Til hvers var barist fyrir lýðræði og frelsi?

Að þessu spyrja íbúar Wisconsin-ríkis í Bandaríkjunum sig þessa dagana. Hvers vegna? Vegna nýs lagafrumvarps sem ríkisstjórinn og repúblikaninn Scott Walker hefur sett fram, og fjallar um hvernig skera megi niður hjá hinu opinbera til að koma megi í veg fyrir fjárlagahalla hjá ríkinu á þessu ári. Frumvarpið hefur mætt gríðarlegri andstöðu á meðal almennings sem hefur flykkst út á götur í höfuðborg Wisconsin, Madison, til að mótmæla niðurskurðaraðferðum ríkisstjórans. Út á hvað ganga þær eiginlega og hvað er það í frumvarpinu sem er svo mikill þyrnir í augum íbúa ríkisins?

Að þessu spyrja íbúar Wisconsin-ríkis í Bandaríkjunum sig þessa dagana. Hvers vegna? Vegna nýs lagafrumvarps sem ríkisstjórinn og repúblikaninn Scott Walker hefur sett fram, og fjallar um hvernig skera megi niður hjá hinu opinbera til að koma megi í veg fyrir fjárlagahalla hjá ríkinu á þessu ári. Frumvarpið hefur mætt gríðarlegri andstöðu á meðal almennings sem hefur flykkst út á götur í höfuðborg Wisconsin, Madison, til að mótmæla niðurskurðaraðferðum ríkisstjórans. Út á hvað ganga þær eiginlega og hvað er það í frumvarpinu sem er svo mikill þyrnir í augum íbúa ríkisins?

Frumvarp Walker og félaga í flokki repúblikana á að koma í veg fyrir fjárlagahalla í Wisconsin. Það er gott og blessað enda vilja flestir ríkisstjórar í Bandaríkjunum, sem og Obama forseti, gera nánast allt til að koma í veg fyrir mikinn fjárlagahalla í ár og á næstu árum. Sumt er þó heilagt í hugum almennings og ætti að vera það í augum stjórnmálamanna, en það eru verkalýðsfélögin og réttur þeirra til að setjast að samningaborði og semja ekki aðeins um grunnlaun heldur einnig um aðstæður á vinnustað, orlofsréttindi og annað slíkt.

Það er hins vegar ekkert heilagt í augum ríkisstjóra Wisconsin. Í nýja frumvarpinu, sem lagt er fram undir merkjum „budget reform“, er kveðið á um að verkalýðsfélög opinberra starfsmanna missi allan samningsrétt, fyrir utan réttinn til þess að semja um grunnlaun sín. Undanskildir frá þessu ákvæði eru slökkviliðs- og lögreglumenn en þeir eru einnig einu opinberu starfsmennirnir sem styðja frumvarpið. Áður en farið var af stað við gerð frumvarpsins buðu verkalýðsfélögin ríkisstjóranum að setjast að samningaborðinu og finna sameiginlegar leiðir út úr vandanum. Walker neitaði því.

Nýja frumvarpið mun koma einna harðast niður á menntakerfinu. Kennarar munu missa allan rétt til að setja fram kröfur um t.d. hámarksfjölda nemenda í bekk, en nú þegar eru bekkir í grunnskólum afar fjölmennir. Á háskólastigi munu lögin einnig hafa áhrif og þá helst á grunnnám við Wisconsin-háskóla sem er einn stærsti rannsóknarháskóli Bandaríkjanna. Grunnnámi í jafnstórum rannsóknarháskóla er að mestu leyti haldið uppi af masters- og doktorsnemum sem sjá um umræðutíma, og halda jafnvel fyrirlestra, en réttindi þessara einstaklinga munu skerðast mikið verði frumvarp Walker samþykkt. Það mun hafa í för með sér að erfiðara verður fyrir háskólann að laða til sín góða masters- og doktorsnema því ef aðrir háskólar bjóða mun betri kjör þarf tilvonandi nemandi ekki að hugsa sig lengi um. Það segir sig sjálft að það mun draga úr gæðum grunn- og framhaldsnáms við háskólann.

Paul Krugman, prófessor í hagfræði við Princeton-háskóla og handhafi Nóbelsverðlaunanna í hagfræði árið 2008, hefur sett fram þá kenningu að umrætt frumvarp hafi ekkert með halla á fjárlögum að gera. Hann heldur því fram í grein sem birtist á vefsvæði New York Times að meginmarkmið frumvarpsins sé að ýta undir einkavæðingu og draga úr lýðræði og bendir á metsölubók Naomi Klein í því samhengi, The Shock Doctrine. Aðalumfjöllunarefni bókarinnar er hvernig valdhafar nýta sér áföll á borð við fjármálakreppu nútímans til að knýja fram t.d. einkavæðingu sem kemur almenningi ekki til góða, heldur aðeins þeim sem tekur beint þátt í henni (seljandi og kaupandi). Dæmi um slíkt úr frumvarpinu frá Wisconsin er grein þar sem kveðið er á um að ríkisstjórinn geti selt orkuauðlindir í eigu ríkisins hverjum sem er án þess útboð fari fram, þ.e. þeim sem að honum sýnist og hentar á þeim tíma. Gegnsæ og lýðræðisleg einkavæðing sem mun alltaf, undantekningalaust koma almenningi til góða? Nei.

Wisconsin-ríki hefur ávallt verið leiðandi í verkalýðsbaráttu í Bandaríkjunum og því horfa mörg önnur ríki landsins til þess hvernig frumvarpi Walker reiðir af. Það eru nefnilega fleiri sem hugsa sér gott til glóðarinnar og í sumum ríkjum þessarar vöggu frelsisins eru repúblikanar farnir af stað með keimlík frumvörp sem virðast miða að því einu að takmarka vald fólksins. Það er vonandi að slíkar hugmyndir fái ekki hljómgrunn meirihlutans og að almenningur í Bandaríkjunum standi vörð um lýðræðið og frelsið sem að þjóðin varð fyrst þekkt fyrir.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.