Af því að orðið „fjölmiðill“ er karlkyns

Fjölmiðlar eru oft taldir endurspegla samfélagið sem við búum í og eiga einnig ríkan þátt í að móta tíðarandann og viðhorf fólks í hinum ýmsu hitamálum. Eitt hitamál virðist alltaf jafneldfimt í samfélaginu, jafnrétti kynjanna, en hér verður það ekki gert að umræðuefni heldur það hvernig fjölmiðlar á Íslandi ýta undir staðlaðar kynjaímyndir og hampa frekar körlum en konum.

Fjölmiðlar eru oft taldir endurspegla samfélagið sem við búum í og eiga einnig ríkan þátt í að móta tíðarandann og viðhorf fólks í hinum ýmsu hitamálum. Eitt hitamál virðist alltaf jafneldfimt í samfélaginu, jafnrétti kynjanna, en hér verður það ekki gert að umræðuefni heldur það hvernig fjölmiðlar á Íslandi ýta undir staðlaðar kynjaímyndir og hampa frekar körlum en konum.

Það er eiginlega of auðvelt að taka dæmi en hér er eitt: tímaritið Monitor hefur nú komið út 34 sinnum á árinu og hafa 37 einstaklingar prýtt forsíðuna (hér eru ekki taldar með tvær forsíður, önnur sem er samsett úr nokkrum einstaklingum og hin teiknuð). Af þessum 37 einstaklingum eru 9 konur á móti 28 körlum. Af hverju? Eru svona fáar áhugaverðar konur á Íslandi? Nei. Það getur ekki verið ástæðan. Er það af því að ritstjórinn er karl? Nei. Það getur bara ekki heldur verið ástæðan.

Kannski er þetta tilviljun en það er bara ekki allt í lagi með þá tilviljun og gef ég hér Monitor tækifæri til þess að leiðrétta þetta kynjahlutfall. Eftirfarandi konur gætu t.d. fengið boð um að vera á forsíðunni á næstunni og þá einnig í aðalviðtalinu í blaðinu, og jafnvel í „sjóðheitum myndaþætti“ ef þær vilja. Samt helst ekki. Sjálf hefði ég viljað sjá Friðrik Dór í sjóðheitum myndaþætti þegar hann var á forsíðunni:

Margrét Lára Viðarsdóttir, Þórdís Nadia Semichat, Kitty Von Sometime, Silja Hauksdóttir, Kristín Eiríksdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Harpa Einarsdóttir, Aðalbjörg Ósk Gunnarsdóttir, Margrét Erla Maack, Elín Hansdóttir, Sesselja Vilhjálmsdóttir og Valgerður Halldórsdóttir, Björk Guðmundsdóttir, Kristín og Þóra Tómasdætur, Yrsa Sigurðardóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Magga Stína og Katrín Ýr Bjarnadóttir.

Og þá ætti að vera jafnt í báðum liðum.

Hitt dæmið sem mig langar að nefna er þegar Gerpla varð Evrópumeistari í hópfimleikum fyrr á árinu. Umfjöllun fjölmiðla um þetta afrek stúlknanna var gjörsamlega fyrir neðan allar hellur en henni voru meðal annars gerð skil í pistli hér á Deiglunni. Er hér aðeins of augljóst dæmi um hvernig strákar og „strákaíþróttir“ eru teknir fram yfir stelpur og „stelpuíþróttir“ í fjölmiðlum, en það væri kannski ekki úr vegi að bæta upp fyrir lélega fjölmiðlaumfjöllun með því að sæma Gullstelpurnar Fálkaorðunni eins og Silfurstrákarnir fengu hér um árið.

Af nógu er svo að taka þegar kemur að þeim stöðluðu kynjaímyndum sem fjölmiðlar bjóða upp á en hér verður einn vinsælasti netmiðill landsins, Pressan.is, tekinn fyrir. Þar má finna undirvefinn „Veröld Mörtu Maríu“ sem er sérsniðinn að konum en undirsíður vefsins eru ekki af verri endanum: „Tíska og útlit“, „Fólk“, „Heimili og hönnun“ og „Eldhús“. Ekki ætla ég að gera lítið úr því að konur hafi þessi áhugamál en sjálf vildi ég sjá þarna undirsíður eins og „Knattspyrna“, „Kvikmyndir“ og „Bókmenntir“ en kynsystur mínar hafa kannski ekki áhuga á því (þess má geta að á undirvefnum „Menningarpressan“ skrifa aðallega tveir karlar um bókmenntir).

Ég fer þá bara á Sammarinn.com og Fótbolti.net, þar sem meirihluti skríbenta eru strákar (ég hef reyndar sjálf skrifað grein á Sammarann og hef oftar en einu sinni íhugað að bjóða mig fram til skrifa á vinsælustu knattspyrnusíðu landsins). Svo horfi ég á karlinn Egil Helgason tala um bókmenntir í Ríkissjónvarpinu. Pressan er annars að fara í gang með sérnetmiðil tileinkuðum konum, bleikt.is, og hlakka ég mikið til að fylgjast með honum, hver veit nema að Hlín Einars samþykki allt í einu að konur geta líka haft gaman af fótbolta?

Það sem ég spyr mig gjarnan að er af hverju er þetta svona: af hverju eru karlar í yfirgnæfandi meirihluta viðmælanda í sjónvarpi, af hverju prýða þeir frekar forsíður blaða og tímarita og af hverju pæla konur á fjölmiðlum ekki meira í þessu en raun ber vitni? Er það kannski af því að orðið „fjölmiðill“ er karlkyns?

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.