Við góð – þau vond

Öll tilheyrum við fjölmörgum félagslegum hópum. Við erum hluti af fjölskyldu, vinahópi, vinnufélögum, skólafélögum, stuðningsmannahópi íþróttaliða og svona mætti áfram telja. Nýlegar fréttir úr íslenskum stjórnmálum eru skýrt dæmi um slíka hópa. Innan úr þingflokki Vinstri grænna heyrast hugmyndir um að banna útlendingum alfarið að að kaupa jarðir á Íslandi en þar eru hóparnir Íslendingar og útlendingar í lykilhlutverki.

Okkur mannfólkinu er mjög eðlislægt að skipa okkur í hópa. Við fáum stuðning í hópum og finnum að oft liggur meiri styrkur í hópnum en einstaklingum. Öll tilheyrum við til dæmis fjölmörgum félagslegum hópum, oft án þess að gera okkur grein fyrir því. Við erum hluti af fjölskyldu, vinahópi, vinnufélögum, skólafélögum, stuðningsmannahópi íþróttaliða og svona mætti áfram telja. Sumum hópum tilheyrum við alla ævi en komum og förum í aðra gegnum ævina. Börn læra til dæmis mjög snemma í samfélaginu hvaða hópum þau tilheyra og oft sérstaklega hvaða hópum þau tilheyra ekki og hvernig eigi að haga sér gagnvart þeim.

En hvenær erum þá hluti af hópi? Félagssálfræðingar hafa skilgreint hóp þar sem tveir eða fleiri einstaklingar koma saman og líta á sjálfa sig og skilgreina sig sem meðlimi hópsins. Einnig þarf tilvist hópsins að vera viðurkennd af þeim sem standa utan við hann, einum eða fleirum. Í félagssálfræði er hópum svo oft skipt upp í innhópa (ingroup) og úthópa (outgroup), oft einnig kallað „samherjar“ og „andstæðingar“ (Hogg og Vaughan, 2005).

Þeir hópar sem taldir voru upp hér að ofan eru þá samherjahópar. Það er eitthvað sem tengir meðlimi hópsins saman og sameinar þá. Það er svo þannig að þar sem má finna samherjahóp þarf yfirleitt ekki leita lengi til að finna andstæðingahóp. Þeir sem tilheyra samherjahópnum MR-ingar finna til dæmis andstæðingahóp í Verslingum og öfugt. Á sama hátt má setja upp hópana aðdáendur Manchester United og aðdáendur Liverpool. Hvar sem við komum getum við alltaf auðveldlega dottið í hlutverkin „við“ og „þau“.

Þessi hópaskipting sem við leitum svo mikið í getur verið af hinu góða. Við fáum ánægju út úr því að umgangast aðra sem deila einhverjum eiginleikum, áhugamálum eða skoðunum með okkur. Hópaskiptingin getur svo á hinn bóginn líka haft slæmar afleiðingar, til dæmis þegar annar hópurinn kúgar hinn eða beitir ofbeldi. Mörg dæmi um slíkt má finna í mannkynssögunni. Þannig geta fordómar sem samherjahópur hefur í garð andstæðingahóps leitt til ofbeldis og kúgunar.

Nýlegar fréttir úr íslenskum stjórnmálum eru skýrt dæmi um samherja og andstæðinga. Innan úr þingflokki Vinstri grænna heyrast hugmyndir um að banna útlendingum alfarið að að kaupa jarðir á Íslandi. Þessar hugmyndir frá Vinstri grænum komu beint í kjölfar þeirra frétta að Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hefði synjað beiðni Huang Nubo um að fá að kaupa eignarhlut í jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum. Um það hefur hefur áður verið skrifað um hér á Deiglunni (hér og hér).

Í þessum hugmyndum kristallast hóparnir Íslendingar og útlendingar, þar sem „við Íslendingar“ erum samherjahópurinn og „þeir útlendingar“ eru andstæðingahópurinn. Það virðist mjög stutt í þessa hópaskiptingu hjá mörgum Íslendingum og greinilega er mun styttra í hana hjá ákveðnum þingmönnum Vinstri grænna.

Í þannig þankagangi er auðvelt að detta í þá gryfju að hugsa að andstæðingahópurinn geti á einhvern hátt skaðað hagsmuni samherjahópsins. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að þegar kemur að samherjum og andstæðingum þá er fólk hlynnt því sem er til bóta fyrir andstæðingahópinn, en bara svo lengi sem það skaði ekki samherjahópinn (Lowery, Unzueta, Knowels og Goff, 2006). Íslendingar eru til dæmis upp til hópa hlynntir því að útlendingar komi til að vinna á Íslandi en um leið og við erum farin að upplifa það sem svo að þeir séu að taka vinnu sem annars færi til Íslendinga þá erum við fljót að fara að tala um vondu útlendinga sem stela vinnu af Íslendingum.

Í því árferði sem hefur verið á Íslandi síðustu misseri er mjög hætt við þannig viðhorfi. Það er því mikið áhyggjuefni að þeir sem með stjórn landsins fara komi fram og ítreki þessa hópaskiptingu og ali þannig á fordómum á garð útlendinga. Með því að tala um að koma þurfi í veg fyrir að útlendingar geti eignast jarðir á Íslandi er verið að hamra á því samherjahópurinn sé góður en andstæðingahópurinn vondur.

Í stuttu máli: Íslendingar góðir; útlendingar vondir.

Heimildir
Hogg, M.A. og Vaughan, G.M. (2005). Social Psychology (4. útgáfa). Harlow, England: Pearson.
Lowery, B.S., Unzueta, M.M, Knowles, E.D. og Goff, P.A. (2006). Concern for the In-Group and Opposition to Affirmative Action. Journal of Personality and Social Psychology, 90, 961-974.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.