Og ég beið og ég beið og ég beið og ég beið…

Það er nú fátt leiðinlegra en að bíða í röð, sérstaklega að bíða í röð til þess að bíða í annarri röð til þess að loks komast að, sem þú varst að leitast eftir. Það er eitt leiðinlegra jú, að bíða í rigningunni heillengi eftir einhverju og komast svo að því að þú færð ekki það sem þú varst að bíða í röð eftir því það er búið að loka loksins þegar það kemur að þér. Jú, svo er líka ofsalega leiðinlegt að bíða og bíða en komast svo að því að það sem þú varst að bíða eftir er bara búið.

Það er nú fátt leiðinlegra en að bíða í röð, sérstaklega að bíða í röð til þess að bíða í annarri röð til þess að loks komast að, sem þú varst að leitast eftir. Það er eitt leiðinlegra jú, að bíða í rigningunni heillengi eftir einhverju og komast svo að því að þú færð ekki það sem þú varst að bíða í röð eftir því það er búið að loka loksins þegar það kemur að þér. Jú, svo er líka ofsalega leiðinlegt að bíða og bíða en komast svo að því að það sem þú varst að bíða eftir er bara búið.

Eftir að hafa búið í Bretlandi í nærri tvö ár er maður orðinn ansi vanur því að bíða röð eftir eiginlega öllu, vanur því að bíða í bankanum til þess að taka út pening en vera svo sendur í burtu því maður er ekki með úttektarheftið sitt (já ég meina svona miða eins og voru í gamla daga í bönkunum en ég er með svona ávísanahefti með slíkum miðum), ég er orðin sérfræðingur í því að multitaska á meðan ég bíð eftir því að einhver svari símanum þegar ég hringi út af internetinu og loksins þegar ég kemst í samband við manneskju þá valdi ég ekki rétta númerið í einhverjum af hinum 25 möguleikunum og ég þarf því að hringja aftur. En einhvern vegin þá sættir maður sig alveg við það, en atburðirnir sem áttu sér stað síðast liðinn fimmtudag í þingkosningunum hér í Bretlandi, eru þess eðlis að ég vona að enginn sætti sig við þá.

Í nýafstöðnum kosningum í Bretlandi var mörg hundruð manns vísað frá vegna þess að það var ekki hægt að afgreiða fólk nógu hratt og þó þú værir búin að bíða í röð í 30 mínútur, klukkutíma eða jafnvel lengur þá skipti það ekki máli, hurðin skyldi loka klukkan 22.00. Fólk varð skiljanlega reitt, því ekki var um að ræða kosningar til hússtjórnar heldur til þings Breta og í þeim átti að ráðast hver skyldi leiða landið í gegnum þessa erfiðu tíma. En reglur eru reglur og Bretar eru nú ekki þekktir fyrir það að finna leiðir til þess að flýta fyrir hlutunum svo fólk kannski komist að áður en það er lokað á andlitið á þeim.

Starfsmenn kosninganna skýla sér á bak við það að svo mikil aukning hafi verið á kjörsókn en samkvæmt þeim kjörstöðum sem hafa skilað inn niðurstöðum er aðeins 65% kjörsókn en það er 4% meira en í síðustu kosningum. Önnur afsökun er ein sú hlægilegasta sem ég hef heyrt en það er að það voru miklu fleiri nemendur að kjósa þetta árið en áður og nemendur gleyma víst kjörgögnunum sínum frekar og því taka hlutirnir bara lengri tíma. Eitt kjörsvæðið tók upp á því að skipta kjósendum upp í tvo hópa, annars vegar „hinn venjulegi kjósandi“ og hins vegar nemendur. Í hópnum þar sem „hinn venjulegi kjósandi“ var, var hraðafgreiðsla en í nemendaröðinni fór allt sinn sama hægagang. Ég get rétt ímyndað mér hvernig ég hefði brugðist við hefði ég verið sett í röð sem væri fyrir minna mikilvægt fólk, Samband háskólanema í Bretlandi spyr hvaða skilaboð þetta sendi til kjósenda sem eru að kjósa í fyrsta sinn, eða frekar þeirra sem ætluðu sér að kjósa í fyrsta sinn. Í landi þar sem það telst ekki eðlilegt að allir kjósi og nýti sinn rétt, er nokkuð ljóst að þetta mun hafa áhrif í næstu kosningum því fólk mun hugsa sig oftar um hvort það nenni yfir höfuð á kjörstað því það skiptir nú ekki máli hvort það kjósi ef það fær þá að kjósa.

Það voru ekki heldur bara langar raðir sem gerðu það að verkum að fólk fékk ekki að kjósa, heldur kláruðust kjörseðlar á sumum stöðum og aftur skýla starfsmenn kjörstaða sér á bak við það að kjörsókn væri upp úr öllu valdi. Gott og vel kjörsóknin var upp úr öllu valdi en síðast þegar ég vissi þá ætti að vera hægt að prenta út kjörgögn fyrir alla á kjörskrá, fólk er skráð í viss svæði og því ætti þetta ekki að vera svo flókið. Þetta er ekki eins og við séum búin með rétt dagsins, heldur ertu búin með rétt minn fyrir hugsanlegu næstu fimm árin.

Mannréttindalögfræðingurinn Geoffrey Robertson segir að fólk hafi rétt á því að kæra það að þeim hafi verið meinað að kjósa, fyrir það ætti þau að fá um £750. Ég veit ekki um þig kæri lesandi en fyrir mér er ég að kjósa til þess að hafa áhrif á stjórnun landsins míns og ef mér og fleiri kjósendum er neitað að kjósa sökum þess að starfsmenn kjörstaðarins geti ekki annað eftirspurninni þá bæta peningar mér það ekki upp. Í lýðræðissamfélagi eiga allir, sem hafa náð 18 ára aldri, að fá að kjósa og allt skal vera gert til þess að þeir komist að og verði ekki sent heim án þess að hafa fengið að merkja sinn kross við sinn frambjóðenda.

Ætli það sé ekki best að rifja upp það sem ein fréttakona BBC sagði í gærnótt um málið, „.. . og við erum svo að fara til annarra landa að ganga úr skugga um að kosningar þar gangi eins og skyldi og við getum ekki einu sinni haft kjörseðla handa öllum.“

Sumir biðu og biðu og biðu og biðu og biðu en á endanum var hurðinni skellt og þeir þurftu að snúa við vitandi það að þau höfðu ekki getað notað rétt sinn til þess að kjósa og gátu því ekki haft áhrif í einum mikilvægustu kosningum þessa lands síðari ára.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.