Vörslusviptingar engum viðkomandi?

Innanríkisráðherra upplýsti nýverið að lögreglan muni vísa frá kærum vegna ólögmætra vörslusviptinga, sem hafa verið stundaðar af miklum móð undanfarin ár. Slík afstaða vekur upp spurningar. Heimildir einkaaðila til að stunda vörslusviptingar snúast um ákveðin grundvallaratriði í réttarkerfinu og það getur verið afar varasamt að láta þetta óátalið.

Vörslusviptingar hafa verið nokkuð til umræðu upp á síðkastið eftir að fjármálafyrirtæki, einkum bílafjármögnunarfyrirtæki, tóku að beita þessari aðferð í ríkum mæli. Innanríkisráðherra upplýsti nýverið um þá afstöðu lögreglunnar að ekki væri ástæða til að bregðast við kærum vegna þess sem fólk teldi vera ólögmætar vörslusviptingar, heldur yrði slíkum málum vísað frá.

Málið er þó öllu flóknara en svo að unnt sé að afgreiða það með fortakslausum yfirlýsingum á borð við þá sem lögreglan setti frá sér. Vörslusviptingar, sem er í raun annað orð yfir að sækja eignir, reyna á ýmis atriði í tengslum við samninga-, leigu- og kröfurétt, sem og mörk einkaréttar og opinbers réttar og það lýsir ákveðinni bjartsýni að telja sig geta sett eina línu um öll slík mál.

Samningar um afnot
Þannig er að eigandi tiltekinnar eignar – hvort sem það er fasteign, bifreið, lausafé eða annað – getur samið um afnot þessarar eignar við annan aðila. Einfaldasta dæmið um þetta er t.d. útleiga á íbúð, þar sem eigandi semur við leigjanda um að hinn síðarnefndi greiði ákveðna upphæð gegn því að hafa afnot af íbúðinni og fá að búa þar í tiltekinn tíma eða ótímabundið.

Svo getur það gerst að eigandi telji að leigjandinn hafi ekki staðið við sitt. Algengast er að þetta komi til vegna þess að vanskil verði á greiðslum en aðrar ástæður þekkjast, s.s. að leigjandanum fylgi slíkt ónæði að ekki verði svo við búið. Ef áminning eða áskorun um að gera betur skilar ekki árangri getur eigandinn rift samningnum og krafist þess að leigjandinn fari úr eigninni eða skili eftir atvikum eigninni sem er til afnota. Gangi það ekki eftir vaknar sú spurning til hvaða úrræða eigandinn getur gripið.

Takmarkanir við því að eigandinn beiti sér sjálfur
Í stuttu máli má segja að í íslenskri löggjöf hafi verið settar miklar takmarkanir við þeim möguleikum sem eigandi eignarinnar hefur til að fá eign sína afhenta aftur með eigin aðgerðum heldur er áskilið að slíkum aðgerðum verði ekki beitt nema að fenginni aðfararheimild og með atbeina opinbers valds. Þar að baki standa margskonar rök, sem telja má eðlileg og réttmæt.

Getur sett leigjanda í erfiða stöðu
Fyrir það fyrsta getur það brotið gegn verulega rétti leigjandans, eða afnotahafans, að eftirláta eigandanum alfarið ákvörðun um hvenær skila ber eigninni í kjölfar riftunar. Því má ekki gleyma að leigjandinn hefur líka hagsmuni af því að hin umsömdu afnot haldist, enda geta aðstæður viðkomandi orðið erfiðar ef viðkomandi t.d. stendur upp án húsnæðis fyrirvaralaust. Leigusalar gætu hæglega misnotað slíka heimild, ef henni væru ekki takmörk sett. Þótt leigjandi geti í slíkum tilfellum sótt bætur eftir á, t.d. vegna ólögmætrar riftunar, tekur slíkt langan tíma og breytir því ekki að viðkomandi lendir í miklum vandræðum við það að t.d. missa húsnæði sem gert hefur verið ráð fyrir að hafa.

Túlkun samnings getur verið umdeild
Í öðru lagi getur eigandinn gert mistök í túlkun sinni á samningnum, sem er undirliggjandi. Hann kann að hafa reiknað greiðslur, vexti eða verðtryggingu rangt, eins og raunar skýr dæmi eru um. Þá kann að koma upp sú staða að leigjandinn er á réttu róli með greiðslur en eigandinn reiknar samninginn rangt. Þá kann samningurinn að vera þannig uppbyggður að hann er í reynd lánasamningur, en ekki leigusamningur en um það eru einnig nýleg dæmi. Það er svo tilefni í aðra grein að ræða muninn þar á milli en í þeim bílasamningum (kaupleigu, fjármögnunarleigu osfrv.) sem hafa verið mest til skoðunar hafa bílafjármögnunarfyrirtækin sett samningana þannig upp að þeir eru að hluta til leigusamningar, þar sem greiða á leigu, en nánast allar hefðbundnar skyldur eiganda, s.s. viðhald, greiðsla opinberra gjalda, tryggingar og áhætta af eigninni, hvílir líka á „leigjandanum“. Það er m.a. af þessum sökum sem dómstólar hafa metið þessa samninga þannig að þeir séu í raun lánasamningar, í búning leigusamninga.

