Jafnréttisumræða á villigötum?

Jafnrétti kynjanna hefur verið ofarlega í þjóðfélagsumræðunni undanfarin ár og áratugi. Flestir hafa skoðanir á þessum málum og þrátt fyrir að vera sammála um markmiðið og tilganginn, virðist fólk oft á tíðum vera ósammála um leiðina að endamarkinu.

Ég var í menntaskóla í Frakklandi og er minnistætt þegar frönskukennarinn minn bað stelpurnar í bekknum um að rétta upp hönd ef okkur hefði einhvern tímann verið sagt að við gætum ekki eitthvað vegna þess að við værum stelpur en ekki strákar. Ég hló og hugsagði með mér að kennarinn hlyti að vera fædd á fornöld, svona gerðist ekki í vestrænu ríki á 21. öld. Mér til mikillar skelfingar sá ég þó hverja einustu stelpu í bekknum rétta upp hönd. Þarna voru stelpur frá Bandaríkjunum, Frakklandi, Bretlandi, Þýskalandi, Suður Kóreu, Rússlandi og víðar. Allar höfðu þær upplifað kynjamismunun. Allar nema ég, Íslendingurinn.

Oft hef ég hugsað til þessa frönskutíma og velt því fyrir mér hvort ég sé undantekningin eða meginreglan. Hvort Íslendingar séu komnir þetta mikið lengra í jafnréttisbaráttunni en aðrar þjóðir eða hvort uppeldi mitt hafi verið svona einstakt. Íslendingar eru komnir það langt í jafnréttisbaráttunni að flestir eru orðnir sammála um að konur og karlar eigi að standa jafnfætis, hvort sem það er á vinnustað, heimili eða í þjóðfélaginu. Ísland hefur sem ríki skuldbundið sig með alþjóðlegum samningum til þess að virða jafnrétti kynjanna og mælt er fyrir um jafnrétti kynjanna á víð og dreif um íslenska löggjöf, meðal annars í æðstu réttarheimildinni, stjórnarskránni. Á Íslandi er jafnrétti í lagalegum skilningi og mismunun á grundvelli kyns er beinlínis ólögleg.

Konur hafa náð langt á mörgum sviðum samfélags, þátttaka þeirra í stjórnmálum fer stöðugt hækkandi, við stærsta háskóla landsins er kona rektor, forsætisráðherra er kona, helmingur ráðuneytisstjóra eru konur og íslenskar konur eru með hæsta hlutfall útivinnandi kvenna á öllum OECD löndunum. Ísland hefur stigið mörg framfararskref í átt að jafnrétti kynjanna og stendur mun framar mörgum öðrum þjóðum í þessum efnum.

En jafnrétti hefur ekki verið náð. Eitt sárasta dæmið um það er launamunur kynjanna. Þegar launamunur kynjanna er til umræðu eru margir fljótir að setja sig í varnarstellingar og réttlæta launamuninn á yfirvinnu, menntunarstigi og starfsreynslu. Svarti veruleikinn er hinsvegar sá að þótt allir þessir þættir séu teknir með í reikninginn er launamunur kynjanna þó enn til staðar og á meðan starfskraftur kvenna er talinn minna verðmætur en karla eigum við enn langt í land í jafnréttisbaráttunni.

Jafnrétti verður aldrei náð fram með lögum og reglum einum og sér, til þess þarf hugarfarsbreytingu. Raunverulegt jafnrétti verður ekki að veruleika fyrr en það þykir sjálfsagt að konur og menn standi jöfn í þjóðfélaginu, í hvaða starfi sem er og innan heimilisins. Vandinn er hins vegar augljós: hvernig náum við fram hugarfarsbreytingu? Eru lög og reglur liður í að ná henni fram? Um árabil hafa verið lög sem banna mismunun, en hún er enn við lýði. Nú heftur lágmarkshlutfall kvenna og karla í stjórnum og nefndum verið lögfest. Verður þá jafnrétti? Eru lög sem mæla fyrir um kynjakvóta vænlegri til vinnings en öll hin sem hafa verið sett? Sjálfsagt á tíminn einn eftir að svara þeirri spurningu.

Þegar þetta vinsæla umræðuefni, jafnrétti kynjanna, ber á gómana virðist umræðan oftar en ekki snúast um það hvort setja eigi á kynjakvóta eða ekki. Hægri og vinstri pólitík blandar sér iðulega í umræðuna í framhaldinu. Við virðumst vera að missa sjón á endamarkinu við val á leiðum til þess að ná því fram. Endamarkið er ekki kynjakvótar eða engir kynjakvótar. Jafnrétti kynjanna er ekki hægri og vinstri pólitík. Þótt fólk kunni að vera ósammála um þessi atriði er mikilvægt að það eitt verði ekki til þess að hindra framför í jafnréttismálum. Endamarkið er jafnrétti og hvorki val á leiðum né hefðbundnar stjórnmálaskoðanir eiga ekki að breyta því. Sú umræða gerir það eitt að verkum að jafnréttisbaráttan staðnar.

Það er kominn tími á að við hættum þessu þrasi, snúum bökum saman, viðurkennum staðreyndir og vekjum athygli á stöðu jafnréttismála á Íslandi í dag.