Hættur leynast í pólitísku tómarúmi

Á Íslandi hefur ríkt ákveðin stjórnarkreppa frá hruni bankakerfisins árið 2008. Reynt var að slá á þetta ástand með kosningum í apríl í fyrra en færa má rök fyrir því að sú tilraun hafi mistekist. Þessi tiltekna tegund af kreppu lýsir sér þannig að núverandi ríkisstjórn er ein sú allra óvinsælasta í sögu lýðveldisins og kannanir sýna að traust til Alþingis er nánast ekkert.

Á Íslandi hefur ríkt ákveðin stjórnarkreppa frá hruni bankakerfisins árið 2008. Reynt var að slá á þetta ástand með kosningum í apríl í fyrra en færa má rök fyrir því að sú tilraun hafi mistekist. Þessi tiltekna tegund af kreppu lýsir sér þannig að núverandi ríkisstjórn er ein sú allra óvinsælasta í sögu lýðveldisins og kannanir sýna að traust til Alþingis er nánast ekkert.

Þar sem stjórnarkreppa hefur hreiðrað um sig getur myndast ákveðið pólitískt tómarúm, þ.e. pláss fyrir nýjar hugmyndir sem undir venjulegum kringumstæðum fengju aldrei neina athygli eða fylgismenn. Þetta sáum við svart á hvítu með tilkomu Besta flokksins í sveitarstjórnarkosningunum síðastliðið vor. Flokkurinn með sprelligosann Jón Gnarr í broddi fylkingar endaði sem stærsti flokkur borgarinnar, eitthvað sem hefði þótt gjörsamlega óhugsandi fyrir nokkrum árum. Fólk getur þrasað fram og til baka um ágæti Besta flokksins en hann mun verða dæmdur af verkum sínum á næstu misserum.

Það sem ber hins vegar að varast í pólitísku tómarúmi eru öfgafullar skoðanir frá hópum sem reyna með brellum og brögðum að troða hugmyndum sínum inn í umræðuna og vona að almenningur bíti á agnið. Þetta eru skoðanir eins og nýnasismi eða anarkismi – eitthvað sem getur reynst öllum samfélögum hættulegt. Oft mála þessir hópar sig mun saklausri en þeir í raun og veru eru og reyna þannig að slá ryki í augu samborgara sinna.

Nú þegar sér maður teikn á lofti – hópar hafa sprottið hér upp og skemmst frá því að minnast þegar félagar úr hópnum Blóð og Heiður flögguðu sjálfum hakakrossinum í mótmælunum í byrjun október á Austurvelli. Reyndar var þessum sama fána hent fyrir eld sem búið var að kynda fyrir framan þinghúsið. Engu að síður er þetta ekki jákvæð þróun – að sjá nasistafána í íslenskum mótmælum. Samtökin Blóð og Heiður kalla sig þjóðernissinna. Ein af forsvarsmönnum þessara samtaka sagði í fjölmiðlum, eftir uppákomuna á Austurvelli, að Adolf Hitler hefði nú gert margt gott og að þau væru á móti fjölmenningarstefnu, þ.e. á móti ákveðnum hópi innflytjenda. Þess ber að geta að hópurinn útilokaði ekki að bjóða fram í næstu kosningum.

Annar hópur sem hefur látið til sín taka upp á síðkastið er hópur sem finna má á samskiptasíðunni Facebook og mótmælir byggingu mosku á Íslandi. Í þessari ,,grúppu“ eru skráðir tæplega 1200 einstaklingar þegar þetta er ritað. Þessi hópur segir að þau séu ekki á móti múslimum eða islam í heild sinni heldur bara á móti því að moska rísi hér á landi. Þegar facebooksíðan er lesin þarf engan snilling til þess að átta sig á að þarna er um gríðarlegt hatur á öllum múslimaheiminum að ræða.

Fólki er að sjálfsögðu frjálst að hafa sínar skoðanir en þessi þróun er ekki jákvæð og gæti aukist og orðið að einhverju miklu verra því skjótt skipast veður í lofti, það þekkja Hollendingar. Þar í landi hefur maður að nafni Geert Wilders orðið áhrifamikill og vinsæll með því að prédika um að múslimar séu vestrænni menningu hættulegir. Flokkur hans, Frelsisflokkurinn, er núna þriðji stærsti flokkur Hollands og hann ver minnihlutastjórn falli í hollenska þinginu. Þannig að umsvif hans og völd eru gríðarleg. Við viljum ekki skapa hinn íslenska Wilders, þess vegna verðum að hlusta virkilega vel og pæla nákvæmlega í því sem öfgahópar eru í raun og veru að segja. Þjóðfélög hafa oft brennt sig á því að byrja að aðhyllast rasisma, fasisma, kommúnisma eða jafnvel anarkisma og þá þegar er skaðinn skeður. Ógæfa og bölhyggja er það eina sem þessar stefnur hafa fram að færa.