Frá flokksblöðum til fríblaða

Fjölmiðlar á Íslandi hafa verið mikið til umræðu undanfarin misseri og þá aðallega rekstrargrundvöllur dagblaða. Á Íslandi hefur alltaf verið nokkuð sérstakur dagblaðamarkaður en á árum áður voru blöðin mjög pólitísk og tengdust ákveðnum flokkum. Þessi flokksblöð voru áskriftarblöð og engum duldist að þau studdu ákveðna stefnu eða jafnvel flokka.

Fjölmiðlar á Íslandi hafa verið mikið til umræðu undanfarin misseri og þá aðallega rekstrargrundvöllur dagblaða. Á Íslandi hefur alltaf verið nokkuð sérstakur dagblaðamarkaður en á árum áður voru blöðin mjög pólitísk og tengdust ákveðnum flokkum. Þessi flokksblöð voru áskriftarblöð og engum duldist að þau studdu ákveðna stefnu eða jafnvel flokka. Þjóðviljinn og Alþýðublaðið voru mjög vinstrisinnuð blöð á meðan að Tíminn þótti vera áróðursrit Framsóknarmanna og Morgunblaðið málgagn Sjálfstæðisflokksins . Mogginn var þó alltaf með ákveðna sérstöðu meðal þessara blaða og var í raun eina heildstæða dagblaðið og líklegast er það ástæðan fyrir því að blaðið er ennþá gefið út í dag.

Eftir tíma hinna flokkspólitísku dagblaða myndaðist ákveðið tómarúm í nokkur ár, DV var á markaðnum með Morgunblaðinu en rekstur DV var ávallt frekar þungur, önnur minni blöð komu og fóru. Tómarúmið var ekki lengi að fyllast árið 2001 þegar Fréttablaðið hóf göngu sína – fyrsta fríblaðið. Þetta nýja blað kom út á hverjum einasta degi og borið út á öll heimili á höfuðborgarsvæðinu, 90.000 eintök takk fyrir.

Fólk kepptist um að spá Fréttablaðinu falli, það gæti ekki gengið til lengdar að reka blað með þessum hætti þ.e. bara á auglýsingatekjum. Svo kom í ljós að gríðarlega fjársterkir aðilar voru að baki Fréttablaðinu sem gerði það að verkum að blaðinu óx fiskur um hrygg og lesendum fjölgaði jafnt og þétt.

Í kjölfarið spratt upp annað blað sem hét einfaldlega Blaðið en því gekk illa að fóta sig en náði svo að rétta sinn hlut þegar Árvakur tók blaðið yfir, breytti nafninu í 24 Stundir og fór að gefa það út sem nokkurskonar minni útgáfu af Morgunblaðinu. 24 Stundir fékk ágætis lesningu á tímabili en í kjölfar mikils niðurskurðar vegna bankahrunsins var útgáfan lögð af þar sem blaðið gat ekki staðið undir sér. Það var einfaldlega mjög þungur rekstur að standa í útgáfu á fríblaði.

Það er einmitt þessi fríblaðamenning sem ákveðnir aðilar hefur verið að gagnrýna og er þá aðallega deilt á þá hugsun að fríblað leggi sig fram við að þjóna auglýsendum – en ekki lesandanum. Sagt hefur verið að blað sem eingöngu reiðir sig á auglýsingatekjur geti ekki fjallað um málefni auglýsenda sinna í blaðinu sökum hagsmunaárekstra, með öðrum að orðum að blaðið vilji mögulega ekki styggja aðal gullkálfinn sinn, hver svo sem hann kann að vera. Einnig hefur verið sagt að fríblöð stundi ekki nægilega góða og efnismikla blaðamennsku, kafi ekki nægilega djúpt í málin og séu með stuttar og froðukenndar fréttir.

Þá er einnig talað um að fríblaðamenningin hafi drepið rannsóknarblaðamennskuna. Þeir sem hafa haldið þessari gagnrýni hvað hæst á lofti eru forsvarsmenn helgarblaðsins Krítik, en það er blað sem brösulega hefur gengið að koma á laggirnar sökum skorts á fjármagni. Ásgeir H. Ingólfsson, blaðamaður á Krítik kom meðal annars fram í Silfri Egils fyrir ekki svo löngu síðan og lýsti þar þessari skoðun sinni á fríblaðamenningunni.

Þessi umræða á vel rétt á sér og hið besta mál að benda á þessa mögulegu hagsmunaárekstra. Umræðan er engu að síður á töluverðum villigötum því nánast enginn fjölmiðill í heiminum og hvað þá á Íslandi, gæti staðið undir sér fjárhagslega séð ef hann þyrfti að loka á allar auglýsingatekjur hvort sem um er að ræða fríblað eða ekki. Besta dæmið er auðvitað RÚV, þeir fengu um áratugaskeið borguð hin alræmdu afnotagjöld frá öllum þeim sem dirfðust að kaupa sér sjónvarp. Þrátt fyrir afnotagjöldin þurfti ríkisfjölmiðillinn að reiða sig á auglýsingatekjur til að vera réttu megin við núllið. Auglýsingar eru stór partur af tekjulind fjölmiðla og líklegast myndu stór blöð eins og New York Times og Washington Post lenda í miklum rekstrarerfiðleikum ef blöðin myndu missa auglýsingatekjur.

Fólkið á Krítik þurfa að spyrja sig hvort Ólafur Þ. Stephensen, Jón Kaldal eða Davíð Oddsson myndu láta undan hótunum einhverra auglýsenda sinna ef þeir væru að fjalla um þá á einhvern hátt í blaðinu sínu? Það er harla ólíkleglegt, þeir myndu bara leyfa þeim að hætta og selja auglýsingaplássið einhverjum öðrum. Að lokum eru blaðamenn á þessum stóru blöðum örugglega ekkert sérstaklega að pæla í því hverjir eru að auglýsa í blöðunum sem þeir vinna hjá – þeir einbeita sér að sinni vinnu og láta þá sem selja auglýsingarnar um sín verk. Þannig þessi yfirvofandi hagsmunaárekstur mun seint verða að veruleika.

Íslensku dagblöðin verða seint talin fullkomin en þau þjóna hins vegar hlutverki sínu ágætlega, hvort sem þau eru fríblöð eða áskriftarblöð. Þótt Fréttablaðið sé ekki með lengstu og ítarlegustu fréttaskýringarnar að þá gefa þeir engu að síður öllum þeim sem ekki hafa efni á að kaupa áskriftarblöð tækifæri til þess að lesa sér til um hvað sé í gangi í þjóðfélaginu hverju sinni. Þeir sem kjósa síðan efnismeiri fréttir hafa kost á að kaupa Morgunblaðið eða jafnvel DV. Mögulega þurfa forsvarsmenn Krítik að einbeita sér meira að sölu á auglýsingum til að koma sínu eigin blaði út og uppfylla þá kröfur þeirra sem vilja efnismikla rannsóknarblaðamennsku á dagblaðamarkaðinn.