Barack Obama stendur í lappirnar

Nú er meira en eitt og hálft ár síðan Barack Obama sór embættiseið sem 44. forseti Bandaríkjanna. Gríðarlegar væntingar voru gerðar til hans þar sem hann vann nokkuð sannfærandi sigur á mótherja sínum John McCain. Frá fyrsta degi hefur Obama staðið í ströngu. Hann hefur þurft að taka ákvarðanir sem ekki alltaf eru vinsælar og sést það best á því að stuðningur við hann mældist ekki nema 43% í sumar.

Nú er meira en eitt og hálft ár síðan Barack Obama sór embættiseið sem 44. forseti Bandaríkjanna. Gríðarlegar væntingar voru gerðar til hans þar sem hann vann nokkuð sannfærandi sigur á mótherja sínum John McCain. Frá fyrsta degi hefur Obama staðið í ströngu – umturnun á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna tók sinn toll þar sem forsetinn lagði allt í sölurnar að koma málinu í gegnum þingið, fækkun hermanna í Afganistan og Írak, olíuleki við Mexíkóflóa og síðast en alls ekki síst fjárlagahalli upp á um 1500 milljarða dollara! Sökum þessara erfiðu mála hefur Obama þurft að taka ákvarðanir sem ekki alltaf eru vinsælar og sést það best á því að stuðningur við hann mældist ekki nema 43% í sumar.

Núna aftur standa spjótin á Obama vegna aðkomu hans að máli sem hefur verið í brennidepli síðustu vikur í Bandaríkjunum, er það mál er varðar mögulega byggingu mosku og menningarmiðstöð múslima í New York. Undir venjulegum kringustæðum væri þetta smámál sem myndi ekki komast í heimsfréttirnar en það er staðsetning moskunar sem er umdeild.

Forsaga málsins er sú að til stendur að reisa mosku um 200 metra frá hinum svokallaða Ground Zero bletti á Manhattan eða á sama stað og hinir frægu Tvíburaturnar fórust í hryðjuverkaárásunum 11. september 2001. Málið fékk svo ennþá meiri athygli þann 22. ágúst síðastliðinn er hundruð manna fylktu liði um götur Manhattan til að mótmæla byggingu moskunar.

Þeir sem eru á móti byggingu moskunar benda á að þeir sem frömdu þessi voðaverk voru jú öfga múslímar sem tilheyrðu hryðjuverkasamtökunum Al Qaida. Þess vegna telja þeir að það væri ekki viðeigandi að miðstöð múslima sé svona nálægt vettvangi hinna hræðilegu atburða. Þeir minnast einnig á að mikið af fólki sé ennþá í sárum yfir árásunum árið 2001 og að moska á þessum stað hjálpi fólki ekki að jafna sig, þvert á móti gæti hún gert illt verra.

Þeir sem eru hlynntir byggingu moskunar benda á það að Al Qaida tengist moskunni ekki neitt og það hafi verið hryðjuverkasamtökin, ekki trúin sem framdi þessi voðaverk 11. september 2001, því megi ekki rugla saman. Þeir benda líka á að þeim er frjálst að byggja þessu mosku á þessum stað enda sé lóðin einkaeign og Bandaríkin séu land hinna frjálsu, það verður að virða rétt fólks til að iðka sína trú.

Málið rataði svo alla leið í ræðu Barack Obama þar sem hann lýsti yfir stuðningi sínum við byggingu moskunar. Obama sagði að sem borgari og sem forseti tryði hann því að múslimar, eins og aðrir, hefðu sama rétt til þess að iðka sína trú og aðrir Bandaríkjamenn.

Fyrir það fyrsta er frábært að sjá að Obama taki afstöðu í þessu máli sem er jafn eldheitt og raun ber vitni. Í annan stað hafa trúmál alltaf verið viðkvæm fyrir forsetann þar sem hann hefur í sífellu þurft að leiðrétta lygasögur Repúblikanaflokksins þess efnis að hann sé múslimi, en Obama er kristinn maður en faðir hans var alinn upp sem múslimi. Þrátt fyrir þetta telja u.þ.b 20% Bandaríkjamanna að Obama sé múslimi, samkvæmt skoðannakönnun sem birtist í Washington Post.

Það verður að segjast eins og er að Obama er alvöru stjórnmálamaður sem þorir að segja sína skoðun og taka afstöðu í erfiðum málum. Það er greinilegt að hann er í stjórnmálum til að skipta máli á jákvæðan hátt. Ráðlegt væri að íslenskir stjórnmálamenn, og þá sérstaklega þeir stjórnmálamenn sem sitja í ríkisstjórn Íslands og lofa skjaldborgum, myndu taka sér hann til fyrirmyndar – Obama þolir að vera óvinsæll, þorir að taka erfiðar ákvarðanir og fyrir vikið mun hann ná árangri.