ESB og forhúðarvandinn

Í dag var greint frá því að Sruli Recht, fatahönnuðurinn góðkunni, hefði hlotið framhaldsstyrk úr Hönnunarsjóði Auroru til að halda áfram að hanna skó úr forhúð hvals.

Í dag var greint frá því að Sruli Recht, fatahönnuðurinn góðkunni, hefði hlotið framhaldsstyrk úr Hönnunarsjóði Auroru til að halda áfram að hanna skó úr forhúð hvals. Íslensk hönnun er vaxtabroddur í íslensku atvinnulífi og miklir möguleikar eru til staðar. Haft er eftir Srula að hann sækist sérstaklega eftir því að framleiða úr efni sem ekki sé á hverju strái.

Eflaust þykir einhverjum það smekkleysi hjá hönnuðinum að komast þannig að orði um karlmennskutákn hvalatarfa en eflaust ræður hér miklu að Sruli hefur ekki öðlast fullkomið vald á íslenskri tungu. Án þess að pistlahöfundur hafi lagst í sérstakar mælingar áætlar hann að úr forhúð fullvaxins tarfs af langreyðarstofni megi vinna all mörg skópör og að Sruli geti mögulega gert sér og öðrum mat úr þessum skinnflipa sjávarspendýrsins.

Nú háttar svo til að ríkisstjórn Íslands hefur óskað eftir inngöngu í Evrópusambandið. Ég nenni vitaskuld ekki að ræða það mál í sjálfu sér hér, lækurinn bakkafullur og rúmlega það. Hjá því verður hins vegar ekki komist, þar sem hér er fjallað um hönnuna Srula og félaga, að aðildarríki ESB hafa svo sýnt umsókn Íslendinga diplómatískt áhugaleysi að einu atriði frátöldu – hvalveiðum.

Hvarvetna þar sem umsókn íslensku ríkisstjórnarinnar er til umfjöllunar í aðildarríkjum ESB sjá þarlendir ráðamenn alltaf sérstaka ástæðu til að hnykkja á því að ekki verði undir neinum fallist á inngöngu Íslands nema þeir láti þegar í stað af hvalveiðum, hvaða nafni sem þær nefnast. Þá er refsiaðgerðum hótað ef kjörbúðir á íslenskum flugvöllum voga sér að bjóða ESB-þegnum upp á hvalasteik marineraða í grillolíu. Væntanlega verður þessum sömu þegnum hótað öllu illu ef þeir voga sér að klæðast skónum hans Srula Recht.

Illa upplýstur almannarómur í innlyksa löndum Evrópu verður því mögulega til þess að Sruli þarf að leggja lensuna, nálina og tvinnann á hilluna og leita til annarra spendýra með utanáliggjandi þvagrás að hráefni. Þrátt fyrir að gyðingar hafi nokkurra þúsunda ára reynslu af því að komast af án forhúðar þá er ósennilegt að hægt verði að sækja um styrki til þess á næstunni að kanna möguleika á því að umskera stórhveli lifandi.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.