr þessu uppátæki? Íslenska ríkið eða hinn nýji heimsþekkti pólitíski fangi og píslavottur Ástþór Magnússon?

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.