Stál í stál

Ákvörðun Bush forseta Bandaríkjanna að setja verndartolla á influtt stál hefur vakið hörð viðbrögð. Hvaða áhrif hafa slíkir tollar og hver græðir á því?

Ákvörðun Bush forseta Bandaríkjanna að setja verndartolla á influtt stál hefur vakið hörð viðbrögð. Bandarískur stáliðnaður hefur oft átt undir högg að sækja og svo er einnig nú. Með því að leggja allt að 30% verndartoll á innflutt stál vill Bush gefa heimamönnum forgjöf í stáliðnanðinum í um það bil þrjú ár svo þeir geti endurskipulagt sig.

Þessi ákvörðun Bush kemur mörgum á óvart. Sérstaklega í ljósi þeirrar forystu er hann virtist ætla taka í fríverslunarmálum þegar hann fékk samþykkt í þinginu frumvarp er gaf honum mjög rúma heimild um gerð fríverslunarsamninga. En demókratar hafa oftar verið leiðandi í þessum málum síðustu ár. Um þetta mál fjallaði Þórlindur Kjartansson í pistli hér á Deiglunni 12. desember s.l.

Sumir telja að ástæða ákvörðunarinnar sé sú að í stærstu stálfylkjum Bandaríkjanna séu repúblíkanar á mörkum þess að sigra í þingkosningum í nóvember. Þarna sé því um að ræða hreppapólitík korteri fyrir kosningar, svona rétt eins og við þekkjum svo mætavel hér á Fróni. Hver sem ástæðan kann að vera eru talsmenn frjálsrar verslunar verulega óhressir.

Fyrsta forsenda frjálsrar verslunar er að allir hagnist. Það gerist með sérhæfingu. Fyrst komu vöruskiptin, bóndinn fékk brauð frá bakaranum fyrir kornið sitt og járnsmiðurinn og bóndinn skiptu á hestum og skeifum. Peningar auðvelduðu viðskiptin og gáfu bóndanum frelsi til að kaupa fisk í stað brauðsins. Síðast komu til skjalanna tækniframfarir og aukin sérhæfing.

Það hljóta að vera sameiginlegir hagsmunir allra að geta keypt vörur á sem hagstæðustu verði. Þannig fá launþegar mest fyrir sína peninga og atvinnurekendur hagnast á því að gera það sem þeir eru bestir í. Séu bandarískir stálframleiðendur ekki samkeppnishæfir hlýtur að vera betra fyrir bandarísk framleiðslufyrirtæki að kaupa stál erlendis frá.

Stál er gríðarlega mikið notað í hvers kyns framleiðslu. Með verndattollunum er ljóst að verð á stáli í bandaríkjunum hækkar og þar með hækkar framleiðslukostnaður á bílum, ýmsum raftækjum og vélum. Verð hækkar til neytenda og afkoma fyrirtækja versnar. Svartsýnustu menn hafa sagt að fyrir hvert eitt starf sem tollarnir bjarga í stáliðnaði tapist átta í ýmsum öðrum framleiðslugreinum.

Bretar, Rússar og fleiri hafa gagnrýnt tollana harðlega. Tony Blair sagði að þeir væru óréttlátir og beinlínis röng ákvörðun að setja þá á. Blair hefur sjálfur sætt gagnrýni fyrir að hjálpa styrktaraðila Verkamannaflokksins að kaupa ríkisstáliðjur Rúmeníu, þrátt fyrir að fyrirtæki hans væri ekki breskt og þannig hafi hann gert á hlut hins viðkvæma breska stáliðnaðar. Nú telja bresk verkalýðsfélög að verndartollarnir gætu kostað um 5.000 störf þar í landi.

Evrópusambandið hefur einnig gagnrýnt tollana harðlega. Andstæðingar þess gætu þó sagt að sú gagnrýni komi úr hörðustu átt þar sem ein af grunnforsendum þess séu ýmsir verndartollar gagnvart öðrum þjóðum. Auk þess eru niðurgreiðslur og ríkisstyrkir nokkuð áberandi þar í landbúnaði og ýmsum öðrum greinum.

Þótt ýmsir telji allsherjar verndartollastríð í uppsiglingu fagna ég umræðunni. Hún hlýtur að vekja fólk til umhugsunar og þar af leiðandi afla fylgis við frjálsa verslun og aukna alþjóðavæðingu. Þannig er það ekki bara í lagi, heldur beinlínis til hagsbóta að ákveðnir aðilar, jafnvel á afmörkuðum svæðum sérhæfi sig í ákveðinni starfsemi.

Þannig hljóta allir að vera sammála því, þótt þeir viðurkenni það kannski ekki, að þjóðerni vínberja skipti ekki máli. Þannig sé betra að þau séu ræktuð þar sem hagkvæmni og gæði eru í hámarki. Þar með sé betra að flytja þau inn frá Frakklandi en leggja á þau verndartolla ef bónda í Hveragerði dytti í hug að hefja vínberjarækt. Sama á við um papriku, gallabuxur og stál.

Væntanlega segja sumir að þetta sé einföldun á málunum. Það má ekki gleyma heimsvaldapólitík og einstaka dramatískum sögum um atvinnuleysi og framfærslu fjölskyldna. Staðreyndin er þó sú að þetta er ekki svo mikil einföldun. Frjáls viðskipti eru hornsteinn að þeim markmiðum sem flest vestræn samfélög hafa sett sér.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)