Bikarinn heim!

Sú tilfinning sem grípur um sig þegar íslenska landsliðinu í handknattleik gengur vel á stórmótum er nokkuð furðuleg. Fólk gleðst auðvitað yfir árangrinum og vonar það besta en jafnframt blundar einhver furðulegur ótti í þjóðinni. Hver einasti leikur getur verið sá sem klúðrast og fólk forðast að byggja of miklar væntingar af hræðslu við sár vonbrigðin.

Sú tilfinning sem grípur um sig þegar íslenska landsliðinu í handknattleik gengur vel á stórmótum er nokkuð furðuleg. Fólk gleðst auðvitað yfir árangrinum og vonar það besta en jafnframt blundar einhver furðulegur ótti í þjóðinni. Hver einasti leikur getur verið sá sem klúðrast og fólk forðast að byggja of miklar væntingar af hræðslu við sár vonbrigðin.

Í forystugrein Morgunblaðisins í morgun er fjallað um árangur landsliðsins fram til þessa og hefur leiðarahöfundur tekið að sér að bjóða upp á eins konar fyrirframáfallahjálp.

„Oft hafa miklar kröfur og óraunhæfar verið lagðar á herðar íslenska landsliðinu í handknattleik og nú má finna hvernig væntingarnar stigmagnast með hverjum sigrinum. Það má ekki gleyma því að í íþróttum er ekkert gefið og víst er að landsliðið hefur nú þegar farið fram úr björtustu vonum og fært okkur ógleymanleg augnablik. Það er ekki hægt að heimta að liðið komi heim með verðlaunapening frá Svíþjóð, en það er ekkert leyndarmál að það á talsverðan möguleika á að komast í einn af úrslitaleikjunum.“

Viðhorfið sem hér endurspeglast er viðvarandi stef í umfjöllun um hið frábæra handknattleikslandslið okkar. Menn reyna að telja sér trú um að þeir séu orðnir saddir og að það sé nú kannski bara allt í lagi þótt leikurinn á móti Þýskalandi tapist og að ef þannig fer þá sé nú bara ansi góður árangur að komast í 5. – 6. sætið. Undir þetta sjónarmið getur Deiglan ekki tekið.

Mikilvægasta forsenda þess góða árangurs sem íslenska landsliðið er að ná úti í Svíþjóð er sú hugarfarsbreyting sem fylgt hefur komu Guðmundar Guðmundssonar landsliðsþjálfara. Hann gerir þá kröfu til leikmanna sína að þeir hegði sér eins og sigurvegarar og láti ekki tímabundna velgengni slá sig út af laginu. Framkoma hans í fjölmiðlum einkennist af yfirveguðu sjálfstrausti og einbeittum sigurvilja þótt ummæli hans um þátt svissnesku dómarana í tapinu gegn Frökkum hafi verið vælukjóaleg – þótt sönn væru.

Það er ljóst að íslenska landsliðið getur unnið þetta mót í Svíþjóð. Erfiðast verður auðvitað að eiga við heimaliðið en að öðru leyti þá telur Deiglan ekkert því til fyrirstöðu að íslenska landsliðið komi heim með gullið. Liðið er einfaldlega það gott. Ef sá árangur næst ekki þá munu Íslendingar verða fyrir vonbrigðum og það verður þá bara að hafa það – við vonum hvort sem er öll innst í hjarta að við vinnum – af hverju ekki að viðurkenna það? Vísasta leiðin til þess að tapa í keppni er að gera ráð fyrir að sigur sé óraunhæfur. Föllum ekki í þá gryfju. Áfram Ísland!

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)