Verkfalli milljarðamæringa lokið: Hverjir taka titilinn?

Verkföll eru jafnaði notuð í launabaráttu venjulegs vinnandi fólks. Í NBA-deildinni fer hins vegar fram launabarátta milljarðamæringanna, þar sem leikmenn og eigendur hafa deilt en nú þegar lausn hefur náðst er boltinn aftur farinn af stað og hægt að fara að rýna í hvaða lið séu líkleg til afreka þetta árið.

Eftir margra mánaða stapp um launakjör fór NBA-deildin af stað á nýjan leik á jóladag. Um tíma leit út fyrir að jafnvel yrði ekkert spilað í deildinni í vetur og margar af stjörnum deildarinnar höfðu skrifað undir samninga við erlend lið ef svo færi að verkfallið myndi dragast enn frekar á langinn. En körfuboltaáhugamenn sleppa við að kaupa sér áskrift að tyrknesku deildinni til að fylgjast með Deron Williams eða þeirri frönsku til að fylgjast með Tony Parker þar sem lausn hefur náðst.

Fyrir venjulegt fólk eru launadeilur leikmanna og stjórnenda NBA-liðanna álíka skiljanlegar og þegar bankastjórar eru áhyggjufullir yfir því að vera bara með 4-5 milljónir á mánuði. Tölurnar eru fáránlega háar – meðallaun NBA-leikmanns eru 5,8 milljón dollara á tímabili (jafnvirði rúmlega 600 milljóna króna), lágmarkslaun eru 500 þúsund dollarar en samt sem áður fer dágóður slatti af NBA-stjörnum á hausinn á ári hverju. Viðmið og gildi leikmannanna eru sjálfsagt ekki líkleg til að vera tekin upp í fjármálafræðslu framhaldskólanna. T.d. var frægt þegar Latrell Sprewell hafnaði tilboði frá Minnesota upp á 7 milljónir dollara á ári með þeim rökum að hann þyrfti að geta framfleytt fjölskyldu sinni. Viðræður milli þessara þjáðu launamanna og vinnuveitenda þeirra enduðu með verkfalli frá því 1. júlí sl. sem leystist ekki fyrr en í lok nóvember.

Deilurnar eiga sér þónokkra forsögu. Tímabilið 1998-99 féllu út 32 af 82 leikjum tímabilsins vegna samskonar deilna en á endanum náðist sex ára samningur sem var svo framlengdur til annarra sex ára þar til upp úr sauð í sumar. Helstu deiluefnin í þessum hálaunakjaradeilum eru að jafnaði launaþök liða og heildarlaun leikmanna en þau byggjast á ákveðnu hlutfalli af tekjum liðanna (hlutfallið var t.d. 57% í samningnum árið 2005).

Vandinn hjá liðunum í NBA-deildinni er sá að reksturinn er þungur. Stór hluti liðanna er rekinn með tapi og það reynist sífellt erfiðara að halda úti rekstri liða á smærri svæðum. Ýmislegt spilar inn í, t.d. hve tímabilið er langt eða alls 82 leikir frá nóvember fram í maí og það reynist því erfitt að fá áhorfendur á völlinn framan af tímabilinu. Við tekur svo úrslitakeppnin sem vekur að vísu mun meiri athygli en aðeins hluti liðanna tekur þátt í henni og þau sem ekki komast í úrslitakeppnina verða af þeim tekjum sem henni fylgja.
Kröfur liðanna og deildarinnar voru því á þá leið að leikmenn tækju á sig myndarlega launalækkun, sem leikmenn voru þó aðeins til í að gera að hluta. Ítrekaðar tilraunir til að ná samkomulagi gengu ekki fyrr en í nóvember en þá var fallist á samning sem fól í sér töluverða launalækkun leikmanna .

Miami, Dallas, Lakers, Bulls, Clippers…?
Þannig er boltinn farinn að rúlla aftur og spurning hvaða lið eru líklegust til að gera góða hluti í vetur. Miami Heat eru alltaf líklegir en þeir eru eins konar Manchester City körfuboltans, samsettur hópur af stærstu stjörnunum í deildinni, þ.e. Lebron James, Dwayne Wade og Chris Bosh en örlög liðsins í vor voru ágætis áminning um að titlar koma ekki við það eitt að hafa nóg af stjörnum. Miami tapaði þar frekar óvænt fyrir Dallas Mavericks, sem enginn átti von á að yrðu meistarar en tóku þetta á seiglunni og reynslunni.

Titillinn var ákveðin uppreisn æru fyrir Dirk Nowitzki hjá Dallas sem hefur í mörg ár verið einn besti leikmaður deildarinnar en aldrei unnið titil. Slíkir leikmenn mynda ákveðinn flokk í sögubókum NBA-deildarinnar sem þykir sérlega óeftirsóknarvert að tilheyra, þ.e. stjörnur sem unnu ekki titla og brugðist margir hverjir á ögurstundu (Barkley, Ewing og Malone eru fræg dæmi).

