Áfangasigur fyrir hvalveiðiþjóð

Farsæl niðurstaða hefur fengist í hvalveiðimál Íslendinga eftir staðfasta málafylgju íslenskra stjórnvalda síðustu ár og misseri. Hvalveiðar Íslendinga sem þátttakenda í alþjóðlegu samstarfi eru handan við hornið.

Á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Cambridge um helgina staðfestu aðildarþjóðir ráðsins að Íslendingar væru fullgildir aðilar að ráðinu í krafti framlagðra aðildarskjala. Fjölmiðlar hafa ranglega farið með þegar þeir tala um að ráðið hafi samþykkt aðildarumsókn Íslendinga, enda sækir enginn um aðild að slíkri stofnun.

Íslendingar höfðu fyrir nokkru síðan lagt fram fullgild aðildarskjöl, sem er nægjanlegt til aðildar samkvæmt þjóðréttarreglum, en sem kunnugt er beittu ákveðnar aðildarþjóðir, einkum Svíar, pólitísku ofbeldi til að halda Íslendingum frá störfum ráðsins.

Formleg viðurkenning á aðild Íslands að Alþjóðahvalveiðiráðinu er mikilvægt skref og í raun áfangasigur fyrir Íslendinga. Ekkert er því til fyrirstöðu að við getum innan skamms hafið hvalveiðar, fyrst í vísindaskyni og síðan í atvinnu- og ábataskyni.

Það hefur í sjálfu sér verið alltaf verið fyrir hendi að Íslendingar gætu hafið hvalveiðar einhliða, en með staðfastri málafylgju á alþjóðavettvangi síðustu misseri og ár getum við nú hafið veiðar á hval sem þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði, en ekki sem utangarðsmenn.

Fyrr í sumar riðu Íslendingar á vaðið í milliríkjaverslun með hvalaafurðir þegar keypt voru til landsins nokkur tonn af norsku hrefnukjöti. Sú verslun hafði fyrst og fremst táknrænt gildi, eins og getið var um pistli hér á Deiglunni 18. júlí síðastliðinn:

Þessi eini gámur af norsku hrefnukjöti sem skipað var á land í Sundahöfn fyrr í vikunni gæti því orðið upphafið að nýju blómaskeiði milliríkjaverslunar með hvalaafurðir. Mjór er oft mikils vísir.

Forsenda þess að Íslendingar geti stundað sínar hvalveiðar er sú, að hægt sé að selja afurðirnar úr landi. Með því að fara þá leið sem farin hefur verið af hálfu stjórnvalda, höfum við lagt grunninn að því að slík verslun sé möguleg. Þótt hvalveiðar í atvinnu- og ábataskyni hefjist að öllum líkindum ekki fyrr en 2006, þá er það alls ekki of seint, því gera má ráð fyrir að það taki 2-4 ár að vinna það markaðsstarf sem nauðsynlegt er.

Þessi niðurstaða er því sigur fyrir sjávarútvegsráðherra og þá stefnu sem Íslendingar hafa haldið fast við á síðustu árum. Hvalamálinu hefur verið farsællega siglt í höfn.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)