Eru skattalækkanir í þenslu glórulaus hagstjórn?

Ein af þeim niðurstöðum sem rannsóknarnefnd alþingis kemst að í nýútgefinni skýrslu sinni er sú að hagstjórn á Íslandi undanfarinn áratug hafi kynt undir ójafnvægi í hagkerfinu í stað þess að tempra það eins og vera ber. Það ætti reyndar að vera hverjum manni ljóst að þessi gagnrýni á fullan rétt á sér. Hins vegar hafa margir valið að grípa sérstaklega á lofti gagnrýni á skattalækkanir í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, sem nefndin telur að hafi aukið enn á þenslu í yfirspenntu hagkerfi landsins á tímabilinu. Á sú gagnrýni rétt á sér? Þetta, og miklu fleira, í pistli dagsins á Deiglunni.

Ein af þeim niðurstöðum sem rannsóknarnefnd alþingis kemst að í nýútgefinni skýrslu sinni er sú að hagstjórn á Íslandi undanfarinn áratug hafi kynt undir ójafnvægi í hagkerfinu í stað þess að tempra það eins og vera ber. Það ætti reyndar að vera hverjum manni ljóst að þessi gagnrýni á fullan rétt á sér. Hins vegar hafa margir valið að grípa sérstaklega á lofti gagnrýni á skattalækkanir í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, sem nefndin telur að hafi aukið enn á þenslu í yfirspenntu hagkerfi landsins á tímabilinu.

Margir gagnrýnendur skattalækkananna líta fram hjá því að beiting ríkisfjármála í hagstjórnarskyni er peningur með tvær hliðar. Skattheimtan er aðeins önnur þeirra, en hin er svo ríkisútgjöldin. Það er ekkert sjálfgefið við það að skattalækkanir séu þensluhvetjandi einar og sér nema þær séu í ósamræmi við þróun ríkisútgjaldanna. Þannig þarf skattalækkun samfara aðhaldi í ríkisútgjöldum ekki endilega að þýða aukna framleiðsluspennu í hagkerfinu, heldur getur hún verið heillaspor – enda markmið í sjálfu sér að skattheimta sé lág. Flestar ríkisstjórnir Íslandssögunnar virðast þó hafa gleymt hinni hlið peningsins; útgjaldahliðinni.

Frá árinu 1993 og fram að hruni ríkti samfellt hagvaxtarskeið á Íslandi. Atvinnuleysi á tímabilinu var nánast allan tímann undir 5% og jafnvel hressilega undir náttúrulegu atvinnuleysi , sem talið er að sé um 3-4% hér á landi. Verðbólga var oft yfir markmiði Seðlabankans þrátt fyrir að erlendu vinnuafli fjölgaði mikið, sérstaklega á síðustu árum, og þrátt fyrir að stýrivextir væru háir – jafnvel yfirleitt um eða yfir 10%. Ef til væri tékklisti fyrir þenslu í hagkerfi, þá hefði líklegast verið merkt við alla reiti hér á landi lungann úr síðustu 15 árum fyrir hrun.

Þegar svo er ætti hinu opinbera að vera ljóst að það er að leggjast um of á árárnar. Við slíkar aðstæður er skynsamlegast að stíga á bremsuna og safna ríkulegum afgangi af ríkissjóði svo hið opinbera hafi svigrúm til að bregðast við þegar þenslan breytist í samdrátt. Hvort sem skattar eru lækkaðir eða látnir standa í stað skiptir þannig mestu að gæta jafnvægis í ríkisrekstrinum. Að gæta þess að ríkisútgjöld vaxi ekki um of – jafnvel leyfa þeim að standa í stað eða skera þau niður og leyfa hinum þanda einkageira að grípa slakann sem við það myndast. En hver ætli hafi nú verið raunin?

Á hagvaxtarskeiðinu jukust raunútgjöld ríkisins úr því að vera tæp 1,5 milljón króna á mann árið ´93 í að vera rúmar tvær rétt fyrir hrun. Það er þriðjungsaukning að raunvirði á aðeins fimmtán árum, og það eftir að leiðrétt hefur verið fyrir fólksfjölgun. Aðeins tvö ár af þessum fimmtán jukust ríkisútgjöld ekki á milli ára. Athyglisverðast er svo að ekki var nóg með að ríkisútgjöldin blésu út að raunvirði, heldur jukust þau líka í hlutfalli við landsframleiðslu á tímabili. Þegar mest var fyrir hrun námu þau um 45%. Þá er skemmst frá að segja að ríkissjóður var ekki rekinn með afgangi nema um helming tímabilsins, og þá um allt of lítið, þó raunar sé yfirvöldum til hróss að hafa greitt niður skuldir ríkisins að einhverju leyti á tímabilinu.

Slíkur rekstur er þrátt fyrir það glórulaus meðan hagvöxtur er viðvarandi, atvinnuleysi lítið og þörfin á sívaxandi ríkisumsvifum hverfandi. Það segir því ekki nema hálfa söguna að fordæma skattalækkanir, því þær orkuðu aðeins þensluhvetjandi vegna útgjaldabólgunnar. Hin bága staða þjóðarbúsins nú skýrist að einhverju leyti af þessum hagstjórnarmistökum, því svigrúm stjórnvalda til að lækka skatta og auka ríkisútgjöld er nánast ekkert.

Adam Smith, faðir hagfræðinnar, benti fyrir nokkrum öldum á að það sem er hyggilegt fyrir hverja fjölskyldu gæti ekki verið heimskulegt fyrir hið opinbera. Á það einnig við um að nýta feitu árin og spara til hinna mögru. Það verður fróðlegt að sjá hversu margar aldir þurfa að líða í viðbót þar til íslensk stjórnvöld átta sig á þeirri staðreynd.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)