Kveðum hungurvofuna í kútinn

Undanfarnar vikur hafa hjálparsamtök víðs vegar um heiminn tekið höndum saman til þess að vekja athygli almennings á þeirri gríðarlega útbreiddu hungursneyð sem að heldur austurhluta Afríku í heljargreipum sínum. Hafa fjölmiðlar í kjölfarið flutt okkur átakanlegar frásagnir og myndir af neyð fólks á svæðinu -og þá ekki síst barnanna.

Óþörf þjáning hefur fylgt manninum eftir líkt og skuggi frá upphafi vega. Þessi þjáning á oftar en ekki rætur sínar að rekja til annarra manna og minnir okkur óbærilega á eðlislægan breiskleika okkar sjálfra og möguleika hvers manns til þess að haga sér eftir forskrift illsku og röklausrar heiftar.

Undanfarnar vikur hafa hjálparsamtök víðs vegar um heiminn tekið höndum saman til þess að vekja athygli almennings á þeirri gríðarlega útbreiddu hungursneyð sem að heldur austurhluta Afríku í heljargreipum sínum. Hafa fjölmiðlar í kjölfarið flutt okkur átakanlegar frásagnir og myndir af neyð fólks á svæðinu -og þá ekki síst barnanna. Hefur þessi umfjöllun fyrst og fremst verið hugsuð til þess að afla fjár til aðstoðar því fólki sem þarna berst fyrir lífi sínu. Í þeirri baráttu er það algjörlega háð utanaðkomandi aðstoð enda hjálparlaust með öllu gagnvart hungurvofunni sem engu eyrir og sýnir engum miskunn.

Þróunarmálaráðherra Bretlands hefur varað við því að 400.000 börn geti látið lífið vegna hungursneyðarinnar. Þá hefur því verið haldið fram að um helmingur sómölsku þjóðarinnar, um 3,7 milljónir manna, séu upp á alþjóðasamfélagið komið með fæðuöflun sína og þar af þurfi 3,2 milljónir á bráðaaðstoð að halda. Þetta er þó aðeins lítill hluti heildarmyndarinnar en Sameinuðu Þjóðirnar (SÞ) segja 12, 7 milljónir manna í fjórum löndum þurfi á neyðaraðstoð að halda. 2.5 milljarða dollara þurfi til þess að bregðast við en í dag hefur aðeins rétt rúmur helmingur þess fjár safnast. Er því ljóst að neyðin er gríðarleg og hörmungarnar slíkar að hugurinn á erfitt með að ná utan um þær.

Stafar hungrið af miklum þurrkum sem hamlað hafa uppskeru. Slíkt ástand væri hins vegar viðráðanlegra væri ekki fyrir stjórnleysi, átök og takmarkað aðgengi hjálparstofnana að svæðinu undanfarin ár. Stríðsástand og stjórnleysi hefur nefninlega verið ríkjandi í Sómalíu síðustu tvo áratugina með tilheyrandi eyðileggingu innviða, en ástandið er sínu verst í landinu. Hindrar það og flækir dreifingu hjálparganga þar sem sumir aðilar átakanna hindra beinlínis dreifingu þeirra. Þar skiptir mestu Al -Shabaab hópurinn sem ræður að mestu ríkjum í suðurhluta landsins. Er hann talinn hafa yfir að ráða um 14.000 vopnbærum mönnum og hafa tengsl við Al Kaída. Á yfirráðasvæði þeirra er Sharía-lögum framfylgt með mjög ströngum hætti sem hefur orðið til þess að margir hafa dregið líkindi milli þeirra og Talíbanahreyfingarinnar í Afganistan.

Ástandið er grafalvarlegt og afskaplega flókið viðureignar. Er ljóst að ekki verður hægt að ráðast beint að rótum vandans nema til komi friður og stöðugleiki á þessu stríðshrjáða svæði. Slíkt er þó lítið annað en draumsýn og ekkert sem bendir til breytinga til hins betra á því sviði. Á meðan er lítið annað hægt að gera nema koma neyðaraðstoð til þeirra sem eru þurfandi. Að því verkefni starfa starfsmenn fjölmargra hjálparsamtaka sem hætta lífi sínu við það. Án fjármagns geta þeir hins vegar ekki sinnt því verkefni sínu og þar komum við til.

Við björgum ekki heiminum með einu símtali. Við getum hins vegar stuðlað að því að bjarga mannslífi með fjárframlagi okkar og stíga þannig eitt skref að bættum heimi. Slíkt er ómetanlegt.