Þótt það eigi aldrei að vanmeta meistara, hvað þá hjarta meistara, þá þykir Dallas ekki líklegt til að endurtaka leikinn frá því í vor, leikmenn sem voru komnir til ára sinna eru orðnir ári eldri og liðið missti auk þess Tyson Chandler, miðherja liðsins og besta varnarmann sinn, til New York Knicks. Eftir langa eyðimerkurgöngu gæti New York loksins hins vegar farið að láta til sín taka aftur, en auk Chandlers hefur liðið nú tvo af bestu sóknarmönnum deildarinnar, þá Carmelo Anthony og Amare Stoudamire í sínum röðum.

Chicago Bulls eru einnig líklegir til að vera í fremstu röð í Austurdeildinni en með liðinu spilar besti leikmaður deildarinnar á síðasta tímabili, Derrick Rose. Hann náði þessum titli á þriðja tímabili sínu í deildinni þannig að hann á nóg eftir. Auk Rose eru Loul Deng (sem er breskur ríkisborgari fæddur í Suður-Súdan – hvað ætli Útlendingastofnun segði við því?) og Joakim Noah öflugir leikmenn en liðið er frekar óreynt þegar kemur að úrslitakeppninni og spurning hvort að þá vanti ekki aðeins meiri reynslu til að geta landað titlinum.

Þá má aldrei vanmeta Boston Celtics, sem unnu titilinn fyrir fjórum árum síðan en reyndar er farið að slá hressilega í helstu stjörnur liðsins, þá Pierce, Allen og Garnett og sumir þeirra komnir vel á fertugsaldurinn. Aðdáendur Ray Allens geta þó alltaf yljað sér við stórleik kappans í myndinni „He got game“ þar sem hann túlkaði hlutverk körfuboltamannsins Jesus Shuttelsworth.

Í Vesturdeildinni eru svo tvöfaldir meistarar 2009 og 2010, Los Angeles Lakers. Liðið er hörkugott með Kobe Bryant og Pau Gasol fremsta í flokki en eitthvað virðist þó skorta á stemninguna í liðinu. Lakers voru rassskelltir í úrslitakeppninni í vor af Dallas, 4-0 og þar komu í ljós alls konar vandamál, leikmenn riftust og skömmuðust hvor í öðrum og ekkert gekk upp. Liðið er sérkennileg blanda, Kobe Bryant er hrokafull prímadonna sem er með allt á hornum sér en Pau Gasol er viðkvæm, evrópsk sál sem lítur stundum út fyrir að þurfa helst á faðmlagi að halda.

Liðið hefur þó hangið saman undanfarin ár undir stjórn þjálfarans Phil Jacksons en hann er nú hættur og nýr þjálfari, Mike Brown, tekinn við. Brown þjálfaði Cleveland og fór með liðið í úrslit 2005 þegar Lebron James spilaði þar en hvort það dugi til að ráða við egóið í Kobe Bryant er óvíst. Þá hefur Lakers misst Lamar Odom, sem hefur verið mjög drjúgur fyrir liðið og var m.a. valinn besti sjötti maður deildarinnar. Ennfremur státar liðið af því að eiga sérkennilegasta leikmann deildarinnar, þ.e. leikmanninn sem eitt sinn hét Ron Artest og var mikill harðjaxl (m.a. dæmdur í 72 leikja bann þegar hann skellti sér upp í stúku og barði áhorfanda) en hefur nú heldur betur mýkst með árunum ef marka má nýja nafnið hans – Metta World Peace.

Í Los Angeles er líka Clippers-liðið sem hefur verið í mörg ár nokkurs konar endaþarmur NBA-deildarinnar. Ekkert hefur gengið upp hjá liðinu, sem hefur árum saman verið við botn deildarinnar. Örlögin hafa ekki haldið með Clippers. Ef svo ólíklega vildi til að í raðir liðsins kom sæmilegur leikmaður þá var næsta víst að sá hinn sami átti eftir að fótbrotna eða fara í bakinu fljótlega. Sagan virtist ætla að endurtaka sig árið 2009 þegar liðið valdi Blake Griffin, sem margir telja að verði næsta stórstjarna deildarinnar, úr háskólaboltanum en hann var ekki fyrr kominn í Clippers-búning áður en hann meiddist svo illa að hann missti út allt fyrsta tímabilið sitt. Hann kom þó tvíefldur til leiks í fyrra, var valinn nýliði ársins og átti eina bestu innkomu í deildina sem sést hefur lengi. Og nú hefur heldur betur hlaupið á snærið hjá Clippers þar sem þeir nældu í leikstjórnandann Chris Paul, „CP3“, einn allra besta leikmann deildarinnar, frá New Orleans Hornets en Paul þessi var reyndar við það að landa samningi við Lakers skömmu áður en Clippers náðu honum. Með Paul, Giffin og svo Chaunchy Billups er Clippers orðið eitt öflugasta liðið í deildinni og líklegt til afreka.

Til að kasta fram litlum spádóm þá ætla ég að halda því fram að Miami Heat eigi eftir að sigla titlinum heim þetta árið. Þeir vinna Clippers naumlega í úrslitunum.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.