Leikskólalógík fyrir fjöldamorðum

Skálmöldin fyrir botni Miðjarðarhafs heldur áfram sem aldrei fyrr og einkennist baráttan á milli Ísraels og hryðjuverkamannanna af grimmdarverkum á báða bóga. Á Deiglunni í dag er fjallað um það hvort stríðandi aðilar beri ekki sjálfir ábyrgð á eigin grimmdarverkum sem bitna einna helst á saklausum borgurum í Ísrael og Palestínu.

Öðru hvoru koma fram einstaklingar sem halda því fram að réttlæta megi mannréttindabrot ísraelska hersins á almennum palenstínskum borgurum með framferði hryðjuverkahópa gagnvart Ísrael. Oftast nær sjáum við þá á sjónvarpsstöðinni Omega með tugi ísraelskra fána í bakgrunni en þeir geta einnig leynst á ólíklegustu stöðum. Þessir einstaklingar halda því fram að mannréttindabrot ísraelska hersins séu mest megnis hryðjuverkahópunum að kenna en ekki gerendunum sjálfum þ.e. ísraelska hernum. Þetta er svipað viðhorf og heyrðist eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september en þá heyrðust þær raddir að árásin hefði verið Bandaríkjunum og utanríkisstefnu þess að kenna en ekki hryðjuverkamönnunum.

Allir helstu kúgarar mannkynssögunnar hafa getað réttlætt gjörðir sínar og skorast undan ábyrgð með einhverjum ástæðum sem hafa eflaust hljómað ágætlega á þeim tíma. Við skulum ekki gleyma því að þýski herinn hafði alveg ágætis skýringar og ástæður á takteinum fyrir ofsóknum og morðum á gyðingum. Gott ef meint hryðjuverk gyðings við íkveikju á þýska þinginu hafi ekki verið með fyrstu tylliástæðunum fyrir ofsóknunum. Síðar kom reyndar á daginn að handbendi Hitlers stóðu líklegast fyrir íkveikjunni m.a. til að ala á gyðingahatri og auðvelda framtíðarofsóknir.

Enn nærtækari eru skýringar kínverska sendiherrans á Íslandi á ofsóknum kínverska ríkisins á iðkendum Falun Gong en hann lýsti því yfir í fréttum að Falun Gong væri „Evil cult“ sem átti að réttlæta stórfelld mannréttindabrot kínverskra stjórnvalda.

Ísrael getur ekki réttlætt brot á saklausum borgurum með hryðjuverkunum og notað þau til að skorast undan ábyrgð. Hryðjuverkin réttlæta harðar aðgerðir gegn hryðjuverkamönnunum sjálfum en svo sannarlega ekki harðar aðgerðir gegn saklausum borgurum. Vissulega kunna einhverjir saklausir borgarar að falla við beinar forsvaranlegar aðgerðir Ísraelshers gegn hryðjuverkamönnum og réttindi almennra borgara að skerðast tímabundið á meðan þeim stendur yfir. Engu að síður þá ber gerandinn auðvitað alltaf ábyrgð á verkum sínum sbr. þegar Bandaríkjamenn eyddu kínverska sendiráðinu í Belgrad og vinveittum þorpum í Afganistan í loftárásum fyrir mistök. Þá datt engum heilvita manni í hug að kenna Slobodan Milosevic eða Osama Bin Laden um tjónið.

Mannréttindabrot Ísraelshers gegn saklausum borgurum í Palestínu eru einfaldlega aldrei réttlætanleg. Allir menn hafa rétt til líkama og lífs og eru almennir saklausir borgarar í Palestínu engin undantekning. Þessi grundvallarréttur manna er sá allra heilagasti sem við höfum á þessari jörð og það er aldrei réttlætanlegt að ráðast gegn þessum rétti, hvorki í stríði né á friðartímum. Hvorki ríki né einstaklingar geta falið sig á bak við tylliástæður til að brjóta þessi réttindi eða eyðileggja líf saklausra borgara á annan hátt, sama hversu alvarlegar þær kunna að hljóma.

Ábyrgð Ísraels vegna mannréttindabrotanna er rík. Um er að ræða vestræna þjóð sem er aðili að flestum alþjóðasáttmálum um vernd mannréttinda. Það skiptir gífurlega miklu máli að um er að ræða annars vegar vestrænt ríki og hins vegar hryðjuverkamenn og glæpamenn. Við getum að sjálfsögðu gert meiri kröfur til þess að vestrænt ríki komi fram af virðingu gagnvart grundvallarréttindum manna heldur en ótíndir glæpamenn. Þess vegna kemur það manni spánskt fyrir sjónir þegar menn fara að velta sér upp úr því af hverju hryðjuverkamennirnir hagi sér ekki eins og siðmenntað fólk þegar mun eðlilegra væri að spyrja af hverju ísraelski herinn hagar sér stundum eins og hryðjuverkamennirnir!

Þetta er varhugaverð þróun hjá vestrænu ríki og gefur tilefni til harðrar gagnrýni og umjöllunar, þrátt fyrir að því fari órafjarri að það sé eingöngu við Ísrael að sakast fyrir botni Miðjarðarhafs. Hryðjuverkahóparnir eiga alveg jafn mikla sök á ástandinu á svæðinu og Ísraelsmenn. Það er staðreynd! Hins vegar er það alveg fráleitt að halda því fram að mannréttindabrot ísraelska hersins séu einhverjum öðrum en þeim sjálfum að kenna. Þeir eru einir ábyrgir fyrir eigin mannréttindabrotum á saklausum borgurum á sama hátt og þegar ungur maður með 5 kíló af semtexi um sig miðjan sprengir sjálfan sig og aðra í tætlur um borð í strætó þá er hann og mennirnir sem sendu hann aleinir ábyrgir fyrir grimmdarverkinu.

Auðvitað eigum við aldrei að leyfa mönnum að skorast undir ábyrgð á eigin ofbeldisverkum. Afsökunin „Hann byrjaði!“ hætti að virka fyrir okkur eftir leikskóla, af hverju ættu miðaldra þjóðarleiðtogar og hryðjuverkaforingjar að fá að nota þessa afsökun áfram til að réttlæta brot sín og glæpi á almennum borgurum í Ísrael og Palestínu?

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.