Allt að gerast!

Það hefur ekki verið nein gúrkutíð í íslenskum fjölmiðlum undanfarið. Sögulegum réttarhöldum fyrir Landsdómi er nýlokið, sérstakur saksóknari er farinn að gefa út ákærur, Eurovision-myndbandið var frumsýnt í vikunni og það er alltaf nóg að gerast í boltanum.

Það hefur ekki verið nein gúrkutíð í íslenskum fjölmiðlum undanfarið. Sögulegum réttarhöldum fyrir Landsdómi er nýlokið, sérstakur saksóknari er farinn að gefa út ákærur, Eurovision-myndbandið var frumsýnt í vikunni og það er alltaf nóg að gerast í boltanum.

Vitnaleiðslurnar fyrir landsdómi fóru varla framhjá neinum. Hver kanónan mætti þar á fætur annarri og vöktu sumar þeirra meiri athygli en aðrar. Það var t.d. hvert sæti skipað í Þjóðmenningarhúsinu þegar Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, mætti til að bera vitni. Eftir því var tekið hversu ótrúlega glæsilegur hann var – í mörg hundruð þúsund króna jakkafötum, fullur sjálfstrausts og með óaðfinnanlega greiðslu. Hann þáði ekki boð um að fá sér sæti á meðan hann beið eftir því að setjast í vitnastúku heldur stóð, hnarreistur og munúðarfullur, sjálfsöryggið uppmálað. Hreiðar Már Sigurðsson átti salinn.

Að sama skapi var eftir því tekið hversu púkó önnur vitni voru gjarnan. Þannig mætti Steingrímur J. alveg fara að poppa upp fataskápinn sinn; hann virðist bara eiga jakkaföt í þunglyndislegum jarðarlitum á borð við mosagrænan og brúnan. Er þetta ekki maðurinn sem ætlar að stýra þjóðarskútunni út úr kreppunni? Hvernig væri þá að virka aðeins glaðlegri með hressari klæðaburði?

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, mætti líka í vitnastúku í Þjóðmenningarhúsinu. Fræg er að endemum World Class-ferð hans sunnudaginn örlagaríka þegar ákveðið var að þjóðnýta Glitni. Hvað er að frétta hjá kappanum núna? Er hann hættur að mæta í World Class eða? Hann er að minnsta kosti ekkert að grennast. Eftir því var tekið fyrir Landsdómi.

Talandi um líkamsrækt og það að vera í formi. Í gærkvöldi var sýnt beint frá stórleik Manchester City og Chelsea á Stöð 2 Sport 2. Ég sat límd við sjónvarpið og fagnaði marki Chelsea gríðarlega enda var tap City hinu Manchester-liðinu í hag. Ég var svo reyndar ekkert að hata það þegar City fékk vítaspyrnu því þá kom myndarlegasti maður vallarins í nærmynd, Argentínumaðurinn Kun Agüero. Ég skildi hins vegar ekki hvers vegna Samir Nasri ákvað að fara úr treyjunni þegar hann skoraði sigurmark City. Hann var að minnsta kosti ekki að fara úr fyrir kvenþjóðina: hann er ekkert sérstaklega massaður og hvítari en allt sem er hvítt.

Að leik loknum, sem City vann, því miður, var komið að knattspyrnuþættinum Sunnudagsmessan. Umsjón með honum hafa tveir karlmenn, þeir Guðmundur Benediktsson og Hjörvar Hafliðason. Þeir munu seint teljast ómyndarlegir og vita sínu viti um knattspyrnu en hvað voru þeir að spá í gær? Gummi Ben á ekki að vera með mottu, frekar en Markús Sigurbjörnsson, forseti Landsdóms, og Hjörvar, í hverju var hann eiginlega? Ljótustu jakkafötum heims og með hræðilegt bindi við? Hvað er að frétta? Svo sýnist mér hann vera að fitna í þokkabót! Hvernig væri að hann og Össur færu saman í World Class?

Eins og sjá má er búið að vera nóg um að vera og það er nóg framundan. Dómur verður kveðinn upp í Landsdómi í apríl og verður spennandi að sjá hvort að Markús verði búinn að raka af sér mottuna, sem fer honum svo illa, enda Mottumars þá lokið. Að sama skapi verður gaman að sjá hvort að Hreiðar Már verði jafn reffilegur í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar hann mætir þangað sem sakborningur í Al Thani-málinu svokallaða. Einnig bíð ég spennt eftir því að sjá hverju Jónsi mun klæðast á sviðinu í Bakú – kannski pilsi eins og Einar Ágúst forðum daga?

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.