Portúgalska leiðin

Í kjölfar mikilla umræðna um lögleiðingu fíkniefna fjallar þessi pistill um svonefnda portúgölsku leið, en árið 2001 ákvað ríkisstjórn Portúgals að afnema refsingar við fíkniefnanotkun þar í landi. Hver voru áhrif hennar og hvaða lærdóm má draga af henni.

Í fyrradag sendi stjórn SUS frá sér ályktun um að ungir sjálfstæðismenn vilji lögleiða fíkniefni. Í kjölfarið varð mikið fjaðrafok í netheimum og ekki í fyrsta sinn eftir að sambandið ályktar. Þetta er mikið hitamál og hugsanlega mun aldrei nást fullkomin sátt um það. Það má ef til vill líkja þessari umræðu hér á landi við fóstureyðingarumræðuna vestanhafs að því leyti að annaðhvort eru menn virkilega hlynntir eða virkilega andvígir. Sjálfur hef ég stokkið á milli póla í þessum efnum og ég held að margir séu í sömu stöðu.

Það sem að hefur þó stungið í augun í þessari umræðu eru allar þær rangfærslur sem haldið er fram. Sú lífseigasta er líklega sú að lögleiðing fíkniefna hafi hvergi skilað raunverulegum árangri. Þá er líklega átt við færri fíkla, færri lögbrot tengd fíkniefnum, færri alnæmissmit og þessháttar. Þetta eru jú þau atriði sem lögleiðing fíkniefna á að hafa mikil áhrif á. Margir benda á Holland þessu til stuðnings en staðreyndin er sú að Holland hefur aldrei lögleitt fíkniefni. Í raun má segja að Hollendingarnir horfi framhjá kannabisneyslunni að vissu leyti, til að mynda framfylgja þeir ekki lögum gegn frægum grasbúllum í Amsterdam og víðar. Þá er einstaklingi einnig heimilt að hafa í fórum sínum 5 grömm af kannabis. Hann má þó ekki reykja það á almenningsstöðum – nema auðvitað á áðurnefndum grasbúllum.

Og þá kemur aftur að spurningunni um hvar lögleiðingin hafi haft áhrif ef ekki í Hollandi. Þá kemur Portúgal til sögunnar. Árið 2001 varð Portúgal fyrsta Evrópuríkið til þess að afnema allar refsingar við fíkniefnanotkun. Þetta gilti fyrir öll efni, þar með talin harðari efni eins og heróín, kókaín og amfetamín. Breytingin hafði í för með sér að meðferð og hjálparúrræði komu í stað fangelsisvistar. Vegna hræðslu við fangelsisvist halda fíklar sig gjarnan neðanjarðar, ef svo má að orði komast. Með þessari breytingu hvarf sú hræðsla og til varð hvatning til þess að koma upp á yfirborðið. Einstaklingur má eiga birgðir af efnunum til 10 daga neyslul Ef upp kemst að hann eigi meira bjóðast honum önnur úrræði en við eigum að venjast hér á landi. Það felur í sér að brotlegir fá sál- og lögfræðihjálp og ráðgjöf félagsráðgjafa .

Mikið var rætt á þessum tíma um hvort að Portúgal yrði að nýlendu fyrir eiturlyfjafíkla og hvort að með þessu væri ekki verið að hella olíu á eldinn. Þessar áhyggjur voru skiljanlegar í ljósi þess að Portúgal var eitt af þeim Evrópulöndum þar sem neysla harðari eiturlyfja var hvað mest. Það var því fagnaðarefni fyrir fylgjendur stefnunar þegar að Cato stofnunin birti skýrslu í apríl 2009 um reynsluna af lagabreytingunni. Í skýrslunni kemur fram að fimm árum eftir að refsingar voru afnumdar hefur fíknefnanotkun unglinga minnkað, HIV-smit eru færri og fjöldi þeirra sem sækir meðferð hefur tvöfaldast. Þá kemur einnig fram að með breytingunni hefur portúgölsku ríkisstjórninnni tekist að stjórna fíkniefnavandanum betur en annars staðar á Vesturlöndum.

Af aðildarríkjum Evrópusambandsins er Portúgal nú með lægstu heildarnotkun (en þá er einnig átt við þá sem hafa prófað einu sinni) kannabiss. Hún er þar um 10% en sambærileg tala í Bandaríkjunum er 39,8%. Þá kemur einnig fram að hlutfallslega hafa fleiri Bandaríkjamenn notað kókaín en Portúgalar kannabis.
Heildarnotkun fíkniefna hjá börnum og unglingum á aldrinum 13-15 féll úr 14,1% í 10,6% en notkun eldri unglinga féll einnig.

Heildarnotkun heróíns meðal fólks á á aldrinum 16-18 ára var 2,5% en er nú 1,8% og HIV-smitum fækkaði um heil 17% á árunum 1999-2003. Þá kemur einnig í ljós að um miðjan 10. áratuginn voru eiturlyfjafíklar í Portúgal um 100 þúsund en eru í dag um 40 þúsund og eru taldir sjúklingar, en ekki glæpamenn.

Þessar niðurstöður eru sláandi og ekki verður um það villst að árangurinn er raunverulegur. Nú þegar hafa Spánverjar og Ítalir hafiðumræðu að fara sömu leið. Í Sviss hafa einnig verið blikur á lofti um að mýkja eiturlyfjalöggjöfina. Þó ber að nefna að þessar breytingar snúa eingöngu að notandanum sjálfum. Enn er ólöglegt að selja lyfin, smygla þeim og þess háttar.

Þó svo að þessi breyting hafi gefist vel í Portúgal er ekki þar með sagt að slík breyting myndi virka hér á landi. Það er of mikill munur á bæði fólksfjölda og menningu að ætla svo. Hins vegar sýnir þetta svart á hvítu að það er ekki fylgni milli þess á milli að afnema refsingar við fíkniefnanotkun og að fíklum, lögbrotum þeim tengdum eða alnæmissmitum fjölgi.

http://www.cato.org/publications/white-paper/drug-decriminalization-portugal-lessons-creating-fair-successful-drug-policies

http://www.time.com/time/health/article/0,8599,1893946,00.html

http://www.forbes.com/sites/erikkain/2011/07/05/ten-years-after-decriminalization-drug-abuse-down-by-half-in-portugal/

Latest posts by Árni Grétar Finnsson (see all)

Árni Grétar Finnsson skrifar

Árni Grétar hóf að skrifa á Deigluna í apríl 2011.