Nýir leiðtogar í Kína

Í síðustu viku urðu kynslóðaskipti í helstu valdastofnunum kínverska kommúnistaflokksins. Þriðja kynslóðin vék fyrir þeirri fjórðu. Leiðtogi fjórðu kynslóðarinnar heitir Hu Jintao.

Í síðustu viku átti sá sögulegi atburður sér stað að kínverski kommonistaflokkurinn valdi sér nýjan leiðtoga. Þetta er í fyrsta skipti í sögu flokksins sem leiðtogaskipti eiga sér stað án þess að til kæmi dauði fyrri leiðtoga eða uppreisn innan flokksins. Hinn nýji leiðtogi heitir Hu Jintao og er 59 ára gamall.

Hu á litríkan ferill að baki innan kommúnistaflokksins. Í byrjun níunda áratugarins var hann formaður ungliðahreyfingar flokksins og náinn samstarfsmaður Hu Yaobang, sem þá var einn fremsti umbótasinni innan flokksins. Tengsl hans við Hu Yaobang gerðu honum kleift að rísa hratt í gegnum embættismannastiga flokksins þar til hann varð héraðsleiðtogi í Guizhou. Í Guizhou hafði hann orð á sér fyrir að laða að sér umbótasinna sem áttu erfitt uppdráttar í Beijing.

Ímynd Hu sem umbótasinna breyttist hins vegar talsvert eftir að hann tók við héraðsleiðtogastöðu í Tíbet. Þar stjórnaði hann með mjög harðri hendi eftir uppreisn Tíbetbúa árið 1989 og uppskar fyrir vikið mikla virðingu yfirmanna sinna í Beijing. Árið 1992 gerði Deng Xiaoping Hu að meðlim í framkvæmdanefnd flokksins, æðstu valdastofnun flokksins.

Í dag eru fáir sem treysta sér til þess að spá fyrir um hvaða stefnu Hu mun marka þegar honum hefur tekist að treysta nægilega völd sín á toppnum. Frjálslyndir líta á hann sem umbótasinna en íhaldsmenn telja hann vera harðlínumann. Um eitt eru hins vegar allir sammála. Hu er fluggáfaður og ákaflega hæfileikaríkur stjórnmálamaður.

En fleiri mannabreytingar áttu sér stað í Beijing í vikunni. Í raun má segja að orðið hafi kynslóðaskipti í öllum helstu valdastofnunum flokksins þar sem „þriðja kynslóðin” vék fyrir þeirri fjórðu. (kynslóð Mao, kynslóðin Deng, kynslóð Zemin, og nú kynslóð Hu.) Þannig véku allir hershöfðingjar yfir sjötugt úr herráðinu, og einnig allir meðlimir framkvæmdastjórnarinnar nema Hu.

Fráfarandi formaður flokksins, Jiang Zemin, er þó ekki dauður úr öllum æðum. Hann heldur eftir stöðu formanns herráðsins og flestir eru á því að honum hafi tekist að knýja valdaelítu flokksins til þess að velja menn sem eru honum hliðhollir í hina nýju framkvæmdastjórn. Zemin virðist því ætla að láta frá sér völd sín hægt og bítandi með svipuðum hætti og Deng Xiaoping gerði fyrir hálfum öðrum áratug. Deng hafði einnig þann háttinn á að hann hélt eftir stöður formanns herráðsins í nokkur ár og fyllti helstu valdastofnanir flokksins af fólki sem hann hafði velþókknun á.

Hu stendur nú frammi fyrir gríðarlega flóknu og erfiðu verkefni. Eftir 25 ára hagvaxtarskeið er Kína ekki lengur fátækt land. Þar býr ört vaxandi millistétt sem mun á næstu árum gera tilkall til meira frelsis og lýðræðis. Margir tala um að Kína sé á svipaðri braut og lönd eins og Suður Kórea, Tævan og Síle, sem efnuðust á meðan einræðisherrar voru við völd, en tóku á endanum upp lýðræði. En hvað sem breytingum á stjórnarháttum líður þá er gríðarlegt félagslegt ójafnvægi víða í Kína þar sem efnahagur landsins hefur breyst svo ört á síðustu árum. Það er þetta ójafnvægi sem stjórnvöld í Kína þurfa að takast á við ef þau vilja að efnahagur landsins haldi áfram að vaxa og dafna.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.