Úthugsað?

Þingmaðurinn Pétur Blöndal var í fréttum í gær með heldur óvenjulegt útspil.

Pétur Blöndal lagði fram í gær og kynnti í fjölmiðlum frumvarp sitt um nýtt stjórnkerfi fiskveiða. Með því telur hann að sátt náist um kvótakerfið. Í einföldu og stuttu máli má lýsa efni frumvarpsins sem útfærslu á fyrningarleiðinni svokallaðri með uppboðsþættinum að einhverju leyti þar inni ásamt því að blanda því saman við samningaleiðina, sem felur í sér að útgerðin í landinu semji um afnot af auðlindinni í ákveðinn tíma.

Töfralausnir eru vanfundnar. Sérstaklega þegar um er að ræða boðaðar lausnir á vandamálum er snúa að stjórn fiskveiða á Íslandsmiðum. Áður en lengra er haldið inn í völundarhús umræðunnar um kvóta, sægreifa, aflamark, aflahlutdeild, byggðakvóta, strandveiðar, sameign þjóðarinnar, andlag veiðiréttarins, fyrningaleið, samningaleið, línuívilnun, þorskígildi, brottkast og þess háttar, skal það tekið fram að í grunninn snýst löggjöf um stjórn fiskveiða eingöngu um tvennt. Annars vegar hversu mikið má veiða og hins vegar hverjir mega veiða.

Helsta nýjungin í tillögum Péturs felst í því að ekki er gert ráð fyrir að Íslenska ríkið taki aflaheimildir til sín og setji á uppboðsmarkað heldur að ákveðnu hlutfalli af aflahlutdeild hvers árs, 2,5% nánar tiltekið, verði ráðstafað til íbúa landsins til frjálsrar afnota fyrir hvert fiskveiðiár. Útfærslan gerir ráð fyrir að á 40 ára tímabili verði búið að úthluta öllum aflaheimildum til íbúa landsins. Það skal tekið fram að vera má að þessi lýsing á efni frumvarpsins sé ónákvæm. En hvernig þetta er reiknað og útfært nákvæmlega breytir því ekki að í grunninn felur frumvarpið í sér að skattskyldum íbúum landsins verði á ákv. tímabili úthlutað öllum kvótanum hlutfallslega jafnt til eigna og frjálsrar ráðstöfunar.

Greinargerð fylgir með frumvarpinu þar sem stiklað er á stóru um helstu agnúa núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis og forsendur frumvarpsins útskýrðar nánar. Eitt og annað áhugavert er þar að finna, s.s. að framsal á kvóta verði heimilað að fullu, takmarkanir á fjárfestingarheimild útlendinga í kvóta verði afnumdar, hægt verði að veðsetja kvótann, auðlindagjald verði afnumið svo eitthvað sé nefnt. Á móti kemur að við lestur frumvarpsins vakna ýmsar spurningar er lúta að framkvæmd sem ekki er svarað og svo virðist sem ekki sé gert ráð fyrir að útgerðaraðilar, handhafar kvótans í dag, njóti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar og að greiða þurfi til þeirra bætur þegar þessari bókstaflegri þjóðnýtingu verði hrint í framkvæmd.

Hvað sem því líður verður áhugavert að sjá hver viðbrögðin verða við þessu útspili Péturs. Gera má sér það hins vegar í hugarlund að þessum tillögum verði tekið af varfærni – eðlilega enda umdeilt og margflókið álitaefni sem um er að ræða – og sennilega verður frumvarpið ekki sá sáttargrundvöllur sem flutningsmaður þess vonast eftir. Það verður til að mynda fróðlegt að sjá hvort hljómgrunnur finnst fyrir þessum tillögum meðal samherja Péturs í Sjálfstæðisflokknum á komandi landsfundi þess flokks.

Eftir stendur að frumvarpið leggur eingöngu til breytingar á löggjöfinni er snýr að því hverjir mega veiða. Ekkert er fjallað um hinn þáttinn um hversu mikið megi veiða hverju sinni. Má ætla að það atriði sé mun mikilvægara fyrir íslenskt efnahagslíf og hagsæld íbúanna. Hversu mikið má veiða má líkja við hvernig stækka megi kökuna. Umræðan um það hverjir mega veiða er svo öll í þeim fasa að vera um hvernig eigi að skipta kökunni, sem aftur er sérlegt áhugamál vinstri manna. Innlegg Péturs kann að hrista eitthvað upp í þeirri umræðu án þess þó vera sérstök töfralausn á fyrirkomulagi fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.