Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, svaraði á dögunum spurningunni um hvort hann muni verja ríkisstjórnina falli á því rúma ári sem eftir er af líftíma hennar með því að varpa fram hugmynd um auknar fjárfestingar í atvinnulífinu, sem hann segir að stjórnin verði að styðja til að eiga hans stuðning vísan.
Hugmyndin gengur út á að ríkisstjórnin eigi að láta bankana lækka eigið fé sitt, sem er 22,5% að meðaltali, niður í 16%. Eigið fé bankanna færi þá niður í lögbundið markmið. Þetta fé, sem renni þá til ríkisstjórnarinnar, eigi þá að renna með einhverjum (óútskýrðum) hætti til lánveitinga í atvinnulífinu.
Guðmundur virtist ekki endilega sjá það fyrir sér þannig að ríkisstjórnin eða pólitíkusar myndu lána þetta fé út sjálfir, þótt hann hafi ekki nefnt neinar sérstakar lausnir aðrar í því.
Nærtækasta lausnin er því auðvitað sú að hér yrði á ferðinni einhvers konar risavaxinn opinber lánasjóður til þeirra verkefna sem ekki fá annars lán. Og hvernig sem svona opinber aðgerð yrði útfærð, þá þarf enginn að efast um að stjórnmálamennirnir myndu á endanum blanda sér í málið. Faglegar, óháðar ríkisstofnanir hafa verið mikið tískufyrirbrigði að undanförnu en ítrekað hefur komið í ljós að þegar á reynir eru slíkar stofnanir aðallega faglegar og óháðar á meðan þær dansa í takt við vilja ríkjandi afla hverju sinni.
Efasemdamenn geta spurt fyrrverandi stjórn Bankasýslunnar hversu óháð hún hafi verið í raun. Ekki svo að skilja að stjórnarmenn stofnunarinnar hafi verið að hafa rangt við. Þeir reyndu einmitt að gera það sem sannfæringin bauð, t.d. við ráðningu forstjóra, vitandi að ákvörðunin yrði erfið og óvinsæl. Skömmu síðar komst hún að þeirri niðurstöðu, af sjálfsdáðum að sjálfsögðu, að segja af sér (þótt fréttir um að stjórnin væri að íhuga um að segja af sér, kynnu að hafa haft sín áhrif).
Hvaða álit sem menn hafa á bönkunum í dag, þá verður því ekki andmælt að þar er þekkingin á því í hvaða verkefni eigi að lána.
Bankar fá á hverjum degi fjölda fyrirspurna og hugmynda sem þeir eru beðnir að lána í. Sumar eru þannig að bankinn er tilbúinn að lána, annaðhvort því að hugmyndin er svo góð að það eru taldar yfirgnæfandi líkur á að hún borgi sig, eða þá að tryggingarnar sem boðnar eru, þykja það góðar að staða bankans er trygg, jafnvel þótt illa fari. Öðrum hugmyndum er hafnað, annað hvort út af því að þær þykja ekki góðar eða af því að þeim fylgja ekki nægjanlega góðar tryggingar. Sjálfsagt hefur það sín áhrif á lánveitingar bankanna að fólk hefur mun minni möguleika en áður að leggja fram tryggingar auk þess sem reglur um ábyrgðir og lánsveð eru mun strangari en áður. Og þótt bankarnir séu vissulega full varfærnir og varkárir, þá breytir það því ekki að þeir eru miklu betur til þess fallnir að leggja mat á svona umsóknir en stjórnmálamenn eða embættismenn.
En það er önnur hlið á lánveitingum og fjárfestingum í atvinnulífinu. Hún er sú að fyrirtæki og fjárfestar verða að hafa ákveðnu vissu fyrir því að stöðugleiki muni ríkja og að þau verkefni sem eru á teikniborðinu verði ekki slegin út af borðinu eftir geðþótta. Þar hefur ríkisstjórnin, sem Guðmundur er að bjóðast áframhaldandi stuðning út frá þessari hugmynd, leikið stórt hlutverk. Óvissa ríkir um aðalatvinnuveg þjóðarinnar og enginn í ríkisstjórninni virðist vita hvert stefnt er, sbr. þegar utanríkisráðherra lýsti frumvarpi Jóns Bjarnasonar um breytingar á kvótakerfinu sem „bílslysi“. Þrátt fyrir að mörg fyrirtæki hér á landi séu illa leikin eftir hrunið og erfiða tíma upp á síðkastið, þá eru engu að síður til töluvert af mjög sterkum fyrirtækjum sem myndu standast lánshæfismat hjá hvaða lánanefnd sem er en halda aftur af sér einmitt út af þessum ástæðum. Væri ekki einmitt leiðin til að fá fram frekari fjárfestingar og lánveitingar í atvinnulífið að breyta um ríkisstjórn?
Það er ágætt að muna líka að bankar vilja í grunninn lána peninga út. Þannig fá þeir ávöxtun, að því gefnu að lánin borgi sig og fari í arðbær verkefni. Til lengri tíma litið gengur banka sem lánar í skynsamleg verkefni miklu betur en banka sem vill sitja á sínum peningum.
Það er orðin þreytt tugga að spyrja hvort menn „hafi ekki lært neitt af hruninu“. En er ekki þrennt sem er nokkuð óumdeilt að telst til lærdóms úr hruninu?
Að bankar eigi að lána skynsamlega.
Að eigið fé banka þurfi að vera sterkt.
Að stjórnmálamenn eigi ekki að handstýra bönkum.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021