Friðarverðlaun Nóbels & Apamaðurinn

Eftir að ljóst var að mannréttindafrömuðurinn Liu Xiaobo hlýtur friðarverðlaun Nóbels í ár, hafa viðbrögðin verið æði misjöfn. Kínverjar eru æfir yfir verðlaununum og telja þau vinni gegn tilgangi þeirra, meðan stjórnvöld í Washington, París og London fagna hóflega þessari nafnbót Xiaobo og skora á kommúnistastjórnina í Kína að leysa Xiaobo úr haldi. Almenningur í Kína og Liu Xiaobo sjálfur hafa þó ekki enn, ef fréttaflutningurinn er réttur, fengið að vita af þessum mikilvægu verðlaunum.

Eftir að ljóst var að mannréttindafrömuðurinn Liu Xiaobo hlýtur friðarverðlaun Nóbels í ár, hafa viðbrögðin verið æði misjöfn. Kínverjar eru æfir yfir verðlaununum og telja þau vinni gegn tilgangi þeirra, meðan stjórnvöld í Washington, París og London fagna hóflega þessari nafnbót Xiaobo og skora á kommúnistastjórnina í Kína að leysa Xiaobo úr haldi. Almenningur í Kína og Liu Xiaobo sjálfur hafa þó ekki enn, ef fréttaflutningurinn er réttur, fengið að vita af þessum mikilvægu verðlaunum.

Í tilraun til að sjá hvernig fréttirnar af nóbelsverðlaunum Liu Xiaobo væru matreiddar í kínversku pressunni, ákvað höfundur að fara á heimasíðu eina enskumælandi miðils Alþýðulýðveldisins Kína, China Daily. Eftir stutta leit fundust engin ummerki að friðarverðlaun Nóbels hafi á annað borð verið veitt, (ekkert frekar en á heimasíðu íslenska utanríkisráðuneytisins*). Það sem stakk hins vegar í augun var að Kínverjar hafa fleiri merkismenn til að hafa áhyggjur af en Liu Xiaobo, því skv. fréttamiðlinum er stefnt að því að hefja aftur leit að Apamanninum, eða Stórfót líkt og hann er einnig kallaður. (til að gæta fullrar sanngirni, ber að nefna að ekkert er heldur um það á heimasíðu íslenska utanríkisráðuneytisins)

Á síðunni stendur að kínverskir vísindamenn séu að íhuga að hefja viðamikla leit að Apamanninum sem á að líkjast apa og manni til hálfs, nærri 30 árum eftir að síðasta leit átti sér stað. Telja vísindamennirnir að leiðangurinn gæti loksins svarað þessum áratugagömlu heilabrotum um það hvort að Apamaðurinn sé raunverulega til, skv. Wang Shancai, 75 ára gömlum sérfræðingi við Hubei Provincial stofnunina sem stendur að rannsókninni.

Djúpt í fjöllum Hubei, í Shennongjia þjóðgarðinum hafa mörg vitni talið sig hafa séð Apamanninn. Meira en 400 einstaklingar telja sig hafa séð misskildu veruna, en hún gengur undir nafninu „Yeren“ í Kína, eða „villti maðurinn“ meðan vesturlandabúar notast frekar við nöfnin Stórfót og Apamanninn. Skv. vitnum labbar skepnan upprétt og er meira en 2 metrar á hæð og hefur grá, rauð eða svört hár á líkamanum.

Það sem mun aðgreina leiðangurinn núna, frá þeim sem farið var í fyrir 30 árum, er að núna munu vísindamennirnir notast við betri tæknibúnað, segir Wang. Jafnframt eru þeir í samvinnu við China Three Gorges Háskólann að þróa langtíma orkugjafa fyrir myndavélarnar sem verða staðsettar þar sem líkleg híbýli Apamannsins eru, en þá staði velur Wang sjálfur enda hefur hann mikla reynslu eftir 30 ára rannsóknir á Apamanninum.

Kína hefur áður gert út þrjá álíka leiðangra á árabilinu 1970-1980. Þá fundust skv. Wang fótspor, hár og hugsanlegar vistarverur skepnunnar. Hárin voru send á þrjá mismunandi háskóla sem öll skiluðu þeirri niðurstöðu að þau tilheyrðu hvorki mannskepnunni eða nokkrum þekktum dýrategundum. Leiðangurinn leið þó fyrir hversu illa hann var búinn vísindalegum aðferðum og tækjum. Slíkt verður þó ekki um að ræða í þetta skiptið þar sem „vísindamennirnir“ hafa þegar reiknað sig niður á þá staði þar sem líklegast er að mannapinn haldi sig. „Margra ára rannsóknir sýna að að Apamaðurinn er líklegur til að haldast við í hellum.“ Segir Luo Baosheng annar af frumkvöðlum rannsóknarinnar. Það munu vera þrír mismunandi hópar sem munu rannsaka alla hella í mikilvægustu pörtum sýslunnar, þar sem líklegast er að skepnan muni birtast segir Baosheng.

Hópurinn sem leitar að Apamanninum samanstendur af 100 vísindamönnum og leitarmönnum og hafa starfað saman síðan í nóvember 2009 og munu hafa hafið leitina í apríl á þessu ári. Rannsóknir eiga að hafa sýnt að þessi skepna sé líklegast til í raun og veru. Apamaðurinn er einhvers konar þróunarmistök frá því að apar voru að þróast yfir í menn. „Fræðilega“ ætti skepnan að vera útdauð, segir Wang Shancai, en líkt og með risapöndurnar gæti það hafa gerst að nægilegur fjöldi þeirra hafi lifað af og gæti því gengið jörðina enn þann dag í dag.

Þeir einstaklingar sem eru spenntir yfir því að taka þátt í þessu verkefni geta tekið gleði sína, en skv. Baosheng er tekið við vísindamönnum og leitarmönnum úr öllum heimshornum. Umsækjendur af báðum kynjum eða öðru skulu vera á aldursbilinu 25 – 40 ára, heilsuhraust og hafa standgóða þekkingu á líffræði og myndatöku. Þó er leiðangurinn ekki enn kominn á fullt skrið þar sem fjármögnunin er ekki enn komin í hús, en Wang Shancai og félagar eru enn í samningaviðræðum við fjölmörg fyrirtæki, en leitin að Apamanninum mun kosta um 10 milljón Yuan, eða rúmar 133 milljónir króna.

Það væri ekki dónalegt að mati höfundar, að á meðan þetta millibilsástand stendur um hvort mannapinn sé til í Kína eða ekki, að íslensk stjórnvöld tækju stöðu jafnfætis öðrum vestrænum þjóðum með málfrelsinu.

* Rétt er að taka fram að frétt birtist á heimasíðu utanríkisráðuneytisins eftir birtingu pistilsins, þar sem fram kemur að utanríkisráðherra hvetur kínversk stjórnvöld að sleppa Liu Xiaobo úr haldi.

Latest posts by Vignir Hafþórsson (see all)

Vignir Hafþórsson skrifar

Vignir hóf að skrifa á Deigluna í október 2009.