Boxfrumvarpið loksins barið í gegn

Loksins lítur út fyrir að hefaleikar verði leyfðir á Íslandi. Nokkrir þingmenn vilja hins vegar að íslenskir boxarar berji menn ekki í hausinn.

Þeim myndi víst líða betur sumum þingmönnunum ef íslenskir boxarar berðu ekki hver annan í hausinn. Því hefur verið lögð fram breytingartillaga við lagafrumvarp sem heimilar áhugamannahnefaleika á Íslandi og í henni felst að ekki megi slá í höfuð andstæðingsins í íslensku boxi.
Það er útaf fyrir sig alveg réttmætt sjónarmið að þung höfuðhögg eru tæplega til þess fallin að stuðla að almennri heilsubót en í ljósi málflutnings Kolbrúnar Halldórsdóttur þingmanns VG þá er þessi breytingartillaga nokkuð undarleg. Kolbrún endaði ræðu sína í 2. umræðu á þessum orðum:

Herra forseti. Fari svo að hv. Alþingi lyppist niður í þessu máli, ætli þess verði þá langt að bíða að ungir Íslendingar sjáist barðir í spað í keppni í hnefaleikum á erlendri grund? Og ætli, herra forseti, íslenskir alþingismenn verði þá stoltir yfir því að hafa lyppast niður?

Víst er að fátt er betur til þess fallið að stuðla að því að íslenskir boxarar verði barðir í spað á erlendri grund heldur en einmitt að þeir megi ekki slá í höfuð andstæðinganna – eða þurfi að verja sitt eigið – í keppni hér á landi.

Það er vafalaust nokkuð áfall fyrir þá þingmenn sem harðast hafa barist gegn lögleyfingu hnefaleika að nú virðist ljóst að þeir muni ekki hafa erindi sem erfiði í þeim slag. Þeir hafa komið fram með mýmörg rök um af hverju hnefaleikar geti verið hættulegir heilsu fólks. Það sem hefur hins vegar orðið málfltuningi þeirra að falli er að rökin um af hverju fólki skuli ekki treyst sjálfu til þess að taka ákvarðanir um þátttöku í hnefaleikum hafa aldrei komið fram.

Í dag kl. 15 verður að líkindum samþykkt frumvarp Gunnars Birgissonar og fleiri um að hnefaleikar skuli á ný heimilaðir hér á landi. Eitt af því sem hlýtur að vekja athygli við frumvarpið er að í stað þess að lagagreinar sem kveða á um bann við hnefaleikum séu einfaldlega felldar úr gildi þá eru sett fram sérstök lög sem heimila íþróttina. Slíkt kann að virðast fremur léttvægt lagatæknilegt atriði en í raun er þar að finna varhugaverða hugsun. Í stað þess að löggjafinn árétti að það sem ekki sé bannað sé leyft þá er gefið í skyn að það sem ekki sé leyft sé bannað.

Sá sigur sem að líkindum verður loksins verður innbyrtur í dag er hluti af stærri baráttu. Baráttan um frelsi einstaklingsins til orðs og æðis er ævarandi og það er mikilvægt að þingmenn geri sér grein fyrir því að þau skilaboð send eru út með lagasetningu skipta miklu um það almenna hugarfar sem lagaumhverfið ber vitni um. Það er því mikilvægt að þegar bjánalegri löggjöf, eins og þeirri sem bannar hnefaleika, er hrundið – að þá sé það gert með því að afnema einfaldlega þau lög sem svo kveða á um.

Ef við gefum okkur að breytingartillaga um bann við höfuðhöggum yrði samþykkt þá yrði þess vafalaust ekki langt að bíða að Alþingi þyrfti að endurskoða þá ákvörðun (enda þjóðin orðin þreytt á að sjá íslenska boxara barða í spað á erlendri grund). Væri þá ekki heldur einkennilegt að mælt yrði fyrir lögum sem heimiluðu sérstaklega höfuðhögg í íþróttinni í stað þess einfaldlega að afnema vitleysuna?

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.