Fullveldi þjóðarinnar

Í dag fagna landsmenn fullveldisdegi þjóðarinnar. Að vísu hverfur dagurinn oft í skammdeginu og jólaundirbúningnum og í gegnum árin hefur það einkum verið fyrir tilstuðlan stúdenta Háskóla Íslands að dagsins er minnst. Það er ef til vill við hæfi miðað við sjálfan fullveldisdaginn 1918.

Það er engin ástæða til að fjölyrða um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. og 20. öld. Frá Þjóðfundinum 1851 höfðu hugmyndir um fullveldi Íslands gagnvart Danmörku verið áberandi. Með stjórnarskránni 1874 náðist mikilvægur áfangi í sjálfstæðisbaráttunni og heimastjórnin 1904 færði Íslendingum vald yfir innlendum árum. Enn voru erlend samskipti þó í höndum Dana og það var ekki fyrr en 1917 þegar Íslendingar kröfðust þess að íslenski fáninn yrði notaður á skipum, sem raddir um algjört sambandsslit urðu áberandi. Danska stjórnin neitaði en lýsti sig reiðubúna til samninga um sambandsmálið í heild sinni. Sumarið 1918 náðist samkomulag um lagafrumvarp sem hófst með þessum orðum:

Danmörk og Ísland eru frjáls og fullvalda ríki, í sambandi um einn og sama konung.

Þann 19. október samþykktu Íslendingar frumvarpið í atkvæðagreiðslu og þann 1. desember var látlaus athöfn í Stjórnarráðshúsinu þar sem lýst var yfir fullveldi og fáninn dreginn að húni. Lítið var fjallað um atburðinn og reyndar liðu 3 ár þar til hátíðarhöld voru skipulögð í tilefni dagsins og þá af stúdentum við Háskóla Íslands. Nokkrir hlutir urðu þess valdandi að 1. desember 1918 var ekki haldinn hátíðlegur.

Í fyrsta lagi var þetta eindæma harður vetur og jafnan kallaður frostaveturinn. Margar sögur eru til af fólki sem í margar vikur fór ekki út úr húsi. Katla gaus frá 12. október til 4. nóvember og drepsóttin sem nefnd var Spænska veikin barst til Íslands seint í október og lagði hundruð manna í valinn. Þegar veikin var sem áköfust brast á nýtt kuldakast svo ekki þótti ráðlagt að dvelja mikið utan dyra.

Eins og fyrr sagði tóku stúdentar við Háskóla Íslands upp þann sið að halda daginn hátíðlegan árið 1921 og notuðu þá gjarnan tækifærið til að vekja athygli á ákveðnum málstað. Þannig var efnt til fjáröflunar fyrir nýjan stúdentagarð árið 1922 og söfnuninni haldið áfram ári síðar. Árið 1928 var í fyrsta skipti fenginn ræðumaður utan Háskólans sem var þá Tryggvi Guðmundsson forsætisráðherra. Sá siður hefur haldist æ síðan þótt nokkrar deilur hafi risið í gegnum tíðina um ágæti þess. Stjórnmál settu svip sinn á hátíðina eftir lýðveldisstofnunina 1944 og oft mátti lesa pólitíska afstöðu Stúdentaráðs út úr vali á ræðumönnum og yfirskrift fundarins.

Þannig var rætt um dvöl erlends herliðs á Íslandi á árunum 1945-46, 1953-55 og 1971-73. Efnahagsmál og landhelgismál fengu einnig umfjöllun með mismunandi formerkjum í hvert skipti. Eftir 1970 var tekinn upp sá siður að hafa nokkra fundarmenn sem héldu stuttar ræður um efni dagsins og er sá hátturinn á enn þann dag í dag. Stúdentar við Háskóla Íslands halda í dag upp á fullveldi Íslendinga með glæsilegri athöfn í hátíðarsal Háskóla Íslands.

Yfirskrift fundarins er að þessu sinni frelsi og fullveldi á 21. öldinni. Hátíðargestur er forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson en meðal ræðumanna eru Páll Skúlason háskólarektor, Helgi Skúli Kjartansson sagnfræðingur, Sigurður Líndal lagaprófessor og Svanur Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræði. Þeir munu nálgast efni fundarins frá mismunandi áttum. Það er ástæða til að hvetja alla til að taka þátt í hátíðarhöldunum og minnast þessa merkilega dags sem eins mikilvægasta áfanga í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)