Snýst um grundvallaratriði
Í þriðja lagi þarf að hafa í huga að í athöfnum sem þessum getur falist valdbeiting. Ef „vörslusviptingar“ á bílum eru látnar ótaldar, hvað þá með það þegar eigandi íbúðar fer sjálfur inn á eign sína og beitir leigjandann afli til að fá viðkomandi út?

Það er í raun líka furðulegt hve lítil viðbrögð það hefur fengið að einkaaðilar taki sér þetta vald. Málið snýst um grundvallaratriði en ekki að senda skuldugu fólki skilaboð, eins og sumir virðast telja. Hvað yrði sagt ef t.d. félag sem leigði út íbúðir í Reykjavík, myndi skipulega senda menn á staðinn, þegar félagið hefði sjálft metið það sem svo að leigjandinn væri ekki að standa í skilum, sem færu inn í íbúðirnar og hentu fólki út með handafli? Hvað ef leigjandinn slasast á meðan þetta stendur yfir? Gætu mennirnir sem leigusalinn sendi borið því við að þeir hafi orðið að beita afli, þar sem þeim var ekki hlýtt?

Aðstæðurnar eru augljóslega óheppilegar og við blasir að eðlilegra sé að handhafar opinbers valds, t.d. fulltrúar sýslumanns eða lögreglumenn sjái um aðgerðir sem þessar. Í 116. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er kveðið sérstaklega á um refsingu við því að taka sér eitthvert opinbert vald, sem viðkomandi ekki hefur og er refsingin við því sektir eða fangelsi allt að 1 ári eða, ef miklar sakir eru, fangelsi allt að 2 árum.

Vörslusviptingar á vegum einkaaðila, eins og hafa verið stundaðar af miklum móð síðustu misseri á bílum og vinnutækjum, fara gegn öllum þeim atriðum sem nefnd eru hér að ofan. Reynslan af þeim samningum sem legið hafa til grundvallar vanefndum skuldara og í kjölfarið riftunum fjármálafyrirtækjanna, hefur ekki verið góð og er kannski einmitt dæmi um að rétt sé að stíga varlega til jarðar í svona málum.

Samningarnir hafa fengið falleinkunn hjá dómstólum
Dómstólar hafa sem fyrr segir metið það sem svo að samningarnir, sem voru einhliða gerðir af fjármálafyrirtækjunum, séu í reynd lánasamningar en ekki leigusamningar og voru þannig með ólögmæta gengistengingu. Allar greiðslur samkvæmt samningnum hefur þurft að endurreikna því þær voru upphaflega rangar. Þrátt fyrir þetta hefur gríðarlegur fjöldi bifreiða og tækja verið vörslusviptur af aðilum á vegum fjármálafyrirtækjanna með tilheyrandi áhrifum á fólk og fyrirtæki.

Afsalaði fólk sér þessum rétti?
Af þeirra hálfu hefur verið bent á að á bakhlið samninganna, þar sem textinn var allajafna í 6 punkta letri og ekki sérstaklega kynntur við undirritun samninganna, hafi verið ákvæði sem heimilaði fjármögnunarfyrirtækinu að sækja bílinn ef samningi yrði rift. En jafnvel þótt þetta ákvæði hefði ekki verið falið í ólæsanlegu letri, er ekki hægt að fallast á að þessi réttindi séu með þeim hætti að þeim megi afsala, ekki frekar en fólk gæti veitt tilteknum aðila skriflega heimild til að láta handtaka sig og afsalað sér réttindum lögum samkvæmt.

Fyrirhyggjuleysi í byrjun
Af hálfu fjármálafyrirtækjanna hefur því verið haldið fram að vanefndir á slíkum samningum valdi fyrirtækjunum kostnaði, m.a. þar sem fyrirtækið þarf að standa skil á kostnaði við tryggingar og gjöld á hinu leigða (bíl eða vinnutækjum).

Þessar athugasemdir geta þó ekki réttlætt ólögmætar aðferðir fyrirtækjanna við vörslusviptingar, enda eru vandræði fyrirtækjanna fyrst og fremst vegna fyrirhyggjuleysis við lánveitinguna. Í flestum leigusamningum tíðkast það af hálfu leigusala að fara fram á tryggingar frá leigjanda vegna hugsanlegra vanefnda eða skemmda á hinu leigða. Það er einmitt gert vegna þess að þótt fólki vilji almennt standa í skilum, eru alltaf dæmi um hið gagnstæða og fyrir því þarf leigusalinn að hugsa í byrjun. Svo var hins vegar ekki gert við afgreiðslu þessara samninga, þrátt fyrir að undirliggjandi væru oft gríðarleg verðmæti.

Ákvörðun lögreglu um að vísa fortakslaust frá kærum vegna vörslusviptinga er misráðin og vekur upp spurningar um hvort lögregla ætli að sitja hjá í sambærilegum málum. Hún vekur líka upp spurningar um stöðu leigjenda sem virðast vera upp á náð og miskunn leigusala sinna.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.