Frú formaður

Nú er vika í Landsfund Sjálfstæðisflokksins þar sem landsfundarfulltrúar munu fá tækfæri til að kjósa sér formann. Þetta er í þriðja sinn á stuttum tíma sem kosið er á milli einstaklinga um embætti formanns í flokknum. Núverandi formaður, Bjarni Benediktsson hefur gert góða hluti fyrir flokkinn í sinni formannstíð og hann á skilið lof fyrir það, en þrátt fyrir það tel ég að nú væri farsælast fyrir flokkinn að velja sér nýjan formann sem nýtur víðtæks trausts, ekki bara innan flokksins heldur úti í samfélaginu líka.

Nú er vika í Landsfund Sjálfstæðisflokksins þar sem landsfundarfulltrúar munu fá tækfæri til að kjósa sér formann. Þetta er í þriðja sinn á stuttum tíma sem kosið er á milli einstaklinga um embætti formanns í flokknum. Árið 2009 var kosið á milli Kristjáns Þórs Júlíussonar og Bjarna Benediktssonar, í fyrra bauð Pétur Blöndal sig fram gegn sitjandi formanni og nú hefur Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, fyrst kvenna, boðið sig fram gegn Bjarna Benediktssyni.

Það er fagnaðarefni fyrir okkur Sjálfstæðismenn að menn veigri sér ekki við að bjóða sig fram til forystuhlutverka innan flokksins, en sumir pólitískir andstæðingar okkar vilja gjarnan halda því fram að innan Sjálfstæðisflokksins sé ekki virkt lýðræði heldur einhverskonar foringjaræði. Landsfundurinn okkar er lýðræðisleg samkoma þar sem menn af öllu landinu ákvarða stefnu flokksins í sameiningu og kjósa sér menn til forystuhlutverka, formann, varaformann og miðstjórn.

Núverandi formaður, Bjarni Benediktsson hefur gert góða hluti fyrir flokkinn í sinni formannstíð og hann á skilið lof fyrir það, en þrátt fyrir það tel ég að nú væri farsælast fyrir flokkinn að velja sér nýjan formann sem nýtur víðtæks trausts, ekki bara innan flokksins heldur úti í samfélaginu líka. Stefna Sjálfstæðisflokksins þarf að ná eyrum almennings, hún þarf trúverðugan fulltrúa sem menn sjá fyrir sér leiða næstu ríkisstjórn og Ísland út úr þeim ógöngum sem við höfum nú festst í með núverandi vinstristjórn.

Við þurfum að skera niður útþanið ríkisbáknið sem við hægri menn berum ábyrgð á ásamt þeim flokkum sem sátu með okkur í ríkisstjórn og ég tel að Hanna Birna sé rétta manneskjan í það hlutverk af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi hefur hún sýnt og sannað sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borginni að hún er fær um að framkvæma stefnuna okkar. Í öðru lagi þá er hún ákveðin og fylgin sér og ég treysti henni til að taka réttar ákvarðanir fyrir land og þjóð í góðu samstarfi við aðra flokka án þess að gefa afslátt af grundvallargildum okkar Sjálfstæðismanna.

Einhverjir hafa lýst yfir áhyggjum af því að hún sitji ekki á Alþingi. Ég hef ekki áhyggjur af því þótt hún hafi ekki skrifstofu við Austurvöll eða aðgang að ræðustól Alþingis næstu tvö árin. Mín skoðun er sú að það skipti meira máli hvað skipstjórinn (svo við notum nú sjómannamálið) segir heldur en hvar hann stendur þegar hann segir það.

Við þurfum einmitt leiðtoga sem heyrist í og útskýrir á mannamáli fyrir hvað við sjálfstæðismenn stöndum. Við viljum líka að formaðurinn okkar sé einlægur og að almenningur viti að við getum horfst í augu við fortíðina okkar og viðurkennt það sem úrskeðis fór.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt það í gegnum árin að hann treystir konum til áhrifastarfa. Fyrsta þingkonan gekk í okkar raðir, fyrsti kvenborgarstjórinn og fyrsti kvennráðherrann kom úr röðum Sjálfstæðisflokksins. Það er skemmtileg tilhugsun að geta sagt við formann Sjálfstæðisflokkinn – Frú formaður!

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.