Breytingar á Morgunblaðinu

Það er vafalaust ekki þrautalaust hjá ritstjórn Morgunblaðsins að hrófla við uppsetningu blaðsins og víst er að margir lesendur bregðast ókvæða við í hvert sinn sem smávægileg breyting er gerð á Morgunblaðinu. Síðustu breytingar á Morgunblaðinu munu vafalaust efla blaðið til langframa.

Síðasta laugardag var forsíðu Morgunblaðsins breytt á þann veg að nú birtast þar innlendar jafnt sem erlendar fréttir. Uppsetningin á forsíðunni er einnig nokkuð breytt og virðst helst sem að með þeirri breytingu geti verið um að ræða tilraun til þess að auka lausasölu blaðsins sem hingað til hefur verið mjög lítill þáttur í heildarupplagi blaðsins.

Morgunblaðið er vafalaust í hugum flestra meira en bara fjölmiðill. Það er ein af kjölfestum íslensks samfélags og vafalaust sá upplýsingamiðill sem hvað mestrar virðingu nýtur í íslensku samfélagi – og réttilega svo.

Morgunblaðið hefur ekki einasta það hlutverk að sinna fréttaþörf landsmanna heldur er blaðið einnig helsti vettvangur lýðræðislegrar umræðu á Íslandi með því að birta mikið magn af aðsendum greinum á degi hverjum. Þá er það auðvitað séríslenskt fyrirbæri að svo mikið af minningargreinum birtist í víðlesnu dagblaði en sú þjónusta sem Morgunblaðið sinnir í þeim efnum er í senn dýrmæt syrgjendum og ómetanleg heimild um þá sem skrifað er um.

Morgunblaðið hefur, eins og aðrir fjölmiðlar, þurft að horfast í augu við mjög miklar breytingar í upplýsingamiðlun á síðustu árum. Nú getur fólk nálgast fréttir og fréttatengt efni á mun auðveldari hátt í gegnum internetið – og þarf þá ekki að greiða fyrir það áskrift og getur þar að auki vinsað frá allt efni sem það hefur ekki áhuga á. Þessi breyting er miklum mun meiri samkeppni við Morgunblaðið heldur en önnur dagblöð sem hér skjóta upp kollinum en hafa þó aldrei lagt beinlínis út í að keppa við Morgunblaðið, enda ekki haft bolmagn til.

Breytingarnar sem nú hafa verið kynntar á Morgunblaðinu eru vafalaust byrjunin á lengra ferli. Það er eðlilegt að ritstjórn Morgunblaðsins fari hægt í sakirnar við breytingar á útliti blaðsins enda víst að dyggir lesendur þurfi töluverðan tíma til að venjast öllum breytingum á blaðinu. Það er engu að síður mjög jákvætt að slíkar breytingar skuli engu að síður vera gerðar og Morgunblaðið þróist áfram í takt við nýja tíma.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)