O alte Burschenherrlichkeit

Allt frá því ég var barn man ég eftir því að heyra fólk lýsa með miklu þjósti yfir andúð sinni á utanbókarlærdómi. Það er kominn tími til að einhver komi honum til varnar.

Allt frá því ég var barn man ég eftir því að heyra fólk lýsa með miklu þjósti yfir andúð sinni á utanbókarlærdómi. „Til hvers að muna hver er höfuðborgin í Malasíu þegar hægt er að fletta því upp?“ „Til hvers að kunna margföldunartöfluna utanað þegar hægt er að reikna það í vasareikni?“ „Af hverju að muna símanúmerið hjá nánustu ættingjum ef það er hægt að fletta því upp í símaskránni?“ En verstu fordæminguna af öllu fékk sú hefð í Menntaskólanum í Reykjavík að láta nýnemana læra utan að fjöldann allan af þýskum ljóðum á fyrstu vikum námsins. Ekki nóg með að fæstir sjái beinan hagnýtan tilgang í að kunna þessi ágætu ljóð heldur er óhætt að segja að mjög stór hluti nemendanna hafði engan veginn næga þekkingu á þýsku til þess að skilja þau – hvað þá að kunna að meta þau.

Nú til dags eru þessar spurningar ennþá áleitnari. Ekki nóg með að hægt sé að fletta  upp Kuala Lumpur og Stjána frænda í bókum heldur er hægt að komast að þessu öllu með því að strjúka nettengda snjallsímanum rétt. Upplýsingar eru svo auðsóttar að ætla mætti að hægt sé að lifa fullkomlega eðlilegu lífi án þess að muna nokkurn skapaðan hlut. Og stundum grunar mann að fjöldi fólks sé einmitt að láta á það reyna. Það virkar einhvern veginn lógískt að það sé sóun á heilastarfsemi að leggja hluti á minnið. Betra sé að spara plássið fyrir sköpunargáfuna en sækja bara upplýsingar og staðreyndir eftir hentugleika. Ennfremur heyrist það gjarnan sagt að samhengislaus „páfagaukalærdómur“ sé fullkomlega gamaldags og gagnslaus.

En sitt er hvað staðreyndir og þekking, upplýsingar og viska. Auðvelt aðgengi að ýmis konar upplýsingum og staðreyndum gagnast lítið eitt og sér. Til þess að sjá samhengi og mynstur þarf manneskjan að reiða sig á kynstrin öll af inngróinni þekkingu. Utanbókarlærdómur og páfagaukalærdómur verða smám saman að mikilvægri undirstöðu undir skilning sem svo getur leitt til þekkingar, visku eða jafnvel frumlegrar hugsunar.

Þegar lítil börn læra tölustafina eru þau að læra utanbókar, eins og páfagaukar. Þau læra fyrst að skilja muninn á einum og mörgum, svo læra þau muninn á einum, tveimur og mörgum. Að fá tilfinningu fyrir muninum á þrettán og fjórtán tekur mörg ár – jafnvel þótt barnið sé vant því að þylja upp talnarununa hárrétt. En þessi páfagaukalærdómur gerir það að verkum að allt fullorðið fólk kann og skilur tölur fullkomlega. Það þarf enginn að fletta því upp á netinu hvaða tala kemur á eftir 12.311, jafnvel þótt viðkomandi hafi aldrei talið svo hátt áður. Röð talnanna er svo rótföst í minninu að heilinn lætur mann halda að hann viti að næst komi 12.312 – jafnvel þótt hann hafi aldrei lært þessa tilteknu talnarunu. Hin svakalega vinna sem lítil börn leggja í að læra tölurnar skila sér smám saman í fullkomnum skilningi á talnakerfinu. Það er mjög ólíklegt að það sé betra fyrir börnin að öðlast fyrst „skilning“ á hugmyndinni á bak við hverja einustu tölu áður en þau byrja að læra að fara utanað með rununa.

Það er ekki einfalt viðfangsefni að skilja kerfi talnanna og hafa svo bjargtrausta tilfinningu fyrir því að það þurfi ekki að hugsa um það. Hið sama gildir líklega á flestum sviðum. Sá sem fann upp lotukerfið (augnablik, meðan ég fletti því upp á google…Mendeleev) þurfti að þekkja eiginleika efnanna eins og handarbakið á sér til þess að hrapa á endanum niður á hið snilldarlega flokkunarkerfi. Allar þær upplýsingar sem heilinn í honum hafði á reiðum höndum voru grundvöllurinn undir heildarmyndina. Heildarmyndin hefði aldrei orðið honum ljós ef hann hefði í sífellu þurft að fletta upp hverju einasta smáatriði um eðli efnanna. Fullkominn skilningur Beethovens á tónfræði gerði honum kleift að semja ódauðleg verk eftir að hafa misst heyrnina. Ef hann hefði alltaf þurft að slá saman C og D á píanóinu til að ganga úr skugga um að þær hljóma ekki vel saman þá hefði allt hans ævistarf orðið býsna tafsamt og síðustu verkin algjörlega ómöguleg.

Yfirburðavald á mörgum gagnslausum staðreyndum getur semsagt verið býsna gagnlegt. Þótt hægt sé að fletta upp í bókum eða á netinu fjöldanum öllum af ljóðum og spakmælum er það gagnlaust eitt og sér. Sá sem ætlar að vitna í ljóð þarf að hafa kynnt sér það áður svo hann geti leitað í það þegar honum dettur í hug að það passi vel við skrif sín. Læknir treystir á óteljandi staðreyndir sem hann hefur lagt á minnið til þess að geta dregið gagnlegar ályktanir um ástand sjúklings. Öll raunveruleg kunnátta hvílir á einhvers konar utanbókarlærdómi, sem smám saman leiðir til skilnings og jafnvel nýrrar sköpunar.

Og þá aftur af þessum þýsku ljóðum. Ég var fjögur ár í menntaskóla og lærði örugglega helling af ákaflega gagnlegum hlutum um eðlisfræði, líffræði, stærðfræði, sögu og stjörnufræði. En færi ég í próf í dag finnst mér sennilegt að ég næði einna bestum árangri við að flytja þessi bévítans þýsku ljóð. Og eitt er víst. Þegar ég hitti gömlu vini mína úr MR þá er mun líklegra að við endum á því að syngja Lorelei heldur en að rifja upp efnaskipti ljóstillífunar. Og ég er ekki heldur frá því að sumt í ljóðunum verði skiljanlegra með árunum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.