Pólitískur ómöguleiki

Nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar um slit á aðildarviðræðum við ESB hefur vakið furðu og reiði hjá stórum hluta þjóðarinnar ef marka má undirskriftir, mótmæli og almenna umræðu. Fólk er reitt yfir því að ríkisstjórnin hyggst svíkja kosningaloforð sem var haldið á lofti fyrir síðustu alþingiskosningar og einnig yfir málflutningi ráðherra þegar þeir reyna að verja þá ákvörðun með tilvísun í landsfundaályktanir, líkt og kosningaloforð skipti ekki máli. Og reiðin er blandin undrun. Afhverju að slíta viðræðum núna?

Nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar um slit á aðildarviðræðum við ESB hefur vakið furðu og reiði hjá stórum hluta þjóðarinnar ef marka má undirskriftir, mótmæli og almenna umræðu. Fólk er reitt yfir því að ríkisstjórnin hyggst svíkja kosningaloforð sem var haldið á lofti fyrir síðustu alþingiskosningar og einnig yfir málflutningi ráðherra þegar þeir reyna að verja þá ákvörðun með tilvísun í landsfundaályktanir, líkt og kosningaloforð skipti ekki máli. Og reiðin er blandin undrun. Afhverju að slíta viðræðum núna?

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkissráðherra er flutningsmaður þingsályktunartillögunar um viðræðuslitin. Í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi sagði þrjár ástæður veigamestar fyrir tilurð og tímasetningu tillögunnar. Hann sagði að kallað hafi verið eftir því í þinginu að fá skýrar línur hvað ætti að taka við, ESB hafi gefið út að þesssi bið geti ekki verið endalaus og að lokum séu stjórnarflokkarnir að fylgja eftir sannfæringu sinni um að við eigum ekki heima í ESB. Stjórnarandstaðan innti Gunnar Braga svara um hvernig ESB hefði komið þessum skilaboðum áleiðis og vísaði Gunnar Bragi þá til ummæla stækkunarstjóra ESB í tveimur viðtölum þar sem hann hann hafi sagt að þetta ætti „ekki að bíða lengi.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins gerði tilraun til að skýra málið í Kastljósviðtali 24. febrúar. Þar lagði Bjarni mesta áherslu á að ómögulegt væri fyrir tvo flokka andvíga inngöngu í ESB að standa að aðildarviðræðum. Til að hnykkja á punktinum talaði hann um „pólitískan ómöguleika“, frasi sem varð instant klassík. Hefur Bjarni vísað í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins máli sínu til stuðnings.

Í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins um ESB segir orðrétt: „Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“ Það er til marks um mjög þrönga túlkun á orðalagi að skilja þetta sem svo að slíta beri viðræðum. Aðildarviðræðum hefur í reynd verið hætt. Sama má segja um flokksþingsályktun Framsóknarflokksins um ESB þar sem segir orðrétt: „Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“ Hér er ekkert minnst á að slíta beri viðræðum heldur má skilja orðalagið sem svo að núverandi viðræðum verði fram haldið eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta skýrir engan veginn afhverju ríkisstjórnin ákvað að sprengja þessa púðurtunnu þremur mánuðum fyrir sveitastjórnarkosningar. Kannski er þetta stórt samsæri eða kannski er þetta svona ákvörðun sem tók sig sjálfa. Hver veit? Altént skiptir ástæðan núna minna máli heldur en lausnin. Og lausnin kemur úr óvæntri átt.

Þingflokkur VG hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að gert verði formlegt hlé á aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Aðildarviðræðum verði ekki haldið áfram eða þær teknar upp á nýjan leik nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Alþingi álykti að efnt skuli til þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabilsins.

Með þessu er VG að henda líflínu til ríkisstjórnarinnar til að koma sér út úr glórulausri stöðu. Þessi leið gefur ríkisstjórninni kost á að takast á við hinn „pólitíska ómöguleika“ og um leið standa við gefin kosningaloforð. Ef þessari leið verður hafnað þá þarf ríkisstjórnin að færa fyrir því sterkari rök heldur en að vísa í hentugleika túlkun á eigin landsfundaályktunum eða meinta óþolinmæði ESB. Það er að segja, hafi hún minnsta áhuga á að viðhalda trausti annarra en harðlínumanna úr innsta kjarna eigin flokka.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.