Lærdómur úr Norðvesturkjördæmi

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fór fram fyrir rúmri viku. Ljóst var frá upphafi að sá slagur yrði harður og höfðu margir á orði að hvernig sem færi þá yrðu úrslitin söguleg. Og söguleg urðu þau.

Sjálfstæðismenn í nýju Norðvesturkjördæmi héldu prófkjör þann 9. nóvember sl. Vart er nauðsynlegt að fara ítarlega í saumana á úrslitunum en til upprifjunar þá varð Sturla Böðvarsson í efsta sæti, Einar Guðfinnsson annar, Einar Oddur þriðji, Guðjón Guðmundsson fjórði og Vilhjálmur Egilsson fimmti. Prófkjörsreglurnar gerðu það að verkum að þótt einungis munaði um 40 atkvæðum á Sturlu og Vilhjálmi þá féll sá síðarnefndi niður í fimmta sætið þrátt fyrir að næstum því jafnmargir hafi viljað sjá hann og Sturlu í forystu.

Eins og oftast þegar um tvísýnar kosningar er að ræða hafa orðið nokkur eftirmál og þau þekkja væntanlega flestir líka. Svo virðist sem stuðningsmenn sumra frambjóðenda hafi gengið óhóflega fram í öflun utankjörstaðaratkvæða og kjörfundir verið haldnir á ólíklegustu stöðum og menn valsað um með kjörgögn út um borg og bý – og þótt kastljósið hafi beinst að Akranesi í því sambandi er ljóst er að viðlíka misbrestir áttu sér stað mun víðar í kjördæminu.

Hin greinilegu brot á hefðbundnum lýðræðisreglum sem áttu sér stað í þessu prófkjöri eru stóralvarleg tíðindi en að sama skapi má af þeim draga nokkurn lærdóm. Annars vegar vekur framkvæmdin vonandi umræðu og umhugsun um mikilvægi formreglna í kosningum og hins vegar hlýtur þessi uppákoma að undirstrika fyrir sjálfstæðismönnum hversu mikilvægt það sé að menn misnoti ekki það traust sem venja er að menn sýni hver öðrum innan flokksins.

Hvað virðingu fyrir formreglum áhrærir er nauðsynlegt að við séum öðru hverju minnt á það hversu dýrmætt gagn kjörseðill í rauninni er því í raun er öll lýðræðishefð Vesturlanda byggð á þeirri grundvallarforsendu að það sem upp úr kjörkössunum kemur sé ómengaður vitnisburður um vilja kjósenda. Ef slíku er ekki til að dreifa er lýðræðið fallið um sjálft sig. Líkja má trausti okkar á lýðræðinu við það traust sem við höfum á gjaldmiðli. Í báðum tilvikunum er birtingarmynd samfélagsskipulagsins pappírssnifsi – ódýrt og lítilfjörlegt pappírssnifsi sem hefur ekkert gildi í sjálfu sér – nema vegna óbilandi trúar samfélagsins á þá æðri merkingu sem pappírssnifsið hefur.

Peningafölsun er alls staðar talin stóralvarlegur glæpur. Á Íslandi má dæma menn í allt að tólf ára fangelsi fyrir peningafölsun og sums staðar telst slíkur verknaður jafngilda landráði. Þeir, sem grafa undan almenningstrausti á gjaldmiðlinum eða lýðræðinu, eru að ráðast á tvær af mikilvægustu grundvallarstoðum nútímasamfélags og afleiðingar slíks geta orðið verri en nokkur hryðjuverkamaður gæti látið sig dreyma um að valda.

Þeir kærulausu kosningasmalar sem í hita leiksins fóru út fyrir formreglurnar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir vestan hafa varla haft í hyggju að kollsteypa vestrænum lýðræðishefðum. Öllu líklegra er að þeim hafi í öllum látunum fundist það nú varla geta skipt miklu máli hvar menn væru þegar þeir kjósa – hvort þeir væru í vinnunni eða úti á bát. Þeim hefur e.t.v. fundist að þetta væri ekkert svindl þótt einstrengingslegar kosningareglur leyfðu ekki slíkar aðferðir við atkvæðagreiðslur. Þessar reglur væru nefnilega bara útaf svindlurum – en ekki út af stálheiðarlegu fólki sem ætlaði bara að hjálpa félögum sínum við að nýta lýðræðislegan rétt sinn til þess að kjósa sinn mann á þing.

En við ógætilega meðferð kjörgagna skapast hættan á því að einhverjir falli í freistni. Úr því menn leyfa sér að fara með kjörgögn á vinnustaði til þess að láta vini sína kjósa – er þá ekki næsta skref að hringja bara í þá og bjóðast til að kjósa fyrir þá. “Ég sé engan mun á því að Jói komi sjálfur að kjósa eða að Jói biðji mig einfaldlega um að ganga frá þessu fyrir sig,” gæti hljómað sem nokkuð rökrétt áframhald í þeirri viðleitni manna að auðvelda fólki að nýta lýðræðislegan rétt sinn. Og þá er stutt í að menn “viti bara hvað hann hefði kosið – á það að bitna á honum að það náðist ekki í hann á kjördag”.

Ljóst er að ekki þarf mikinn skilning á aðferðarfræði eða lýðræðinu til að sjá á hversu hættulegar brautir slík hugsun leiðir. Formreglur í kosningum eru ekki settar í einhverju bríaríi til þess að fjölga lögfræðingum í kjörnefnd – ekki frekar en að háþróuð prenttækni í peningaprentun er til þess að gera seðlana fallegri.

Hinn þátturinn varðandi þetta prófkjör snýr að Sjálfstæðisflokknum. Innan þess flokks ríkir mikið traust á milli fólks jafnvel þótt það takist á. Sjálfstæðismenn leggja mikið upp úr því að sýna samstöðu þótt eitthvað bjáti á og mikið þarf að ganga á áður en menn ásaka hver annan um óheilindi á opinberum vettvangi. Reyndar er það ríkt í flestum sem að stjórnmálum koma að vilja ekki véfengja úrslit kosninga eftir á.

Misfellur eiga sér ætíð stað í framkvæmd kosninga og við því er lítið hægt að gera. Sé hins vegar þagað þunnu hljóði yfir grun um vísvitandi svindli er beinlínis verið að stuðla að því að í naumum kosningum megi einfaldlega gera ráð fyrir því að sá tapi sem svindlar minna. Það var rétt hjá Vilhljálmi Egilssyni að vekja máls á því sem hann taldi vera umfangsmikil brotalöm á framkvæmd prófkjörsins. Það er mikilvægt að tryggja að rof á því trausti sem við höfum á afðerðum lýðræðsins liggi ekki óbætt.

Slysið sem átti sér stað í prófkjörinu í Norðvesturkjördæmi verður vonandi til þess að vitund manna um mikilvægi formreglna í kosingum vaxi og að sjálfstæðismenn hafi sig ögn hægari í ólgusjó flokksbaráttunnar. Lýðræðið sjálft er dýrmætara en svo að við látum það í skiptimynt fyrir stundlegan ágóða. Sjálfstæðisflokkurinn mun láta þetta fíaskó sér að kenningu verða og ólíklegt er að önnur eins vitleysa komi upp í prófkjörum flokksins í náinni framtíð.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.