Evrópustefna ríkisstjórnarinnar

Nýleg skoðanakönnun Gallups bendir til að yfirgnæfandi stuðningur sé meðal landsmanna við að teknar verði upp viðræður við ESB þar sem kannað verður hvaða kostir bjóðast. Rúmlega níu af hverjum tíu sögðust alveg til í það, enda spurningin sett fram með þeim hætti að það flestum finnst hálf kjánalegt að segja nei. Af hverju ekki að kanna hvaða kostir bjóðast, hvað sakar það?

Nýleg skoðanakönnun Gallups bendir til að yfirgnæfandi stuðningur sé meðal landsmanna við að teknar verði upp viðræður við ESB þar sem kannað verður hvaða kostir bjóðast. Rúmlega níu af hverjum tíu sögðust alveg til í það, enda spurningin sett fram með þeim hætti að það flestum finnst hálf kjánalegt að segja nei. Af hverju ekki að kanna hvaða kostir bjóðast, hvað sakar það?

En málið er nú einfaldlega þannig að til að þess að hægt sé að „kanna hvaða kostir bjóðast“ verður að sækja formlega um inngöngu í Evrópusambandið. Hver ætli niðurstaða könnunarinnar hefði orðið ef spurningin hefði hljómað svo: „Ertu hlynnt(ur) því að Ísland sæki um inngöngu í Evrópusambandið?“ Draga verður mjög í efa að niðurstaðan hefði orðið sú sama. Framsetning spurninga í slíkum könnunum getur ráðið miklu um niðurstöðuna.

Utanríkisráðherra hefur gert mikið úr niðurstöðu þessarar könnunar, enda kemur hún heim og saman við þá kenningu hans að fylgi Framsóknarflokksins sé á uppleið vegna aukins áhuga almennings á Evrópumálum. Á fundi í Þýskalandi í fyrri viku gekk ráðherrann meira að segja svo langt að viðra samningsmarkmið Íslendinga í hugsanlegum aðildarviðræðum. Þá hefur ráðherrann nú um nokkurt skeið reynt að finna EES-samningnum sem flest til foráttu. Það er augljóst mál að stjórnmálamaðurinn Halldór Ásgrímsson er eindregið þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga í ESB.

En stjórnmálamaðurinn Halldór Ásgrímsson er líka utanríkisráðherra Íslands og sem slíkur situr hann í krafti meirihluta Alþingis. Utanríkisráðherra getur ekki og á ekki að reka sína eigin utanríkisstefnu, sem gengur að flestu leyti þvert á vilja meirihluta Alþingis, og meira að segja þvert á vilja margra þingmanna úr hans eiginn flokki. Hafa menn t.d. velt fyrir sér hvort utanríkisráðherra sé að gæta hagsmuna Íslendinga í EES-samstarfinu þegar hann notar hvert tækifæri til að rakka samninginn niður og segir hann hugsanlega versta kostinn í stöðunni? Er slíkum manni treystandi fyrir því að standa að endurskoðun þessa samnings?

Ríkisstjórn Íslands verður að hafa eina stefnu í Evrópumálum. Sú stefna verður aldrei önnur en vilji meirihluta Alþingis segir til um. Embættismenn framkvæmdavaldsins hafa enga þá stöðu í stjórnskipuninni til að ákveða upp á sitt einsdæmi stefnu Íslendinga í tilteknum málaflokkum. Halldór Ásgrímsson getur vissulega reynt að vinna hugmyndum sínum fylgi á vettvangi stjórnmálanna en það verður að gera þá kröfu að í embættisfærslum gangi hann erinda meirihluta Alþingis.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.